133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:08]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn og aftur í sölum þingsins frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Fyrst var það sf. að mig minnir, síðan hf. á síðasta þingi og nú ræðum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf.

Það er skoðun mín og okkar sem höfum talað fyrir Samfylkinguna að það sé löngu kominn tími á að nútímavæða Ríkisútvarpið. Það hefur verið skoðun okkar lengi og við höfum lagt fram talsvert af tillögum þar að lútandi. Einnig hefur verið lagt fram frumvarp þessa efnis að frumkvæði Marðar Árnasonar og fleiri. Við höfum líka greint frá því í ræðu og riti hvernig við hefðum viljað sjá slíka nútímavæðingu á útvarpinu fara fram.

Virðulegi forseti. Ríkisútvarpið er gríðarlega mikilvæg stofnun í samfélagi okkar eins og ég hef áður sagt í þessum stóli. Það hefur gríðarlega mikilvægt gildi fyrir lýðræðið í landinu, fyrir menningu okkar og sögu og einnig fyrir öryggi borgaranna. Þess vegna hefði ég kosið að um þetta mál ríkti sátt, að unnið væri að nútímavæðingu Ríkisútvarpsins á þverpólitískan hátt og í samstarfi allra flokka sem sæti eiga á Alþingi auk þeirra fjölmörgu aðila sem hafa tengsl og taugar til Ríkisútvarpsins. Við sáum glöggt á þeim umsögnum sem komu um frumvarpið sem lá fyrir á síðasta þingi að fjölmargir hafa góðar og mikilvægar ábendingar fram að færa varðandi Ríkisútvarpið og framtíð þess.

Ég tel að ekki hafi verið komið nægilega til móts við þær athugasemdir í því frumvarpi sem nú liggur fyrir, Ríkisútvarpinu ohf., að of litlar breytingar hafi verið gerðar frá því að við vorum að ræða Ríkisútvarpið hf. en ég tek þó fram að auðvitað hafa einhverjar af þeim athugasemdum verið teknar inn. Ég fagna því sérstaklega að tekið hafi verið á þáttum er varða innlenda dagskrárgerð og menn hafi sýnt það í verki að þar eigi að taka á málum og skilgreina hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er í því að miðla innlendri dagskrárgerð.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan hefur verið sátt um að það verði að gera breytingar á Ríkisútvarpinu og breyta lögum um Ríkisútvarpið. Á þetta hefur verið kallað vegna þess að við búum nú við við gerbreytt fjölmiðlaumhverfi. Fjölmiðlaumhverfið hefur gerbreyst á undanförnum árum og áratugum eða frá því að útvarp var gefið frjálst fyrir 21 ári. Ég tel að við þurfum að ræða þetta mál á þverpólitískan hátt vegna þess, og ég ætla að koma inn á það í ræðu minn, að það eru sérstaklega þrjú atriði, sem ég tel vera stærstu og umdeildustu atriðin í þessu frumvarpi, sem hefði þurft að taka þverpólitíska umræðu um. Það er í fyrsta lagi fjármögnun Ríkisútvarpsins. Ég tel að hér sé verið að fara vonda leið, þ.e. að leggja afnotagjöldin niður og taka upp svokallaðan nefskatt í staðinn og er ósammála því að sú leið sé farin. Í öðru lagi er ég undrandi á því að hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin ætli að halda áfram að láta stjórn Ríkisútvarpsins endurspegla valdahlutfall á Alþingi hverju sinni. Þetta er auðvitað afar umdeilt atriði og hefur verið það. Ég hefði talið farsælla að fara þarna aðra leið og hlusta á þá sem hafa gagnrýnt þetta. Mun ég koma betur inn á það síðar í ræðu minni. Í þriðja lagi finnst mér því ekki hafa verið svarað á fullnægjandi hátt hvers vegna hlutafélagaformið var tekið fram yfir sjálfseignarformið. Það hefur sýnt sig í okkar samfélagi að sjálfseignarformið hefur gagnast mjög vel sem rekstrarform á fyrirtækjum í ríkiseigu og fyrirtækjum með almannahag að leiðarljósi. Ég tel því að þeirri spurningu ekki hafa verið svarað nægilega.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvers vegna ekki var farin sú leið þegar ljóst var að leggja þyrfti fram þriðja frumvarpið um Ríkisútvarpið á jafnmörgum árum að kalla alla að einu borði og skapa sátt um þessa mikilvægu stofnun, eins og gert var í fjölmiðlamálinu. Ég vona að því verði svarað vegna þess að ég tel mikilvægt að við fáum rökstuðning fyrir því hvers vegna sú leið var ekki farin þar sem um svo mikilvæga stofnun er að ræða.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi þá eru þrjú atriði sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni, þar sem þetta mál er nú að fara til umfjöllunar í nefnd, og vona að nefndarmenn eigi eftir að ræða vel í störfum nefndarinnar. Það eru hin afar umdeildu atriði sem eru hvernig stjórnskipulagið verður á stofnuninni og ekki síst nefskatturinn.

