133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:20]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hlýtur, jafnötull og hann er, að ferðast um kjördæmi sitt þar sem mörg fyrirtæki eru. Hann hlýtur að hafa tekið eftir því að í atvinnulífinu hafa hlutafélög verið að ryðja sér til rúms með ástæðum sem ég gat um áðan. Það sem verið er að gera með þessu frumvarpi um opinber hlutafélög, er að verið er að taka þá kosti sem fylgja hinum sveigjanlegu og dínamísku hlutafélögum og færa þá inn í opinberar stofnanir með því að kalla það opinber hlutafélög, ekki einkahlutafélög. Það er verið að sækja þennan sveigjanleika sem hefur gefist svo vel í atvinnulífinu og reyna að láta hann njóta sín í opinbera geiranum. (Gripið fram í.) Ef hv. þingmaður á erfitt með að skilja þetta vil ég vísa honum á hv. formann Samfylkingarinnar sem sagði í umræðu og í fjölmiðlum að það gæti vel komið til greina að láta hlutafélagalög gilda um Ríkisútvarpið, væntanlega með sömu rökum og var verið að reyna að færa hér.