133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:00]
Hlusta

Árni Steinar Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Eins og fram kom í andsvörum er mönnum heitt í hamsi. Ég hef ekki komið að þessari umræðu sem þingmaður en um þetta mál hefur margt verið sagt og mér finnst með ólíkindum að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki freista þess, það má enn vona að svo verði, að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna. Manni sýnist kannski fimm eða sex atkvæði standa út af og verulegur ágreiningur er um.

Eftir að hafa hlustað á ræður stjórnarliða er náttúrlega stærsta málið í þeirra augum formbreytingin í opinbert hlutafélag. Ef það er ásetningur manna að Ríkisútvarpið verði ekki selt í nánustu framtíð þá spyr maður sig: Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að ná til stjórnarandstöðunnar varðandi þetta mál og hverfa t.d. frá atriðum eins og opinberu hlutafélagi og stjórn hins nýja opinbera hlutafélags samkvæmt frumvarpinu?

Það er von mín og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að fram fari góð umræða um þessi mál og menn geti enn á ný sest niður og reynt að ná sáttum í málinu. Þurfi að vera sátt um einhverja stofnun í samfélagi okkar þá er það Ríkisútvarpið. Við höfum töluverða sérstöðu, Íslendingar. Við erum fá, 300 þúsund manns í 103 þúsund ferkílómetra landi eða þar um bil. Ríkisútvarpið gegnir lykilstöðu í að byggja þetta land fyrir alla landsmenn. Við verðum að átta okkur á því að margir afskekktir landshlutar njóta ekki fjölmiðlunar frá útvarpsstöðvum eða sjónvarpsstöðvum. Þó verður að segjast að Ríkisútvarpið nær til hér um bil allra landsmanna og út á mið þótt þar megi bæta um betur. Þess vegna hræðir mann sú hugsun sem læðist að manni í ljósi sögunnar, að ráðist sé í formbreytingu í opinbert hlutafélag til að á seinni stigum verði farið í að selja Ríkisútvarpið. Setja það á markað.

Í Ríkisútvarpinu eru kannski ein stærstu menningarverðmæti þjóðarinnar geymd, hin nýja saga þjóðarinnar frá því að Ríkisútvarpið var stofnað. Þetta er stór og mikil saga sem alltaf er sótt í, hún endurspiluð eða endursýnd og er mörgum okkar gríðarlega mikils virði. Vegna stöðu sinnar hefur Ríkisútvarpið þá stöðu, eitt fjölmiðlafyrirtækjanna, að geta kúplað nánast alla landsmenn til hlustunar á einum stað. Það hefur margkomið fram að Ríkisútvarpið gegnir lykilhlutverki varðandi almannavarnir í landinu. Þetta eru verðmæti og öryggi sem ég og félagar mínir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði megum ekki hugsa til að verði látin lúta lögmálum markaðarins.

Við erum ekki á móti hlutafélagaformi í rekstri en við drögum skýr skil á milli almenningsþjónustu og samkeppnisreksturs. Við erum ekki á móti því að fyrirtæki í samkeppnisrekstri séu hlutafélög. En eins og ég drap á áðan þá hræða sporin. Ég nefni sérstaklega til sögunnar Framsóknarflokkinn sem í umræðunni og aðdraganda að sölu Símans sór það þráfaldlega af sér að til stæði að selja Símann í heilu lagi. Lengst af var hangið á því að a.m.k. ætti ekki að selja grunnnetið. Landssíminn hafði og hefur gríðarlegt vægi í fjölmiðlun í svo stóru landi á sama hátt og Ríkisútvarpið hefur í þessu stóra fjallalandi þar sem er mjög fátt fólk miðað við annars staðar í heiminum.

