133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[18:40]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er mér sönn ánægja að koma hér og halda ræðu um þetta þingmál sem hæstv. menntamálaráðherra flutti hér. Ekki síst eftir að hafa hlustað á þær skeleggu ræður sem félagar mínir í stjórnarandstöðunni fluttu fyrr í dag og fyrr í þessari umræðu.

Það er alveg ljóst að hæstv. menntamálaráðherra leggur gríðarlegt kapp á að koma þessu máli í gegn. Það má velta því fyrir sér hvers vegna. Í þessari umræðu, sem og í þeim mörgu umræðum sem áður hafa farið fram um málið, höfum við gengið mjög harkalega eftir því að fá þau rök sem hæstv. ráðherra hefur væntanlega fyrir þessari þvergirðingslegu afstöðu sem virðist marka allt hennar far. Okkur hefur ekki enn þá tekist að fá fram neitt sem hægt er að kalla haldbæran rökstuðning fyrir þessu máli.

Það virðist, frú forseti, að það sé orðið að persónulegu metnaðarmáli hæstv. ráðherra að ná fram máli, ekki bara af því að það er þetta mál, heldur að ná fram einhverju máli. Hæstv. menntamálaráðherra, sem er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, þarf með einhverjum hætti að setja spor sín á þetta kjörtímabil. Hún hefur verið ráðherra núna í hátt á þriðja ár og enn þá hefur henni ekki tekist að ná fram neinum málum hér sem máli skipta. Ástæðan er auðvitað sú, sem við sjáum speglast í þessu máli, að undirbúningur hæstv. ráðherra er einfaldlega ekki nógur góður. Það sem liggur þessu máli hæstv. ráðherra til grundvallar sýnir handarbakavinnubrögðin og hversu illa er að verki staðið.

Þetta er í þriðja skipti, frú forseti, sem þetta mál er lagt hér fram af hálfu hæstv. ráðherra. Í fyrsta skipti sem málið var lagt fram kom náttúrulega í ljós að það var svo illa undirbúið að flestir, meira að segja hennar eigin stuðningsmenn í liði stjórnarinnar, urðu að lokum sammála um að það þyrfti að endurbæta og endurgera málið. Þegar það kom til þingsins í fyrra í annað sinn blasti því miður við að hæstv. ráðherra hafði einfaldlega ekki unnið heimavinnuna sína. Hér spurðu menn um lykilatriði aftur og aftur í umræðunni, svo sem eins og það hvernig fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins væri háttað. Það voru engin svör þá. Hæstv. ráðherra hafði ekki undirbúið málið þannig að hún gæti greint þingheimi frá því hver staða Ríkisútvarpsins væri þegar hið væntanlega hlutafélag yrði að veruleika. Það er auðvitað harður áfellisdómur yfir ungum ráðherra að leggja fram svo veigamikið mál en hafa unnið heimavinnuna svo slælega.

Maður skyldi ætla, frú forseti, að þegar málið er lagt fram enn einu sinni liggi staðreyndir sem þessar fyrir. Mér þótti þess vegna einkar mikilvægt þegar talsmaður Samfylkingarinnar í ríkisfjármálum kom hér í umræðuna í gær og spurði hæstv. ráðherra einfaldra spurninga um hver skuldastaða og eiginfjárstaða Ríkisútvarpsins væri. Við því fengust engin svör. Engin önnur svör en þau að tryggt yrði að eiginfjárhlutfall yrði 10–12%. Það var ekki hægt að greina þinginu frá því hvað þyrfti að leggja Ríkisútvarpinu til mikið fé til að það hlutfall næðist.

Er hægt að draga aðra ályktun af því en að hæstv. ráðherra hafi einfaldlega ekki gert reka að því að láta reikna það út? Má draga þá ályktun af því að það sé óljóst í menntamálaráðuneytinu hversu mikið þarf að leggja þessu fyrirtæki til af fé skattborgaranna til að hægt sé að fullyrða að hlutfall eigin fjár við stofnun hlutafélagsins næmi þessari tölu, 10–12%? Um það vitum við ekki neitt.

