133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:27]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er dálítið sérkennilegt að standa hér og flytja ræðu um mál sem verið hefur til umfjöllunar á þingi nokkuð oft áður, þ.e. um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég hef fylgst með þeim umræðum sem hafa átt sér stað og get ekki orða bundist að nefna að við þessa umræðu hefur ekkert bæst, ekki nokkur skapaður hlutur frá því að við sátum í þessum þingsal fyrir nokkrum mánuðum og ræddum nákvæmlega sama hlut.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa spurt sömu spurninganna og þeir hafa margoft spurt áður, spurningar sem hefur verið svarað í vandlegri umfjöllun og meðferð á þessu máli. Það er nefnilega þannig að málið er í eðli sínu og að efni til sama mál og við fjölluðum um á síðasta þingi að öðru leyti en því að nú er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði gert að opinberu hlutafélagi, sem stafar af nýsettri löggjöf sem samþykkt var á Alþingi á síðasta löggjafarþingi.

Það verður að játast að þegar maður situr undir slíkum ræðum og undir þeim spurningum sem komið hafa frá stjórnarandstöðuþingmönnum líður manni dálítið eins og maður sé staddur í þekktri bandarískri kvikmynd sem heitir „Groundhog Day“ og gekk út á það að ágætur maður lenti í því að hann upplifði alltaf sömu atburði sama dags aftur og aftur. Mér líður dálítið eins og aðalpersónunni í þeirri kvikmynd. Maður situr hér undir sömu spurningunum og sama málflutningi, nákvæmlega sömu gömlu tuggunum og voru viðhafðar fyrir nokkrum mánuðum. (ÖJ: Þess vegna er svo gaman að heyra svona ferskan málflutning.) Ja, ég ætla mér ekki, hv. þingmaður, að vera með neinn ferskan málflutning hérna, ég sé enga ástæðu til þess. Við erum búin að ræða öll efnisatriði málsins alveg ofan í kjölinn og það hefur ekkert nýtt bæst við, hvorki frá flutningsmanni frumvarpsins, þeim sem að því standa og allra síst frá stjórnarandstöðunni.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því og koma að því atriði sem skiptir kannski mestu máli í þessu og það er að þegar við ræddum þessi mál á síðasta þingi þá var það þannig í 1. umr. að helstu talsmenn stjórnarandstöðunnar, þ.e. helstu talsmenn Samfylkingarinnar í málinu, hv. þingmenn Mörður Árnason og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tóku því alls ekki illa að það gæti vel komið til greina að reka Ríkisútvarpið í hlutafélagaformi. Hins vegar voru í ræðum þeirra og málflutningi gerðar athugasemdir við ýmis atriði frumvarpsins sem þá var rætt. Þær athugasemdir lutu einkum að því að upplýsingalög væru ekki látin gilda um Ríkisútvarpið og að hætta kynni að stafa af því að hugsanlega yrðu menningarleg verðmæti seld út úr hinu nýja hlutafélagi. Auðvitað voru gerðar fleiri athugasemdir en þetta voru að mínu mati meginathugasemdir Samfylkingarinnar á þeim tíma.

Lagt var út í mikla vinnu við meðferð málsins og meiri hluti menntamálanefndar skilaði af sér tveimur vönduðum nefndarálitum. Mig langar sérstaklega til að vekja athygli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem er staddur í salnum, og öðrum gagnrýnendum þessa frumvarps, á að lesa það framhaldsnefndarálit vegna þess að í því nefndaráliti, framhaldsnefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar, er sérstaklega fjallað um eiginfjárstöðu hins nýja félags. Í nefndarálitinu er tekið upp orðrétt minnisblað frá menntamálaráðherra og fjármálaráðherra til nefndarinnar, sem dagsett er 24. apríl 2006, þar sem gerð er grein fyrir því með hvaða hætti eiginfjárhlutfall félagsins verður og hvernig fjármálum þess verður komið fyrir við stofnun þess. Á þeim grunni sem þetta minnisblað og sú stefnumörkun sem þar kemur fram verður unnið í tengslum við það félag sem hér er til umfjöllunar.

Á síðasta löggjafarþingi lagði stjórnarmeirihlutinn sig virkilega fram við að reyna að lægja öldurnar sem voru í þingsalnum vegna þessa máls. Stjórnarmeirihlutinn lagði sig í framkróka við að koma til móts við þær athugasemdir sem fram komu frá stjórnarandstöðunni og segja má að sjaldan hafi verið gengið jafnlangt á síðustu árum eða bara í þingsögunni til móts við — ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson hlær en ég bið hann um að benda mér á önnur dæmi og betri vegna þess að þau verður erfitt að finna. En ég man ekki til þess að stjórnarmeirihlutinn hafi komið jafnhressilega til móts við athugasemdir stjórnarandstöðunnar og gert var á síðasta löggjafarþingi vegna þess að við lögðum til að gerðar yrðu fjórar breytingar á frumvarpinu eftir 2. umr. málsins, eins og ég veit að hv. þingmanni er í fersku minni. Í fyrsta lagi var lagt til að Ríkisútvarpinu hf. yrði gert óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað og rekur sjónvarpsstöð og sú málsgrein bættist við 1. gr. þess frumvarps sem við ræddum í fyrra. Sú viðbót var tilkomin vegna fjölmiðlafrumvarps sem lagt var fram á þinginu og fulltrúar allra stjórnmálaflokka stóðu að.