Við samþykkt á frumvarpi um sölu Símans ber að geta þess að engar kvaðir voru á hendur hinu nýja fyrirtæki, hlutafélaginu, um að þjónusta landið. Þar kem ég að aðaláhyggjuefninu til lengri tíma litið hvað varðar Ríkisútvarpið. Ég óttast að þetta frumvarp, með þessari klásúlu um opinbert hlutafélag, sé undanfari þess að Ríkisútvarpið verði selt eða bútað niður. Hið sama óttaðist ég um stöðu mála varðandi Landssímann, sérstaklega þó á seinni stigum þess máls er rætt var um að undanskilja grunnnetið.

Hvernig stöndum við núna varðandi Landssímann og fjarskiptin? Við stöndum í þeim sporum að eftir hlutafélagavæðingu stendur ríkissjóður eða samgönguráðuneytið uppi með það að til að koma fjarskiptum í nútímalegt horf þarf að taka peninga af ríkisfé til að setja í uppbyggingu. Eftir einkavæðingu Landssímans hefur uppbygging í fjarskiptum stöðvast á mörgum sviðum. Með fjárframlögum úr Fjarskiptasjóði og nú síðast með aukaframlögum á fjáraukalögum þarf að setja verulegar upphæðir til að stoppa í hin svörtu göt, aðallega á Þjóðvegi 1 vítt og breitt um landið. Við sem höfum unnið úti á landsbyggðinni í kjölfar einkavæðingar á Landssímanum vitum fullvel að enn eru sömu holurnar hvað fjarskipti varðar óuppfylltar, enda engin kvöð á fyrirtækinu að gera slíkt.

Verði Ríkisútvarpið selt skapast nákvæmlega sama ástand og varðandi sölu Landssímans, þ.e. að dreifbýlið og þjónusta við dreifbýlið lendir að öllu leyti á ríkissjóði, standi hugur manna til þess að bæta þjónustuna um fram það sem verið hefur, ég tala ekki um að fara yfir í nútíðarvæðingu og uppsetningu nýrra tækja.

Þeir flokkar sem standa að ríkisstjórn Íslands í dag hafa staðið í sölu ríkisfyrirtækja, selt bankana og selt Landssímann, sem allt var í ríkiseign. En undanfari þess að selja hefur ávallt verið að breyta viðkomandi stofnun eða fyrirtæki í hlutafélag til að auðvelda söluna.

Það er mikilvægt fyrir fjölmiðil eins og Ríkisútvarpið, ég held að við getum litið til allra nágrannalanda okkar í því efni, að mennirnir innan stofnunarinnar, starfsfólkið er líka gríðarlega dýrmætt. Það hefur reynslu og þekkingu sem það getur miðlað. Mér finnst mikilvægt að búa svo um hnútana að þess sé gætt að öryggi starfsmanna á Ríkisútvarpinu sé tryggt hvað varðar vinnu og skoðanir. Það er lykilatriði í mínum huga í þessari umræðu. Við verðum að átta okkur á því að með því að reiða fram fé til opinbers reksturs á stofnun eins og Ríkisútvarpinu hafa starfsmenn í gegnum árin haft viss forréttindi umfram einkareknar stöðvar til að fara ofan í mál sem gróðafyrirtæki mundi ekki treysta sér í, t.d. alls konar grúsk í sögulegu samhengi og framleiðsla á svoleiðis efni. Slíkt tekur eðli málsins samkvæmt gríðarlega langan tíma og verður ekki gert nema með stuðningi.

Við sem hlustum mikið á Ríkisútvarpið gerum okkur grein fyrir þeirri gríðarlegu vinnu sem liggur að baki vinnu starfsmanna sem kafa ofan í mál og fá til þess tíma og þar af leiðandi fjármuni sem mundi að mínu mati vera ógerlegt á einkaljósvakamiðlum. Þar þurfa menn að vera á hlaupum og framleiða og framreiða ódýrt. Það eru lögmál þess markaðar. Ég held að enginn geti verið ósáttur við þá framsetningu mála þótt ég dragi ekki í efa að þeir starfsmenn sem vinna á einkafjölmiðlum leggi sig fram og geri sitt besta. En Ríkisútvarpið er þess eðlis, svo mikið sögulegt skrín sem hefur margt að geyma, Til þess þarf starfsfólk sem getur, má og vill fara ofan í þær hirslur og reiða fram fyrir okkur hin sem viljum hlusta á eða sjá efni sem er úr fortíðinni, sögulegs eðlis o.s.frv. Ég tel mikilvægt að halda í þennan rekstur og þess vegna er mér mjög mikils virði að standa vörð um Ríkisútvarpið okkar og það megi dafna til langrar framtíðar. Við höfum ekki svo góða reynslu af einkareknum fjölmiðlum. Þar er mikið umrót.