Við sem erum kjörnir fulltrúar landsmanna, og eigum að fara vel bæði með stofnanir þeirra og fjármagn þurfum auðvitað að hafa einhverjar ákveðnar grundvallarupplýsingar í höndunum til að geta dregið okkar ályktanir, til að geta með einhverjum hætti metið stöðu fyrirtækis af þessu tagi. Það er eiginlega lágmarkskurteisi gagnvart þinginu að málið sé búið í hendur þess með þeim hætti að hægt sé að taka rökrænar ákvarðanir á grundvelli gagnanna sem fyrir eru lögð.

Svo er þó ekki, frú forseti. Það eru slík vinnubrögð sem hafa sí og æ markað farveg alls þessa máls. Þetta er ástæðan fyrir því að hér hefur ekki tekist að ná málinu í gegn. Sú vinna sem þarf jafnan að hafa verið unnin, svo menn séu að minnsta kosti sáttir við vinnuna, hún hefur ekki verið unnin af hálfu hæstv. ráðherra sem leggur málið fyrir. Þetta er með algerum ólíkindum og að því leyti til verður að segja að þessi vinna sker sig algerlega frá vinnubrögðum annarra ráðherra.

Við sem höfum fylgst náið með þessu máli höfum líka tekið eftir því að það tekur stöðugum breytingum. Málið er gjörbreytt frá því sem það var þegar það kom fyrst inn í þingið. Það breytir ekki hinu að okkur skortir enn þá röksemdirnar fyrir því að þetta sé endilega það rekstrarform sem allt standi og falli með.

Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með menntamálin í áratugi með undantekningu örfárra ára þegar Svavar Gestsson, merkur stjórnmálamaður af vinstri vængnum, réð fyrir þeim málaflokki.

Á þeim tíma hefur Sjálfstæðisflokknum tekist að búa svo um hnúta að fjárhagur fyrirtækisins, þessa merkilega almannafyrirtækis, er nánast í rúst. Ég tel að það skipti máli í umræðunni. Ekki bara sökum þeirra atriða sem ég rakti hér áðan heldur vegna þess að ég segi það alveg hreinskilnislega, ég gruna Sjálfstæðisflokkinn um græsku.

Ég tel að það frumvarp sem hér er verið að leggja fram sé fyrsta skrefið að því að Ríkisútvarpið verði selt í bútasölu. Það þýðir ekkert fyrir ágæta þingmenn Framsóknarflokksins, sem ég bæði virði og skil að eru í þröngri stöðu, að koma hingað og halda því fram að Ríkisútvarpið verði ekki selt vegna þess að inn í frumvarpið er búið að setja lagagrein sem segir að ekki sé áformað að selja það. Við höfum séð það gerast áður. Ég hef sjálfur tekið þátt í því hér, í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, að breyta rekstrarformi ríkisfyrirtækis í hlutafélag og hef gert það á þeirri forsendu að það væri ekki ætlan ríkisstjórnarinnar að selja viðkomandi fyrirtæki. Ég held að það hafi liðið þrjú eða fjögur ár þegar búið var að setja það fyrirtæki í sölu. Þó þar sé um að ræða alls eðlis óskylt fyrirtæki miðað við Ríkisútvarpið þá óttast ég þessa stöðu.

Þegar ég les yfir frumvarpið sem kemur hérna fram í þriðju eða fjórðu útgáfu sé ég að lykilatriðum er ekki breytt. Það kemur enn þá fram í þessu ólukkufrumvarpi að þær skyldur sem lagðar eru á herðar Ríkisútvarpinu felast til að mynda einungis í að reka eina sjónvarps- og hljóðvarpsrás. Við vitum hins vegar í dag samkvæmt könnun sem kom fram í gær að vinsælasta rás Ríkisútvarpsins er Rás 2.

Það vill svo til, frú forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur, aldrei þessu vant, komið til dyranna eins og hann er klæddur og fæddur varðandi Rás 2. Það var tekin ákvörðun um það á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir tæpum 11 árum, að stefna að því að selja Rás 2. Er það þá tilviljun að það er hvergi í gadda slegið í frumvarpinu að það sé m.a. skylda Ríkisútvarpsins að reka slíka rás? Það kemur stundum fram og kom fram á þeim árum í máli forustumanna þáverandi Sjálfstæðisflokksins, tek fram frú forseti, til að vera sanngjarn að það hefur alls ekki komið fram í máli hæstv. núverandi menntamálaráðherra, að sú rás væri að einhverju leyti ómerkari en gamla góða gufan.