Í annan stað lögðum við til að inn í lögin yrði tekið ákvæði þess efnis að menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu hf. bæri að gera með sér sérstakan þjónustusamning um markmið og umfang og nánari kröfur um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þetta var gert til að koma til móts við þær athugasemdir sem menn höfðu haft uppi varðandi hugsanlegar athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA um frumvarpið og var talið og við teljum enn að með því ákvæði sé girt fyrir þann möguleika að sú ágæta stofnun geri einhverjar athugasemdir við efni frumvarpsins. Nú hefur hæstv. menntamálaráðherra gengið enn lengra en gert var síðasta vor með því að birta þennan samning. Ekki verður annað sagt en að öll spilin hafi verið lögð á borðið fyrir stjórnarandstöðuna í þeim efnum og ekki verið að fela neitt í því sambandi.

Í þriðja lagi er komið til móts við eina af meginathugasemdum stjórnarandstöðunnar sem var sú að það yrði að girða fyrir að mikilvæg menningarverðmæti, eins og upptökur, söfn og fleira yrðu seld út úr hinu nýja félagi og það var gert með því að bæta inn í frumvarpið ákvæði sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpinu er óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og varðveitt eru hjá félaginu.“

Maður hefði ætlað að fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mundu fagna þeirri breytingu vegna þess að varaþingmaður þeirra, hv. þm. Atli Gíslason, var sá þingmaður sem barðist hvað harkalegast fyrir því að þessari lagabreytingu yrði komið á í meðförum nefndarinnar á málinu. En ég hef hins vegar ekki orðið mjög var við fagnaðarlætin hjá hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og undrast það að þeir virði það ekki við okkur í stjórnarmeirihlutanum að hafa komið með þessum hætti til móts við kröfur þeirra. En það er nú einhvern veginn þannig að sjaldan launar kálfur ofeldi og menn vilja og hafa viljað mála skrattann á vegginn hvað alla hluti varðar þegar um Ríkisútvarpið er rætt.

Í fjórða lagi er það sú breyting sem fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðu gríðarlega áherslu á að næði fram að ganga við 1. umr. málsins síðasta vor og það var að upplýsingalög yrðu látin gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins, sem er undantekning frá því sem verið hefur varðandi hlutafélög í opinberri eigu. Ég man ekki eftir neinu hlutafélagi sem er í ríkiseigu sem er fellt undir upplýsingalög, en sú breyting var gerð síðasta vor á frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið hf. til að reyna að rétta stjórnarandstöðunni sáttarhönd í málinu. Á þá sáttarhönd var slegið og það kom reyndar í ljós í umræðum í nefndinni á sínum tíma að það var enginn sáttatónn, að minnsta kosti ekki í þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þeir verða þá að eiga það við sig. Ég held að þjóðin sé orðin leið á umræðum og málþófi stjórnarandstöðunnar um málið. Það er búið að velta öllum steinum við í málinu sem fyrir okkur hafa orðið. Ég held að öllum spurningum um það hafi verið svarað. Það stendur því í sjálfu sér ekkert út af borðinu.

Það hlýtur að vekja athygli hjá stjórnarandstöðunni að nú eru ýmsir þeir sem hafa hagsmuni af starfsemi Ríkisútvarpsins, ekki bara starfsmenn þess heldur einnig aðrir, sem standa að dagskrárgerð eða kvikmyndagerð, og eiga ýmislegt undir þeirri ágætu stofnun, farnir að hvetja til þess að málinu verði lokið. Með öðrum orðum, ég get ekki betur séð en fulltrúar hinna ýmsu stéttarfélaga séu farnir að sveigja sig frá stjórnarandstöðuflokkunum yfir til okkar sem viljum ljúka vafanum og efanum um framtíð Ríkisútvarpsins. Þess vegna held ég að við ættum að fara að stytta þessar umræður og fara að taka málið til vinnslu í nefndinni. Það er fátt sem stendur út af. Öllum spurningum hefur verið svarað, ekki nema eitthvað nýtt komi frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, hv. þingmönnum, við þessa umræðu en ég hef ekki orðið var við að nýjar röksemdir eða ný álitaefni hafi skotið upp kollinum í þeim umræðum sem hér hafa farið fram, að minnsta kosti ekki fram til þessa.