133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:10]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn hamast hv. þingmaður á því að hér sé verið að stíga skref í átt til sölu á Ríkisútvarpinu. Eins og margsinnis hefur komið fram í ræðum þeirra sem standa að frumvarpinu, þeirra sem styðja það og þeirra sem flytja það, er ekki verið að stíga skref í þá átt heldur ef til vill þvert á móti. Það er verið að stíga skref frá því með því að kalla þetta opinbert hlutafélag, hlutafélag í eigu hins opinbera. Þess vegna velja menn það form en ekki eignarhaldsfélag eða einkahlutafélag eða eitthvað í þeim dúr. Þar að auki er þess getið sérstaklega að óheimilt sé að selja. Í dag er tiltölulega auðvelt að selja hluta af og jafnvel Ríkisútvarpið allt einungis með einni klausu við fjárlagagerðina. Í raun og veru, hv. þingmaður, er verið að stíga skref frá söluátt en ekki í áttina að sölu. Ég veit að hv. þingmaður skilur það.

Hv. þingmaður beindi til mín mörgum spurningum. Það er erfitt að svara þeim öllum á stuttum tíma. Hvað varðar fjármögnunina liggur það fyrir, og yfirlýsing um það m.a. frá hæstv. menntamálaráðherra, að fjármögnun og fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins verði tryggð. Það liggur líka ljóst fyrir að það þarf m.a. — og það er grunnurinn að þessu öllu saman — að styrkja umhverfið, það er að skapa þann sveigjanleika sem ég fór hér yfir í ræðu minni, með því rekstrarformi sem hér er verið að skapa. Þegar hið nýja hlutafélag í eigu hins opinbera siglir út á þennan samkeppnissjó mun því verða tryggð sú fjárhagslega staða sem nauðsynleg er. Ég verð að koma að því í síðara andsvari mínu hvort sátt ríkir um nefskatt eða ekki