Í fyrsta lagi vil ég ræða örlítið um nefskattinn en eins og ég sagði áðan tel ég nefskattinn vera afar vonda leið til að fjármagna Ríkisútvarpið. Mér finnst þetta vera arfavond hugmynd vegna þess að hún mismunar borgurum landsins. Hún getur leitt til mikils álags og aukinna útgjalda til Ríkisútvarpsins á stórar fjölskyldur þar sem ungmenni yfir 16 ára eru í heimahúsum og, frú forseti, þá verð ég að segja að þetta er pólitík sem mér líkar afar illa vegna þess að slíkur nefskattur mismunar hópum. Honum hefur verið mótmælt í fjölda umsagna sem komu fram á síðasta þingi með frumvarpi um Ríkisútvarpið hf. og ég geri ráð fyrir að sömu mótmæli eigi eftir að koma fram núna við umræðuna um Ríkisútvarpið ohf.

Það sem ég tel líka að verði að koma fram í þessari umræðu er umsögn ríkisskattstjóra um nefskattinn sem kom fram á síðasta þingi og var í rauninni mjög merkileg. Þar mótmælti ríkisskattstjóri þessari leið í afar vel rökstuddu og löngu máli í umsögn. Þar er sagt að helsti ókostur nefskatts sé sá að ekki sé tekið tillit til greiðslugetu og að hann sé íþyngjandi fyrir tekjulága þar sem þeir greiði hlutfallslega meira en hinir tekjuháu. Í umsögninni sagði ríkisskattstjóri líka að þetta væri gamaldags leið og hann rakti sögu nefskatts á mjög skemmtilegan hátt. Hann nefnir einnig að fyrr á öldum hafi nefskattar verið algengir en þeir séu að mestu leyti horfnir og rökstyður að þetta sé gamaldags leið til að fjármagna stofnun eða skattleggja menn.

Það sem mér þykir í rauninni allra mikilvægast í þessu, og kemur líka fram í umsögn ríkisskattstjóra, er að allstór hópur manna í samfélaginu hefur miklar tekjur af eignum en lágar launatekjur og yrði þar með undanþeginn nefskattinum, þannig að þeir sem í raun eru tekjuháir í gegnum eignir og greiða þar af leiðandi fjármagnstekjuskatt þeir væru undanþegnir slíkum nefskatti vegna frítekjumarksins sem er tengt launatekjum.

Frú forseti. Þetta hlýtur að vera ákveðið hugsunarleysi eða einhver örlítil villa í þessu hjá hæstv. ríkisstjórn því hér er enn og aftur verið að leggja skatt á venjulega launamenn og algjörlega óháð tekjum þeirra og stórir fjármagnstekjuskattseigendur verða undanþegnir greiðslu á þessum skatti vegna frítekjumarkanna og lágra uppgefinna launatekna. Það segir í frumvarpinu að það verði skattfrelsismörk en þau eru með þeim annmarka að það er eingöngu miðað við almennar tekjur, þ.e. launatekjur, en ekki fjármagnstekjur.

Þetta skiptir mig miklu máli vegna þess að í fyrirliggjandi tilviki er þetta þannig að sá hópur sem hefur mjög lágar launatekjur en mjög háar tekjur af eignum þarf ekki að greiða þennan skatt. Ég vonast til þess að hv. menntamálanefnd fari vel yfir þessa gagnrýni. Mér þykir í raun miður að menn hafi ekki skoðað þetta betur í sumar á meðan var verið að fara yfir það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta dæmi um hversu stutt ríkisstjórnin hugsar málið og málin ekki vera hugsuð til enda og þetta á eftir að bitna á þeim tekjulægstu og þeim fjölskyldum þar sem unglingar yfir 16 ára aldri búa í heimahúsum og hafa einhverjar örlitlar tekjur en frítekjumarkið er afar lágt. En 16 ára og eldri ungmenni sem búa í heimahúsum hafa oft einhverjar tekjur en þó ekki nægjanlegar til að standa á eigin fótum.