Því er hins vegar þveröfugt farið. Ég tel að þar sé um að ræða tvenns konar hljóðvarpsrásir sem gegna báðar, hvor með sínum hætti, ákaflega mikilvægu hlutverki. Rás 1 heldur sannarlega uppi góðri menningarumfjöllun og er oft og tíðum aðdáunarverð. Sömuleiðis vil ég segja það líka að með nýjum sjónvarpsstjóra hefur maður tekið eftir að sjónvarpið, innlend dagskrárgerð og ýmsir þættir hafa batnað. Ber sérstaklega að þakka það. En Rás 2 hefur líka menningarlegu hlutverki að gegna.

Enginn hefur skýrt það jafnvel og minn ágæti flokksbróðir og félagi Jakob Frímann Magnússon, varaþingmaður, sem sat um sinn fyrir nokkrum missirum. Hann er einn af frumkvöðlum í nýgildri tónlist á Íslandi. Hann hefur lýst því mjög vel í ítrekuðum blaðagreinum hversu mikilvægu hlutverki Rás 2 gegnir við að koma á framfæri nýgildri íslenskri tónlist. Við vitum að slík tónlist er að verða útflutningsvara. Hún ber hróður Íslands vítt um álfur. Það er líka menningarleg skylda almannaútvarps að styðja við sköpun slíkrar tónlistar, bæði af sjónarhóli menningar en líka vegna þess að í því felast verðmæti sem breytast í beinharðan pening fyrir íslenskt samfélag.

Þegar við skoðum þetta saman, í fyrsta lagi vilja ákveðins hluta Sjálfstæðisflokksins til að selja Ríkisútvarpið, í öðru lagi þá staðreynd að það er opnað á að Ríkisútvarpið starfræki einungis eina hljóðvarpsrás, í þriðja lagi fjárskortinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur kallað yfir Ríkisútvarpið og í fjórða lagi þá peningalegu nauð sem mér finnst blasa við stofnuninni eins og staðan er núna, þá er einboðið að teikna upp tiltölulega nálæga framtíð þar sem hlutafélagið Ríkisútvarpið ohf. bregst við fjárhagsskorti með því að byrja að selja eigur sínar. Hugsanlega yrði byrjað á að selja þær fasteignir sem það á, losa fé þannig og leigja síðan aftur af fasteignafélagi eins og tíðkast.

Í öðru lagi yrði hugsanlega farin sú leið að selja dýrmætar lóðir sem Ríkisútvarpið sannarlega á og er eftirsótt byggingarland. En í þriðja lagi, og hugsanlega hefði ég átt að segja í fyrsta lagi, þá er alls ekki hægt að skjóta neinni loku fyrir það að menn beiti einmitt fjárskortinum sem röksemd til að selja Rás 2. Þá væri uppfyllt hin gamla stefna Sjálfstæðisflokksins sem mörkuð var fyrir 11 árum á landsfundinum 1995, að það ætti að selja Rás 2.

Í þessu samhengi vil ég taka alveg skýrt fram að ég tel að hæstv. menntamálaráðherra sé komin í töluvert öngstræti með þetta mál og þar sé eins konar nauðsynleg og óhjákvæmileg manndómsvígsla hjá hæstv. ráðherra að koma þessu máli í gegn. Það er prófið sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur á hana.

Með öðrum orðum. Ég held ekki að hæstv. ráðherra sé haldin þeirri pólitísku kreddu að það þurfi endilega stofnunarinnar vegna, þjóðfélagsins vegna, að koma fyrirtækinu á þetta rekstrarform. Ég held fyrst og fremst að það sem hún lítur svo á að þurfi að gera sé að ná ákveðnu prófi til þess að hún geti færst á milli bekkja í áfangakerfi Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst það alvörumál ef það er einhver sérstök innanflokksstaða í Sjálfstæðisflokknum sem gerir það að verkum að hæstv. ráðherra rekur þetta mál áfram af því offorsi sem við höfum séð á síðustu árum og missirum. Því þetta frumvarp er farið að verða gamall draugur, gengur aftur eins og þingdraugurinn sem býr hér uppi á loftinu, fylgir húsinu núorðið. Ég er ekki að segja að það muni fylgja þinginu mjög lengi úr þessu. Í fyrsta lagi vænti ég þess að hæstv. ráðherra, þrátt fyrir allt, sé það vel innrætt og vel gefin að það renni upp fyrir henni að það sé tóm vitleysa að þjösnast áfram með þetta mál. En í öðru lagi vænti ég þess auðvitað að kjósendur í landinu sjái til að það kunni að verða aðrir ráðherrar sem sitji með landsstjórnina í höndum sér að loknum næstu kosningum. Þá er hægt að leiðrétta mistökin sem ágætur hæstv. menntamálaráðherra er að gera núna.