Í landi sem er svo ungt og hefur svo fáar hefðir og venjur — við getum sagt að við höfum mótað okkar nútímasamfélag bara á síðustu 100 árum — er Ríkisútvarpið ein af stoðunum undir því samfélagsmunstri sem við Íslendingar höfum byggt á líftíma útvarpsins, undanfarin 80 ár eða svo. Í mínum huga er Ríkisútvarpið a.m.k. hluti af ímynd minni sem Íslendings, það samstillir okkur á helgidögum og tyllidögum o.s.frv. sem eina þjóð og gætir menningarverðmæta okkar.

Ég tel þetta mjög mikilvægt vegna þess að þjóðin á svo fáar slíkar stoðir, með ríka hefð og ríkar venjur og það ber að halda í þá hluti, gæta vissrar íhaldssemi. Það þarf ekki alltaf að breyta bara til að breyta og koma hlutunum í annað form, auka hraðann. Til hvers? Til að ná hvaða markmiðum? Til þess að brjóta öll þau gildi niður sem þorri þjóðarinnar hefur haft að leiðarljósi um áratuga skeið varðandi fjölmiðla. Þetta tel ég mikilvægt að komi fram. Ég vil standa vörð um Ríkisútvarpið.

Virðulegi forseti. Ríkisútvarpið á að mínu mati og okkar hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að vera rekið af opinberum aðilum, rekið af ríkinu um langa framtíð enn. Þess vegna vil ég beina því til hv. þingmanna á hinu háa Alþingi að reyna eins og kostur er, ég hóf nú ræðu mína á þeim orðum, að ná út úr þessu frumvarpi sem á steytir. Fyrst og fremst þarf að taka út ákvæði um opinbert hlutafélag og hafa stofnunina á svipuðum nótum og verið hefur. Síðan er svo greinilegt, sem okkar flokkur hefur lagt áherslu á, er mikilvægt að skoða stjórnunarformið. Það þarf að taka til endurskoðunar og menn verða að sameinast um það.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að ríkisstjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi ætli að keyra þetta mál í gegn í ósátt við stjórnarandstöðuna. Ég held að það sé mjög óheppileg aðferð. Ef menn meina það sem þeir segja í þingræðum að þetta sé bara formbreyting, hlutafélagið skipti ekki máli, þá getur það heldur ekki skipt máli að gera það sem stjórnarandstaðan vill, að halda gamla forminu en með breytingum, sem eru margar ágætar á frumvarpinu, á áherslum á ýmsum hlutum og endurskoðun á rekstri að öðru leyti. Ef stjórnarþingmenn og stjórnarmeirihlutinn brýtur odd af oflæti sínu í þessum liðum, þetta eru fimm eða sjö liðir, tel ég allar líkur á að hægt sé að komast í höfn með þetta mál ef menn vilja fara í þá vinnu. Ég hef reynslu af því að vinna á hinu háa Alþingi í þingsölum og nefndum og sporin hræða eina ferðina enn. Það hefur verið starfsvenja að keyra mál í gegn í krafti meiri hluta þingsins hvað varðar mörg átakamál sem nú eru í gangi. Þótt maður voni er maður kannski ekki alveg eins bjartsýnn og maður ætti að geta verið miðað við framsetningu mála hjá þeim hv. þingmönnum stjórnarinnar sem hafa úttalað sig í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína langa í þessari umferð um málið. Ég tel þetta mjög mikilvægt mál og vil að farið sé með það af nærgætni og varúð vegna eðlis þess.