Virðulegi forseti. Þessi nefskattur á að mínu mati eftir að verða afar umdeildur en ég skil á hvaða ferðalagi hæstv. ríkisstjórn er. Þau afnotagjöld sem við höfum núna eru vægast sagt umdeild og hafa verið það í gegnum tíðina, en ég tel að hér sé verið að setja á enn umdeildari skatt til að fjármagna Ríkisútvarpið, vegna þess að hann felur í sér mismunun á borgurum eftir fjölskyldustærð og því hvernig menn skila skattinum sínum. Við vitum að venjulegt launafólk á enga möguleika á að breyta sköttum af launum yfir í fjármagnstekjuskatt. Það geta hins vegar hinir efnameiri sem lifa á eignunum. Þetta gengur auðvitað ekki, frú forseti, að endalaust sé verið að setja byrðar á láglaunafólkið í landinu. Þetta er alls ekki leiðin til þess að skapa sátt um hvernig skuli fjármagna Ríkisútvarpið.

Virðulegi forseti. Örlítið í viðbót varðandi nefskattinn en það er margt í umsögn ríkisskattstjóra frá því í fyrra sem mér finnst að menn verði að skoða betur. Þar er t.d. dálítið merkileg og góð ábending en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögaðilar verði skattlagðir en ríkisskattstjóri benti á í umsögninni að lögaðilar sem yrðu gjaldskyldir samkvæmt frumvarpinu væru um 26 þúsund. Hann nefndi að af þeim hafi um helmingur greitt tekjuskatt eða aðra skatta til ríkissjóðs, þ.e. verið með einhverja virka starfsemi. Því væru nýir skattgreiðendur úr hópi lögaðila um 13 þúsund þegar þetta frumvarp hefur verið gert að lögum. Þá segir í líka umsögninni að vert sé að hafa í huga að ætla mætti að verulegur hluti hina nýju skattgreiðenda yrðu félög sem séu ekki starfandi, eins og ég áður nefndi, og hafi því engar tekjur til að greiða gjaldið af.

Frú forseti. Í þessari umsögn tel ég að fram komi afar sterk rök gegn því að fara nefskattsleiðina og ég tel að hv. menntamálanefnd ætti að skoða þetta mál afar gaumgæfilega vegna þess að við viljum ekki búa til nýtt stríð um það hvernig Ríkisútvarpið sé fjármagnað heldur verðum við að reyna að leita sátta og fara leiðir sem flestir geta sætt sig við. Ég tel það ekki vænlega leið til þess að skapa frið um Ríkisútvarpið að fara leið sem veldur því að einn hópur Íslendinga sleppi hreinlega við nefskattinn, þ.e. þeir sem eru tekjuháir.

Þá er líka vert að benda á umsögn ASÍ frá í fyrra en ég tel mjög mikilvægt að það komi fram að þar lýsti ASÍ yfir efasemdum um að þessi fjármögnunarleið væri rétt leið til að fjármagna Ríkisútvarpið.

Virðulegi forseti. Nóg um nefskattinn en hann verður án efa ræddur frekar í umræðum um Ríkisútvarpið. Það er annað atriði sem ég nefndi áðan að ég ætlaði að ræða sem finnst mér afar undarlegt og það er að í þessu frumvarpi er annað jafnumdeilt atriði og fjármögnunarleiðin, þ.e. stjórnunin innan Ríkisútvarpsins og samsetning stjórnarinnar. Ekki verður lengur um að ræða að það verði útvarpsráð, eins og það er í núverandi mynd, heldur verður fækkað í því og útvarpsráðið gamla kallað stjórn félagsins.

