133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:23]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér voru bæði spurningar og svör. Hv. þingmaður svaraði líka, það er því kannski óþarfi að vera að svara. Fyrst hv. þingmaður veit svörin er óþarfi að spyrja. En það er mjög auðvelt að svara þeirri spurningu hvers vegna Framsóknarflokkurinn mælir ekki með því að farið sé með þetta í sölu. Það er mjög einfalt og búið er að svara því, hv. þingmaður veit það. Ég lít á þessar athugasemdir hans sem hreinan útúrsnúning. Það hefur komið ítrekað fram að enginn áhugi er á því að setja Ríkisútvarpið í sölu heldur er þvert á móti verið að stíga í allt aðra átt. Það er verið að gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi af því að menn vilja halda því í opinberri eigu. Verið er að setja inn ákvæði um að ekki megi selja það af því að menn vilja halda því í opinberri eigu. Og að halda öðru fram er í rauninni útúrsnúningur og hv. þingmaður veit það. En ef hann hefur gaman af að skemmta sér við það þá er honum það velkomið. (Gripið fram í.)