Ég sagði það, frú forseti, og það var mælt í nokkurri einlægni, að ég held að hæstv. menntamálaráðherra sé ekki jafndjúpt sokkin í fen frjálshyggjukreddunnar og margir ágætir félagar hennar í þingflokki sjálfstæðismanna. Meira að segja er hún pólitískt þannig ættuð hugmyndalega að það mætti ætla að hún hefði svona hugsað sig betur um, ekki einu sinni og ekki tvisvar, heldur jafnvel þrisvar, áður en hún lagði út á þessa braut. En hún er komin út á hana. Það er ekkert sem getur bjargað henni af henni núna.

Hún er hins vegar í flokki með mönnum sem eru miklu dýpri í sannfæringu sinni fyrir því að það sé samfélaginu farsælt í fyrsta lagi að setja alla skapaða hluti yfir á hlutafélagaform sem reknir hafa verið sem stofnanir af ríkinu og í öðru lagi að selja þá. Sem betur fer, segi ég, fyrir lýðræðislega umræðu, þá hafa þessir félagar hæstv. ráðherra ekkert verið að fela þetta. Við höfum hér tvo unga og mjög efnilega þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem bókstaflega hafa borið þetta, ekki sem kross, heldur sem djásn um háls sér, þá stefnu að það eigi ekki bara að taka Ríkisútvarpið og gera það að hlutafélagi heldur að selja það. Þeir hafa haft sér til fylgdar gamlan erkibiskup frjálshyggjutrúboðsins, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem hefur ekki á heilum sér getað tekið eftir að hann missti einkaréttinn á því að vera eini trúboði þessa vonda fagnaðarerindis.

Það vill svo til, frú forseti, að í Sjálfstæðisflokknum eru menn ekki einungis metnir eftir því hversu langt þeir ganga í þessum kreddum heldur eru menn bókstaflega mældir og þeim eru gefin stig á hverju ári. Þá er valinn sá erfðaprins Sjálfstæðisflokksins sem nær lengstu máli að því er varðar erindrekstur fyrir frjálshyggjuna. Það heitir — nú man ég ekki lengur, frú forseti, hvað það heitir hjá Heimdalli, en þar er árlega krýnd frelsishetja. Sá þingmaður sem gengur lengst í að boða þetta fagnaðarerindi einkavæðingarinnar og sölu ríkiseigna.

Löngum sat hv. þm. Pétur H. Blöndal einn að þessu en tveir ungir þingmenn sem nú þreyta mikla prófraun í pólitískri glímu innan Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og hv. þm. Birgir Ármannsson, þeir hafa beinlínis lagt hér fram frumvarp þar sem sagt er svart á hvítu: Ríkisútvarpið skal selt. Þetta er kannski ekki stór hluti af þingflokki sjálfstæðismanna. En hann er öflugur.

Þetta er heldur ekki einangraður skoðanastraumur innan Sjálfstæðisflokksins. Þetta er óvart stefna sem nýtur í fyrsta lagi stuðnings þess félags sem innan Sjálfstæðisflokksins hefur hvað öflugast starfað frá stofnun, þ.e. Heimdallar. Þetta er í öðru lagi stefna sem hefur verið samþykkt af þingunum sem hæstv. menntamálaráðherra hugsanlega mótaðist af í pólitískri æsku sinni hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Við þurfum ekkert annað en að fara yfir söguna til að sjá það að af færibandi þessa stóra og öfluga flokks koma flestir forustumenn Sjálfstæðisflokksins. Það er ekkert óeðlilegt við það. Það er partur af styrkleika flokksins.

En það þýðir hins vegar að innan tíðar skolar hingað á fjörur löggjafarsamkundunnar fleiri þingmönnum sem eru sama sinnis. Ég gæti kannski nefnt tvo sem nú berjast fyrir þingsæti í mínu kjördæmi í Reykjavík og eru líklegir til að ná því máli meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins að komast inn í þessa sali eftir kosningar. Þannig malar tímans tönn og breytir öllu.