Virðulegi forseti. Það sem er þó afar umdeilanlegt við þessa stjórn, er að það er verið að gefa pólitískum ítökum framhaldslíf vegna þess að valdahlutföll á Alþingi munu áfram endurspeglast í þessari stjórn. Núna verður stjórnin fimm manna þannig að það verða þrír frá þingmeirihluta hverju sinni og tveir frá stjórnarandstöðu. Þetta atriði, virðulegi forseti, hefur verið afar umdeilt og ég tel að það verði að skoða þetta vel. Það hafa komið mjög góðar ábendingar um hvernig megi breyta stjórninni þannig að hún endurspegli fleiri en eingöngu flokka og samsetningu flokka á Alþingi. Ég skil ekki hvers vegna menn vilja ríghalda í þetta form. Ríkisútvarpið á að vera hafið yfir allan vafa um pólitísk ítök en það getur ekki orðið ef stjórnin endurspeglar pólitísk ítök ríkisstjórnarmeirihluta og valdahlutföll á Alþingi hverju sinni.

Það sem mér finnst öllu verra í þessu frumvarpi er að það er í rauninni gefið í hvað pólitísku ítökin varðar vegna þess að þessi stjórn, sem eins og áður sagði er skipuð af ríkisstjórnarmeirihlutanum, hún ræður öllu um hvaða útvarpsstjóri er ráðinn og hún hefur það í hendi sér hvenær hann er rekinn. Virðulegi forseti. Mér finnst það afar varhugavert ef við ætlum að eyða allri tortryggni um pólitísk ítök innan Ríkisútvarpsins að hafa slíkt fyrirkomulag. Við verðum að geta veitt metnaðargjörnum útvarpsstjórum framtíðarinnar starfsfrið frá stjórn sem er að meiri hluta skipuð ríkisstjórnarflokkunum hverju sinni. Ætlum við að gefa útvarpsstjóra starfsfrið þannig að hann fái tækifæri til að setja mark sitt á stofnunina hverju sinni þá getur hann ekki unnið undir þeim kringumstæðum að séu störf hans ekki þóknanleg ríkisstjórn hverju sinni geti stjórnin rekið hann.

Frú forseti. Á þessu verður að taka og ég vona að góð umræða fari fram um þetta í hv. menntamálanefnd og þetta verði rætt vel innan nefndarinnar vegna þess að mér finnst þetta afar ófrjó niðurstaða hjá ríkisstjórninni að fara þessa leið og sérstaklega vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um hin pólitísku ítök innan Ríkisútvarpsins. Ég er ekki endilega að halda því fram að svo sé og þarna vinnur gríðarlega sterkt og sjálfstætt starfsfólk en það sem ég vil að komi skýrt fram er að stofnunin Ríkisútvarpið, sem hefur þetta menningarlega mikilvægi, hefur þetta lýðræðislega mikilvægi, fái að starfa í friði án tortryggni um pólitísk ítök.

Ég hefði haldið, frú forseti, að menn vildu gera slíkar breytingar núna samhliða þeim róttæku breytingum á rekstrarformi, rekstri og umhverfi Ríkisútvarpsins sem fram undan eru. Að þá ætti að veita stofnuninni raunverulegt sjálfstæði til að starfa í breyttu fjölmiðlaumhverfi. Það er ekki gert með þessu.

Það á, frú forseti, að skapa Ríkisútvarpinu skarpa og skýra lagagrind sem skilgreinir almannaútvarpið vel en það á að afnema þessi sterku pólitísku ítök. Þegar útvarpsstjóri hverju sinni er farinn að búa við það að á hverjum degi geti hangið yfir honum uppsagnarbréf sé ekki farið að vilja ríkisstjórnarinnar þá erum við komin inn á slæmar brautir og þá er ekki skapaður sá friður sem á að ríkja um rekstur ríkisútvarps í samfélaginu.

Frú forseti. Þetta var gagnrýnt í fjölmörgum umsögnum sem bárust um málið á síðasta þingi. Í þeim umsögnum kom fram gagnrýni á að ekki skuli aðrir en pólitískir fulltrúar komast að í stjórnina. Var m.a. lagt til af nokkrum aðilum að sett yrði á laggirnar nokkurs konar neytendaráð eða svokölluð akademía innan Ríkisútvarpsins sem væri ráðgefandi. Það kom m.a. fram í umsögn talsmanns neytenda. Neytendasamtökin nefndu þetta líka og sömuleiðis starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins og Blaðamannafélagið. Blaðamannafélagið sagði m.a. að aðkoma eigenda, þ.e. almennings, og starfsmanna að stjórn fyrirtækisins væri ónóg. Ég hefði viljað að menn hefðu í sumar farið yfir umsagnirnar. Þær eru gríðarlega mikilvægar og frá aðilum sem tala máli þeirra sem bera hag þessarar stofnunar fyrir brjósti. Það er nefnilega ekki mál okkar stjórnmálamanna hvernig Ríkisútvarpið er rekið. Það getur viðhaldið þeim óróa sem verið hefur og hefur endrum og sinnum skotist upp í kringum Ríkisútvarpið ef við ríghöldum í þetta fyrirkomulag.

