133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:52]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hvar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur verið í allri þeirri umræðu sem við höfum átt um Ríkisútvarpið og framtíð þess. Ég hef aldrei útilokað að hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði verði tekin til skoðunar og takmörkuð frá því sem nú er. Ég hef margoft lýst því úr þessum ræðustól og í opinberri umræðu um málefni Ríkisútvarpsins.

Ég mundi fagna því ef sátt næðist um slíkt. Ég veit ekki til þess að hæstv. menntamálaráðherra hafi útilokað að gerðar yrðu breytingar á hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Við skulum ræða það í nefndinni og skoða það.

Hv. þingmaður hefur verið að tala fyrir þessum sjónarmiðum hér á þinginu. Mér er vel kunnugt um það. En hann hefur hins vegar aldrei sett fram skoðanir á því hvernig eigi að leysa þann tekjumissi sem af því skapast. (Forseti hringir.) Vill hv. þingmaður t.d. hækka nefskattinn? Eða hvernig ætlar hann að mæta þeim tekjumissi?