133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:58]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ætli ég hafi ekki gengið fulllangt í þessu. Það er best að ég biðjist afsökunar á því við forseta og þann þingmann sem fyrir varð. Ég teiknaði upp myndina sem þingmaðurinn sjálfur gerði af sér í gær þar sem hann hafði rétt út sáttarhendurnar og þær höfðu verið rifnar af honum ein af annarri. Urðu greinilega margar. Endaði með því að sjá fyrir mér aumingja af einhverju tagi sem léti fara svo með sig. En það er hægt að misskilja þetta og þetta var ekki til vanvirðu ætlað þingmanninum.

En hann tók þetta hins vegar óstinnt upp og kaus að nota þetta til að svara ekki því sem ég beindi til hans þó það væru ekki beinar spurningar — spurningin um það hvernig stendur á því að stjórnarmeirihlutinn, hann sjálfur hv. og hæstv. menntamálaráðherra hafa ekki hreyft sig af þessari línu hlutafélagsins og af þessari línu hinnar pólitísku stjórnunar.

Ég held að það sé vegna þess að þetta sé samloka. Þetta séu tvær skeljar utan um sömu lífveruna sem er að halda fullri stjórn á Ríkisútvarpinu meðan um það er vélað hver framtíð þess eigi að vera.