Frú forseti. Ég hefði t.d. viljað að það hefði verið rætt fyrir alvöru að fá tvo utanaðkomandi aðila inn í stjórnina þannig að hún yrði sjö manna, þannig að það verði ekki ríkisstjórnarmeirihluti hverju sinni sem stýrir Ríkisútvarpinu. Hv. þm. Mörður Árnason nefndi í fyrra að það væri t.d. eðlilegt að inn kæmu tveir fulltrúar frá starfsmönnum Ríkisútvarpsins eða tveir utan stofnunarinnar og þannig þyrfti að ná samstöðu um málin innan stjórnarinnar — það kæmu ekki skipanir úr ráðuneytinu um stjórn útvarpsins heldur þyrftu menn að koma sér saman um niðurstöðu. Það er farsælast þegar um jafnmikilvæga stofnun er að ræða og Ríkisútvarpið.

Ríkisútvarpið á að vera dínamiskt. Þar á að vera raunveruleg og kraftmikil umræða um starfsemina. Þar á að fara fram raunveruleg menningarleg stefnumótun og þar eiga allar raddir að heyrast. Þar á fólkið í landinu úr hinum ýmsu hópum að fá efni við sitt hæfi en þá verður það líka að eiga almennilega aðkomu að Ríkisútvarpinu til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég tel algerlega vonlaust að menn skuli ætla að halda umræddu fyrirkomulagi áfram. Ég hefði líka, frú forseti, viljað spyrja hæstv. menntamálaráðherra að því hvers vegna ekki hafi verið hlustað á þessi rök og hvers vegna ríghaldið sé í það að eingöngu þingmeirihluti hverju sinni stýri því hvernig stjórnin er skipuð.

Ég vil líka nefna hér að stjórn Blaðamannafélagsins lagði til í fyrra að fleiri aðilar en Alþingi fái að skipa fulltrúa í stjórn félagsins — ég nefndi það áðan — og lagði t.d. til að starfsmenn Ríkisútvarpsins fái þar aðild. Er í því sambandi bent á að slíkt eigi sér fordæmi í nágrannalöndum okkar. Útvarpsráð NRK sé til að mynda skipað níu mönnum og þar séu þrír fulltrúar starfsmanna. Þannig megi stuðla að því að önnur sjónarmið en flokkspólitísk ráði för hjá stjórn hlutafélagsins, t.d. þegar um er að ræða ráðningu útvarpsstjóra — og þá ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að í þessu frumvarpi hefur stjórnin líka fullt vald til að reka útvarpsstjóra hvenær sem henni hentar.

Frú forseti. Mér finnst að það hefði líka átt að skoða það mjög vandlega að útvarpsstjóri fengi sömu stöðu og t.d. þjóðleikhússtjóri. Hann yrði þá ráðinn til fimm ára og yrði með umboð til að starfa fyrir þjóðina að kröftugri uppbyggingu Ríkisútvarpsins þann tíma. Þar með sæti hann, sá sem situr þar hverju sinni, á friðarstóli og gæti sett sitt mark á stofnunina. Þetta finnst mér gríðarlega mikilvægt.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það en mér finnst dapurt að ríkisstjórnin og menntamálaráðherra hafi ekki tekið og skoðað þessi tvö atriði betur eða í það minnsta svarað því hvers vegna þessu sé haldið til streitu. Ég tel að aldrei skapist friður um Ríkisútvarpið í framtíðinni ef nefskattur verður að lögum og ef stjórnin verður áfram þannig að hún endurspegli valdahlutföll á Alþingi hverju sinni. Við verðum að fá önnur og fleiri sjónarmið inn í stjórnina til að tryggja þar kraftmikla og dínamiska umræðu. Það er ekki hægt að láta Ríkisútvarpið starfa undir því að ríkisstjórnarmeirihluti hverju sinni fari með meiri hluta í stjórninni. Þessu verðum við að breyta. Ég tel það algert glapræði af þinginu að ætla að samþykkja slíkt fyrirkomulag fyrir Ríkisútvarpið til framtíðar.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað nefna fleiri þætti. Ég ætla að koma örlítið inn á það. Ég vona að menntamálanefnd muni taka þessi tvö stóru umdeildu atriði til verulegrar endurskoðunar. Ég vona svo sannarlega að út úr þeirri vinnu komi breyting á þessu. Við getum ekki farið nefskattsleiðina og ég vona að menn komi einnig með breytingar á fyrirkomulagi stjórnarinnar.