Ég hef tekið eftir því í þinginu að það er eins og tískubylgja í dag að gera sé ekki grein fyrir muninum á samfélagsrekstri og hlutafélagi, sérstaklega hjá ungliðum stjórnarinnar, nýju fólki á þingi, og ég vil að það komi fram í þessari umræðu að unga fólkið okkar er efnilegt að mörgu leyti, margt hvert, en ég hef tekið eftir því að hvort heldur talað er um almenningsþjónustu eins og strætisvagna í Reykjavík eða aðra almenningsþjónustu þá talar fólk fjálglega um að það sé bara eins og að reka hvert annað fyrirtæki. Auðvitað er það ekki þannig. Við á hinu háa Alþingi erum ekki í hlutafélagarekstri, við rekum samfélag.

Af því að ég staldra við þessa hugsun, sérstaklega hjá yngra fólkinu hér, með annars fullri virðingu fyrir því, þá er það náttúrlega svo að hlutafélag sem ræður og rekur fólk þarf ekki mikið að vita af því fólki sem það rekur út á gaddinn vegna einhverra mála, í framhaldi af uppsögnum eða slíku, vegna þess að hlutafélagið er ekkert bundið af því. Við rekum ekki fólk út úr samfélagi, það er ekki gert. Samfélagið þarf að þjóna öllum sem inn í það fæðast og sá er munurinn á hlutafélagarekstri og samfélagsrekstri. Maður ætlast til þess í umræðum á hinu háa Alþingi að hv. þingmenn geri sér grein fyrir þeim mikilvæga mun sem er á þessum tveimur hlutum. Þess vegna hryggir það mann að menn skuli í ræðu og riti og ræðum á hinu háa Alþingi tala um hlutafélagaformið sem virkasta og nýtískulegasta formið í rekstri, það gefi besta raun. Ég efast ekkert um að hlutafélagaformið sé ágætt í sjálfu sér. Þar er hægt að taka snöggar ákvarðanir, það er hægt að ráða og reka fólk og reka viðkomandi fyrirtæki. En um samfélagsrekstur gilda, enn og aftur, allt önnur sjónarmið.

Ef menn geta hugsað sér á þessum tímapunkti að búa til hlutafélag úr Ríkisútvarpinu þá gef ég mér að ekki líði nema kannski þrjú til fimm ár — miðað við tískuna og hvað er „in“ í dag, eins og krakkarnir segja, varðandi rekstur í samfélaginu — þangað til menn fara að tala hér í fullri alvöru um Landspítalann ohf. og í framhaldi af því allt sem á eftir kemur, vegna þess að Landspítalinn, sem væntanlega yrði ohf. ef sama stjórnin ræður ríkjum, er að vissu leyti að fara í gegnum sömu breytingar frá grunni og ríkisfyrirtækjum hefur verið uppálagt að gera um árabil. Það hefur færst mjög mikið í vöxt að menn séu að kaupa dagskrárgerð frá einkaaðilum sem ekki eru bundnir á launaskrá viðkomandi fyrirtækja.

