133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:42]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Þuríður Backman lét þau orð falla í ræðu sinni áðan að næði þetta frumvarp RÚV ohf. fram að ganga verði hreinsanir meðal starfsmanna. Ég ætla ekki að taka svo djúpt í árinni en þetta lýsir áhyggjum margra varðandi réttindi þeirra starfsmanna sem starfa við RÚV verði því breytt í opinbert hlutafélag.

Það kom fram í framsöguræðu hæstv. menntamálaráðherra í gær að í sumar hefðu verið gerðar ýmsar breytingar á frumvarpinu til samræmis við þær fjölmörgu tillögur sem voru lagðar fram í menntamálanefnd á síðasta þingi og m.a. komið til móts við stjórnarandstöðuna. Ég get ekki séð að það eigi við um réttindi starfsmanna miðað við þær ábendingar sem komu í umsögnum, bæði frá hinum ýmsu starfsmannasamtökum svo og frá stjórnarandstöðunni.

Þær umsagnir sem komu með frumvarpinu RÚV hf. eru að mestu leyti í fullu gildi og ég ætla aðeins að grípa niður í nokkrar er varða beint starfsmenn. Félagið Útgarður hjá Ríkisútvarpinu telur að ákvæði um réttindi starfsmanna í frumvarpinu séu ekki nægilega skýr og vísar jafnframt í lög um stofnun hlutafélaga Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands frá því í maí 1997, en í þeim eru ákvæði um réttindi starfsmanna þar sem tekið er nákvæmar á málum starfsmanna. Óskuðu Útgarðsmenn eftir því að þau yrðu höfð til hliðsjónar.

Hér er jafnframt umsögn sem kom við frumvarpið um RÚV hf. Hún á jafn vel við núna. Hún er frá Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins, eða SRÚ, þar sem þeir ítreka að þeir vilji fá að halda sínum samningsrétti fyrir hönd núverandi starfsmanna og þeirra sem koma til með að ráðast eftir breytingu á rekstrarformi, verði það samþykkt. Ég spyr: Hvað verður, fá þeir að halda þeim samningsrétti eða ekki?

Við frumvarpið í vor kom einnig umsögn Félags fréttamanna um RÚV-frumvarpið þar sem þeir krefjast þess að félagsmenn verði áfram í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þeir gera að sjálfsögðu skýlausa kröfu um að halda samningsrétti sínum og starfa áfram sem fag- og stéttarfélag fréttamanna.

Frú forseti. Fleiri umsagnir komu með frumvarpinu í vor sem eiga enn við, m.a. frá stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins. Þeir benda réttilega á það sem hefur margoft komið fram í umræðunni í dag og í gær, að þeir telja að starfsmenn eigi skilyrðislaust að eiga tvo fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins, þeir hafi í rúm 25 ár átt tvo áheyrnarfulltrúa í framkvæmdastjórn RÚV og telja eðlilegt að svo verði áfram hjá RÚV ohf., verði það samþykkt.

Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins ítreka einnig að kaflanum um réttindi og skyldur starfsmanna sé ábótavant og telja ljóst að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geti ekki gilt um starfsmennina eftir breytingu Ríkisútvarpsins í Ríkisútvarpið ohf. og hluti af kjörum þeirra teljist því skertur. En að sjálfsögðu er það krafa SSR að starfsmenn haldi öllum áunnum kjörum sínum.

Ég fæ ekki betur séð en að nái þetta frumvarp fram að ganga þá falli niður ýmis atriði varðandi réttindi og skyldur starfsmanna, m.a. svokallaður andmælaréttur, áminningarskylda eða áminningarferli, skriflegur rökstuðningur fyrir uppsögn og auglýsingaskylda á lausum störfum, svo eitthvað sé nefnt.

Við þessa rekstrarformsbreytingu yrði jafnframt skerðing á réttindum starfsmanna sem greiða í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. En iðgjöld þar miðast við þau laun sem starfsmaður hafði þegar staða hans var lögð niður. Iðgjaldagreiðslurnar breytast til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum en hér virðist eiga að verða nokkurs konar frysting á laununum.

Í kafla um meginefni frumvarpsins segir að tryggilega sé búið að réttindum núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins. Þetta stóð líka í frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf. og frumvarpinu um Ríkisútvarpið sf. Því miður er þessi fullyrðing ekki rétt, eins og ég hef bent á og margir umsagnaraðilar jafnframt. Í ákvæði til bráðabirgða II., um réttindi starfsmanna, með leyfi forseta:

„Þegar stofnunin Ríkisútvarpið verður lögð niður, frá og með 1. janúar 2007, fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.“

Þýðir þetta að réttarstaða ríkisstarfsmanna hjá Ríkisútvarpinu breytist ekki? Þegar maður les frumvarpið er ekki annað að sjá en að réttarstaðan bæði breytist og skerðist þegar Ríkisútvarpinu verður breytt í opinbert hlutafélag. Hvað um lögin, frú forseti, sem í gildi eru um kjarasamninga opinberra starfsmanna, lög nr. 94/1986? Munu þau ekki gilda um starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf.? Ef ekki, þá er þar um skerðingu að ræða.