Frú forseti. Það er ekki hægt að fara í gegnum þessa umræðu án þess að ræða örlítið um rekstrarformið og þá leið sem verið er að velja þar. Í allri þessari umræðu hafa menn talað eins og ekki sé hægt að fara nokkra aðra leið en gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Ég hef verið þessu algerlega ósammála. Það hefur sýnt sig að sjálfseignarstofnun er mjög þekkt rekstrarform í almannaþjónustu sem er oft að stórum hluta til rekið fyrir almannafé. Það er reynsla af því fyrirkomulagi í rekstri stórra glæsilegra stofnana, nokkurra skóla á háskólastigi svo eitthvað sé nefnt. Form sjálfseignarstofnunar er einkaréttarlegs eðlis líkt og hlutafélög og gæfi RÚV það svigrúm og það sjálfstæði sem stofnunin þarf á að halda. Ég tel einnig að ef leið sjálfseignarstofnunar yrði farin skapaðist betri sátt um Ríkisútvarpið en með hlutafélagaleiðinni. Því hefur ekki verið svarað hvers vegna ríkisstjórnin afskrifaði sjálfseignarstofnunarformið svo snemma í ferlinu. Ég hef sagt það hér áður að þetta lítur út fyrir að vera hálftrúarlegs eðlis hjá Sjálfstæðisflokknum að fara þessa leið vegna þess að rökin hafa ekki fylgt. Við getum alveg tekið undir að það þarf að breyta rekstrarforminu hjá Ríkisútvarpinu. Ég nefndi það áðan að við þurfum að nútímavæða það, gefa því meira sjálfstæði þannig að það geti verið öflugt. Ég tel að sjálfseignarstofnunarformið sé betur til þess fallið að ná markmiðum um öflugt almannaútvarp til framtíðar.

Ég hef verið að nefna nokkrar umsagnir sem komu fram í fyrra. Þær eru í fullu gildi um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Mér fannst t.d. áhugavert að talsmaður neytenda telur að hagsmunum neytendaþjónustunnar sé betur borgið ef Ríkisútvarpið verður rekið í formi sjálfseignarstofnunar. Það fannst mér, áhugavert, frú forseti að heyra. Þetta var mjög vel rökstutt í ítarlegri umsögn talsmanns neytenda á síðasta þingi og er enn í gildi.

Frú forseti. Ég tel mjög varhugavert að halda áfram á þeirri braut og halda svo til streitu þessum nefskatti. Við vitum að hann verður umdeildur vegna þess að hann mismunar borgurunum. Ég tel líka að við verðum að skapa Ríkisútvarpinu starfsfrið. Það verður að taka til greina þær tillögur sem hafa komið fram um að tveir utanaðkomandi aðilar verði teknir inn í stjórnina þannig að ekki sé ríkjandi innan stjórnar Ríkisútvarpsins þingmeirihluti hverju sinni. Ég vil líka fá svör við því hvers vegna menn telja þá leið ekki færa að útvarpsstjóri hverju sinni hafi starfsfrið, að ekki hangi yfir honum uppsagnarbréf ef gerðir hans eru ekki þóknanlegur ríkisstjórnarmeirihluta hverju sinni, að hann fái að sitja á friðarstóli og setja í alvörunni mark sitt á stofnunina með því að fá fasta ráðningu í ákveðinn tíma, t.d. fimm ár eins og við höfum góð dæmi um og góða reynslu af í öðrum menningarstofnunum hér á landi.

Frú forseti. Ég hef miklar væntingar um starf menntamálanefndar með þetta frumvarp. Ég vona svo sannarlega að nefndin fari í efnislega umræðu um þá þætti sem ég hef nefnt þannig að við fáum í eitt skipti fyrir öll svör við því hvers vegna menn halda þessum vægast sagt umdeildu atriðum til streitu.