Við vitum öll hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í heilbrigðiskerfinu. Þar segja menn: Við erum bara að fara í einkarekstur, við erum ekkert að gera neitt annað. Ég hef flutt langar ræður um áhyggjur mínar af því að verið sé að breyta öllu samfélaginu, sem við höfum áður byggt á samfélagslegri þjónustuhugmynd, yfir í einkarekin fyrirtæki sem eiga síðan að þjóna öllum almenningi í landinu. Þetta tel ég ákaflega vonda þróun og eins og margoft hefur komið fram hræða sporin í þessu samhengi. Ég var persónulega viðstaddur umræðuna um einkavæðinguna í bankakerfinu, hlutafélagavæðinguna þar, þar sem ríkisbankarnir voru teknir. Ég var við umræðuna um Landssímann og manni finnst svo ótrúlega líkt á komið með umræðunni núna og ég geri mér grein fyrir skýringunni. Skýringin er náttúrlega einföld, hún fylgir bara formúlu virtra manna á hægri kanti í efnahagsmálum þar sem þeir hafa sett fram handbók um aðferðir til að einkavæða. Það þarf að nota einhverjar aðrar aðferðir en að setja bara á fjárlög að nú eigi að selja ríkisfyrirtæki sem er vinsælt og þjóðin vill ekki selja. Það þarf að nota aðrar aðferðir og þá er sú aðferð notuð að segja við þjóðina: Þið þurfið engar áhyggjur að hafa vegna þess að það er bara verið að breyta um form.

Ég tel að það hafi verið borðleggjandi á sínum tíma að ef þjóðinni hefði verið gefinn kostur á því að kjósa um hvort hlutafélagavæða ætti Símann hefði stór meiri hluti þjóðarinnar sagt nei í þeim kosningum. Ég er líka hér um bil viss um að ef fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort hlutafélagavæða ætti Landssímann mundi þorri þjóðarinnar segja nei við þeirri spurningu. Það er ekki gert, vegna þess að þeir sem keyra fram breytingar að sínu skapi varðandi þjóðfélagsreksturinn þora ekki í þá vegferð og þeir viðurkenna að fara þurfi lengri leiðina og taka þetta í smáum skömmtum. Þannig er farið að með þetta mál, á nákvæmlega sama hátt og gert var við hlutafélagavæðingu Símans og síðan sölu Símans.

Virðulegi forseti. Þetta eru aðferðir sem eru mér ekki að skapi. Ég tel að þær séu til stórtjóns fyrir landið að ég tali nú ekki um fyrirtækið Ríkisútvarpið sem við erum að ræða um og það er mál að linni.

Það er líka aðferð í sjálfu sér, burt séð frá þessari aðfararaðferð sem byggir á því að þora t.d. ekki að fara í atkvæðagreiðslu um mál eins og Landssímann eða Ríkisútvarpið, í þessari framkvæmd allri að taka stofnanir út eins og Ríkisútvarpið eða Landssímann á sínum tíma og hefja sultargöngu. Þá eru stöðvaðar allar framkvæmdir í viðkomandi stofnun eða þjónusta þar til menn eru gjörsamlega að bugast. Það er ein leið sem notuð er í þessum ferli öllum. Það er ekki eins og það sé eitthvað nýtt af nálinni vegna þess að öll Vestur-Evrópulönd eru búin að fara í gegnum þennan fasa að meira og minna leyti, öll samfélagsrekin fyrirtæki. Það er búið að fara um álfuna á síðustu 15 árum með þessum aðferðum, bæði á Norðurlöndunum og víðar, þó að þar hafi menn verið miklu fastari fyrir en okkar samfélag hefur verið. Norðurlandabúar hafa haft miklu þroskaðri samstöðu til að standa á móti einkavæðingar- og einkageiraöflum en við nokkurn tíma hér. Við virðumst vera nýjungagjarnari en samt held ég að þetta sé fyrst og fremst vegna þess að við erum svo hrekklaus. Við trúum þessu ekki. Ég hef talað við fjölda kjósenda úti um allt land og þeir trúa þessu ekki þó að maður reyni að tala um hvað verið sé að gera, þeir trúa ekki að það eigi að gera þetta. Maður kom fram á sínum tíma, kannski fyrir fullum sal af fólki, og talaði um Landssímann og sölu hans og menn sögðu: Ég er innilega sammála því að Síminn verður aldrei seldur og alls ekki grunnnetið. Þeir segja að þeir ætli ekki að gera það, þetta er bara formbreyting.