Í umræðunni hefur verið minnst á upplýsinga- og stjórnsýslulög. Með þessu frumvarpi virðist Ríkisútvarpið nánast fært undan ákvæðum þessara laga. Má þar t.d. nefna reglur um auglýsingu á lausum störfum. En í aðilaskiptalögum, lögum nr. 72/2002, segir í II. kafla varðandi réttarvernd starfsmanna, Launakjör og starfsskilyrði, með leyfi forseta:

„Réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað á færast yfir til framsalshafa.

Framsalshafi skal virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.“

Samkvæmt þessu á Ríkisútvarpið ohf. að taka yfir gildandi ráðningarsamninga með þeim réttindum og skyldum, bæði atvinnurekanda og starfsmanna, sem þeim fylgir. Ég spyr: Verður það gert?

Það er rétt að taka fram, frú forseti, að í ráðningarsamningi er tilgreint í hvaða lífeyrissjóð starfsmaðurinn greiðir og þá í hvora deildina hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Varðandi biðlaunarétt segir í frumvarpinu í ákvæðum til bráðabirgða um réttindi starfsmanna að starfsmenn haldi biðlaunarétti sínum verði starf þeirra lagt niður fyrir 31. desember 2009. Þar er að vísu komin smábreyting, úr 2008 í 2009. En í þessu sambandi er rétt að benda flutningsmönnum á að í 34. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir, með leyfi forseta:

„Nú er embætti lagt niður og skal þá embættismaður jafnan halda óbreyttum launakjörum er embættinu fylgdu í sex mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í tólf mánuði, enda hafi hann þá ekki hafnað öðru sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkisins eða annars aðila.“

Ég fæ ekki betur séð, frú forseti, en að frumvarpið stangist á við þessa grein. Það er ekki heimilt að skerða biðlaunaréttinn, rétt sem starfsmenn hafa áunnið sér og eiga. Hann er eins og fram hefur komið í umræðunni verndaður í stjórnarskránni. Samkvæmt þessu frumvarpi er gert ráð fyrir skerðingu á réttindum starfsmanna sem greiða í B-deild Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna í dag. Ekki er minnst á þá sem greiða til A-deildar lífeyrissjóðsins og þá er það spurningin: Hvað með framtíðina? Hvað með nýja starfsmenn, eftir að stofnunin hefur tekið þessum breytingum, ef af verða? Geta nýir starfsmenn verið í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins?

Það er ekki heimilt, frú forseti, að skerða áunnin lífeyrisréttindi eins og ætlunin virðist að gera með þessu frumvarpi. Maður spyr líka: Hverjir verða viðsemjendur starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf.? Er það BHM eða SA?

Ég hef, frú forseti, farið yfir mörg atriði varðandi réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins og fæ ekki betur séð en að frumvarpinu sé ætlað að skerða réttindi þeirra. Um það hefur verið deilt en mér virðist eftir nokkra yfirlegu og það sem ég hef farið skýrt og vel yfir að það sé ekki spurning að menn ætli sér að skerða réttindi starfsmanna. Mörgum hafa verið þyrnir í augum þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa í dag. Þetta frumvarp er kannski hluti af því að ná niður þeim kjörum, sem er mjög slæmt.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína mikið lengri. Ég vil að lokum benda á að í 10. tölulið í upptalningu á meginefni frumvarpsins í athugasemdum, segir:

„Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. án umsagnar eða tillagna annarra aðila gagnstætt því sem nú er. Skv. 6. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið ræður útvarpsstjóri starfsfólk við dagskrá aðeins að fengnum tillögum útvarpsráðs og menntamálaráðherra ræður framkvæmdastjóra einstakra deilda.“

Þetta þýðir þá væntanlega að útvarpsstjóri getur ekki aðeins ráðið heldur og rekið menn, jafnvel eftir geðþóttaákvörðun, eins og menn kalla.

Hér eru því, frú forseti, atriði sem virðast hreinlega til að skerða rétt starfsmanna sem starfa hjá stofnuninni í dag og munu koma til með að starfa þar. Ég ætla að vona að þau orð sem ég vitnaði í í upphafi, úr ræðu hv. þm. Þuríðar Backman, eigi ekki við, a.m.k. ekki að öllu leyti, þ.e. að nái þetta frumvarp fram að ganga þá verði hreinsanir meðal starfsmanna. Ég tel fulla ástæðu fyrir okkur öll að hafa áhyggjur af þeim möguleika. Það virðist, miðað við þau atriði sem ég hef tínt til, að þetta frumvarp sé að hluta lagt fram til að skerða kjör þeirra.