Lái okkur hver sem vill að þessi spor hræði, vegna þess að það eru ekki bara þau fyrirtæki sem búið er að selja sem um ræðir, nú erum við að tala um Ríkisútvarpið, en það er margt, margt annað eftir í þessu samhengi. Allur heilbrigðis- og umönnunargeirinn er eftir ef menn vilja fara að horfa á hann. Þar eru nú aldeilis fúlgur sem hægt er að ráðskast með ef menn komast í þann leik með einhverjum ráðum. Maður hefur heyrt það í umræðunni utan veggja Alþingis að hugur manna standi til þess, auðvitað, að komast á sama hátt inn í heilbrigðis- og umönnunargeirann til að geta átt greiðari aðgang bæði að ríkisfjármunum í gegnum Tryggingastofnun að ég tali nú ekki um lífeyrispeningum landsmanna með komugjöldum og dýrari þjónustu þegar fram í sækir.

Það er alveg augljóst að þeir sem keyra þetta mál áfram hér, stjórnarmeirihlutinn og þingmenn stjórnarinnar, ætla sér áfram og um það snýst málið. Hugur manna stendur til þess að fara inn á önnur svið samfélagsins. Hugur manna í einkarekstri og umsýslu peninga stendur til þess að komast yfir og reka allt sem þjóðinni er í grundvallaratriðum nauðsynlegt að hafa til að geta lifað og er þá kalda vatnið ekki undanskilið. Það eru þessi mál sem við verðum að horfa á.

Af því að hæstv. menntamálaráðherra er kominn í salinn á ný vil ég beina þeim tilmælum til hæstv. ráðherra að hún beiti sér fyrir því að þau atriði sem standa út af hér í umræðunni og menn hafa rifist mikið um verði tekin með miklum velvilja til endurskoðunar í nefndinni og farið þannig höndum um þau að hér verði sæmileg þingsátt um þessar breytingar. Það er óhugsandi í mínum huga að fara þannig með þetta mál að klofningur verði hjá þjóðinni um það, um Ríkisútvarpið sem er svo mikilvægt. Það er í mínum huga næsti bær við þjóðkirkjuna ef menn ætla að fara að framkalla þar breytingar á kaldranalegan hátt.

Ég tel mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að farið sé í þessi mál og að stjórnarandstaðan fái enn á ný tækifæri til að koma að þeim atriðum sem út af standa, en það er stjórnunarliðurinn á fyrirtækinu, það er breytingin á forminu sem stendur aðallega upp úr og loks fjármögnunin.

Virðulegi forseti. Ef við tölum um peninga og fjármögnun í þessu sambandi tökum þá fjarskiptin eftir sölu Landssímans, sem ég talaði um áðan. Það er nú ekkert frýnilegt að standa frammi fyrir því. Ríkisútvarpið er einhverjir smámunir miðað við það sem við þurfum að setja af opinberu fé inn í þá samfélagsþjónustu sem fjarskiptin eru. Eru ekki komnir 1,5 milljarðar í það mál núna eða 1,7? Svo er mér sagt. Það er að vísu úr Fjarskiptasjóði, það eru peningar sem koma af sölu Landssímans, ég held að það séu 1.200 milljónir þar en síðan koma 500 milljónir beint úr ríkissjóði eins og ekkert sé.

Auðvitað átti það að vera þannig við sölu Landssímans að það markaðsráðandi fyrirtæki hefði þjónustuskyldu og uppbyggingarskyldu vegna sölunnar, en svo var ekki. Fyrirtæki á markaði hefur engan áhuga á að veita strjálbýlum héruðum þjónustu, ég tala nú ekki um á fjallvegum sem tiltölulega fáir fara um, þjónustu sem er algjör samfélagsleg nauðsyn fyrir okkur að hafa í gangi fyrir margra hluta sakir, út frá öryggismálum, út frá okkur sjálfum vegna samskipta og viðskipta þegar við erum á ferð. Þetta gildir líka um Ríkisútvarpið. Það er sá aðili sem þjónustar okkur með upplýsingar þegar við erum úti um víðan völl við leik og störf í okkar stóra landi. Það eru slík atriði sem þurfa að koma fram í þessari umræðu. Við megum ekki bara hugsa um okkur sem hluta af einhverju þéttbýli sem hægt er að þjóna með tiltölulega einföldum, ódýrum sendum með fáu fólki. Það er ekki þannig.

Það hangir margt á spýtunni í sambandi við hina samfélagslegu þjónustu og spyrði ég nú saman Ríkisútvarpið og fjarskiptin. Við erum með ferðaþjónustu sem er ein okkar stærsta atvinnugrein. Það er stórmál og mikið atriði fyrir ferðaþjónustuna að aðgengi sé að upplýsingum og samskiptum. Ríkisútvarpið hefur rækt það með myndarskap að gefa upplýsingar til fólks sem er uppi um fjöll og firnindi og þarf að vita um stöðu mála, færð og verður og því um líkt. Það eru svona atriði sem menn gleyma en þurfa að hafa með í öllu bókhaldi þegar talað er um þessi mál.

Virðulegi forseti. Vilja menn einkavæða Veðurstofuna? Ég get haldið áfram. Það er samfélagsleg þjónusta. Það eru margir sem vilja gera það og það eru margir sem vilja fara svona á lið eftir lið og fara ofan í það allt saman og einkavæða það.

Af því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er kominn í dyragættina þá var nú brosað góðlátlega að öllum þessum einkavæðingarbollaleggingum á sínum tíma, fyrir sex eða sjö árum þegar verið var að tala um bankana. Menn í hans flokki, Framsóknarflokknum, sögðu: Við förum aldrei þá vegferð, við seljum kannski annan. Með það var farið í kosningar. Þetta er svona eitt af öðru það sem menn hafa staðið fyrir.

Það merkilega er að hingað til hefur stjórnarmeirihlutanum og þingmönnum stjórnarinnar tekist að fara með þetta í kosningar tvisvar sinnum. Fólk hefur ekki trúað að hlutir mundu ganga svo langt fram sem raun ber vitni. Það eru kannski sérstaklega málefni Símans sem hafa staðið upp úr. Ég hef ekki séð skoðanakönnun nýlega en ég fullyrði að 70–80% þjóðarinnar eru algjörlega andvíg því að Ríkisútvarpið fari í einhvern hlutafélagarekstur. Fólk vill hafa þetta sem Ríkisútvarp en auðvitað ekki án gagnrýni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því.

Það er leið einkavæðingarsinna og það er leið fjármagnsins til að brjóta niður opinbera þjónustu, eins og ég drap á áðan, að gera þetta í þeim þrepum sem raun ber vitni. Þetta eru klárir menn og vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera í stöðunni. Það kom fram hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni áðan að það væri hægt að einkavæða eða hlutafélagavæða á auðveldari hátt með því að fara með þetta í gegnum fjárlögin. Það væri óðs manns æði. Það gera menn ekki í þessari stöðu vegna þess að þeir vita að það er massíf andstaða úti í samfélaginu við þá leið. Þess vegna er það ekki gert. Það er það sem skiptir máli í þessu öllu.

Virðulegi forseti. Ég vil, af því að ég er hér sem varaþingmaður, láta virða það við mig að ég vil koma því inn í þingræðurnar mínar að ég tel að e.t.v. gæti maður staðið hér í sömu sporum eftir tvö, þrjú ár og verið að tala um opinbert hlutafélag á öðrum formum svo sem ég nefndi áðan. Hv. þm. Ögmundur Jónasson greip fram í og sagði: Hvað með Veðurstofuna, vilja menn hafa hana í einhverju hlutafélagsformi?

Svo er það þetta: Vegna smæðar íslenska samfélagsins er ekki allt sérlega flott rekið ef maður lítur á aðkomu almennings að ýmsum fyrirtækjum sem hafa verið markaðsvædd eða slegið saman í háeffinu. Hvað með allan flutningsgeirann? Hvað með alla einokunina sem við þurfum að búa við? Það kostar jafnmikið fyrir mig að koma utan af landi frá Egilsstöðum og fara í flug suður í Keflavík og sjálf ferðin til útlanda. Við höfum mjög vonda reynslu af flutningsgeiranum þar sem menn hafa slegið sér saman og myndað tvær stórar blokkir að stofni til.

Hvað ætla menn að leysa úr læðingi með þessu ef menn skipta nú um skoðun, eins og maður heldur að geti gerst hjá Framsókn innan nokkurra mánaða? Hvað ætla menn að gera á fjölmiðlamarkaðnum? Á þetta að sullast einhvern veginn áfram án þess að menn viti nokkuð að hverju þeir stefna? Við erum með tvö flutningsfyrirtæki í landinu sem okkur sem búum þar finnst okra alveg stórlega á þjónustunni við okkur. Maður ímyndar sér að þar sé samráð og samvinna. Við erum með eitt fyrirtæki sem þjónustar okkur í fluginu af því að menn náðu saman eða bitust þangað til annar búkkaði undir. Það virðist vera á svo mörgum sviðum, þar sem allt hefur verið látið damla á frjálsum nótum, að samfélagið sé bara ekki nógu stórt að mati þeirra sem eiga hlut í hlutafélögum og það verði alltaf samruni.

Hvað eru menn að tala um núna í mjólkuriðnaðinum, algjörlega andstætt því sem ætti að vera? Menn eru að tala um að gera bara einn pott, eitt stórt fyrirtæki sem selur Íslandssúrmjólk eða Íslandsjógúrt. Erum við þá ekki í krafti markaðarins og þeirra sem stjórna peningunum komnir að tillögu skáldsins úr Alþýðubókinni, að keyra um landið með góða Íslandssúpu í hádeginu á hverjum degi, vera ekkert að standa í því að malla í mörgum pottum? Maður veltir því fyrir sér hvert verið sé að stefna með þessu brölti öllu, nú í þessu tilfelli með Ríkisútvarpið sem mér er svo kært.

Ég hef notað mikið af tíma mínum til að draga fram þessar samlíkingar vegna þess að ég hef lesið ræðurnar mínar frá síðasta þingi. Þá valdi ég alltaf í umræðunni, hvort sem það var um bankana eða Landssímann, að líta fram á veginn og horfði þar á meðal til þess sem menn ætluðu að gera varðandi Ríkisútvarpið, varðandi sjúkrahúsin og umönnunarþjónustu. Mér finnst að sú framtíðarsýn og hræðslan við hana gangi nokkuð taktfast eftir eftir því sem maður gat séð fyrir, og reynir að sjá fyrir varðandi aðra hluti sem eru að gerast í samfélaginu.

Það varð hér um daginn mikil rimma milli hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hæstv. heilbrigðisráðherra um einkarekstur og einkavæðingu. Hæstv. ráðherra vildi meina að hv. þm. Ögmundur Jónasson vissi ekki muninn, vissi ekki hvað væri einkarekstur og hvað væri einkavæðing. Eins og ég drap á áðan í sambandi við allar þessar stofnanir er aðferðafræðin sú að fara inn í þær um sinn með einkarekstur að hluta til þangað til einkarekstur er orðinn það viðamikill innan stofnunar að menn geta vel hugsað sér að fara í einkavæðingu eða fara að ræða um það. Þetta tekur allt saman nokkur missiri eða nokkur ár. Þannig er farið að þessum málum, virðulegi forseti.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég brýna hæstv. menntamálaráðherra til að senda nú þau skilaboð inn í hv. nefnd að allra leiða verði leitað til þess að ná breiðfylkingu eða sáttum í þinginu um nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu sem mér sýnist að menn, alla vega í stjórnarandstöðunni, séu sammála um að þurfi að gera á frumvarpinu.