Kynslóðirnar sem taka við af þeim sem fyrir eru færa með sér nýja skoðanastrauma. Færa með sér nýja menn og nýja talsmenn. Þeir sem nú eru ungir og eru að slíta sínum sokkaböndum og skóm innan þessarar uppeldisstofnunar Sjálfstæðisflokksins þeir munu, eða hinir bestu í hópi þeirra, að lokum koma hingað.

Við höfum séð það í undangengnum kosningum að þeir sem hafa komið úr þessari grjótkvörn ungíhaldsins hafa verið þessarar skoðunar. Það er ágætt fyrir hæstv. menntamálaráðherra að koma hingað og leggja hönd á enni og segja: Ég sver og ég lofa, það er ekki ætlan mín að selja Ríkisútvarpið. Ég trúi henni. Ég trúi því jafn vel og þegar Tómas lagði höndina í sárið á síðu meistarans forðum að það verði hlutskipti æ fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins að berjast fyrir þeirri stefnu sem ég tel að þetta frumvarp sé undanfari fyrir. Þegar ég gef hæstv. menntamálaráðherra það að hún sé ekki af þeim hvötum að leggja fram frumvarpið að hún vilji selja Ríkisútvarpið er ég samt sem áður að segja að hún er verkfærið í höndum þeirra ágætu manna sem sjá í þessu tækifæri. Það er helsta ástæðan fyrir því, svo ég segi það undanbragðalaust, að ég er á móti þessu frumvarpi og ég hef verið það frá upphafi. Það er ekkert sem hefur gerst í sögu frumvarpsins sem hefur breytt einhverju um þá afstöðu mína. Það breytir ekki hinu að í lýðræðinu er málum þannig farið að pólitískt kjörinn meiri hluti ræður. Ég hef hins vegar sem hluti af stjórnarandstöðu, sem stjórnarskráin og þingskapalögin hafa líka gefið ákveðin tæki til að leggja með ofurkappi eins þunga áherslu á andstöðu mína við mál og hægt er, minn rétt til að tjá þá djúpu andstöðu mína með því að halda hér örstutta ræðu til að skýra afstöðu mína. Þetta er það sem ég er í grundvallaratriðum á móti.

Ég minnist þess, frú forseti, að ég og slyndra af ágætum þingmönnum úr liði stjórnarandstöðunnar höfum gengið eftir því gagnvart ráðherranum af hverju þessi mikli ofsi er í að fá að samþykkja þetta. Jú, ráðherrann hefur reynt að skýra það fyrir sitt leyti. Skýringarnar má eima niður í eftirfarandi og það er kannski fullmikil einföldun, en samt sem áður þegar ég reyni að eima röksemdirnar kemst ég bara að þessu, að það er nauðsynlegt til að geta sagt upp einhverjum örfáum yfirmönnum á Ríkisútvarpinu sem í dag eru undir beinu boðvaldi eða skipunarvaldi hæstv. ráðherra en ekki útvarpsstjóra. Gott og vel, ég er bara sammála hæstv. ráðherra að í straumlínulagaðri stofnun, sem þarf að geta hreyft sig á markaði og brugðist við samkeppni, þarf að vera sterkur útvarpsstjóri, hann á að hafa mikil völd. Hann á líka að vera verndaður en hann á að hafa mikil völd, hann á að hafa völd til að geta ráðið þá menn í lykilstöður sem hann vill. Það er algjörlega rétt sem fram hefur komið, m.a. að ég hygg hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að óheppilegt er fyrir þennan strúktúr að hafa menn, undirmenn útvarpsstjóra, sem hann valdar ekki, getur engu um ráðið, menn sem í krafti laga njóta ákveðinnar verndar, það er óþægileg staða. Þess vegna segi ég að það er hægt að breyta lögum og fjarlægja þessar tengingar án þess að breyta rekstrarforminu.

Hæstv. ráðherra segir líka að hlutafélagsformið sé nauðsynlegt til þess einmitt að stofnunin geti brugðist við samkeppni og samkeppnin eykst, er alltaf að aukast. Ég hef haldið því fram að hægt sé að ná þeim sveigjanleika og þessari lipurð sem þarf í reksturinn með því að breyta rekstrarforminu yfir í sjálfseignarfélag. Það er mjög athyglisvert að þegar maður las, ég held 2. útgáfu af frumvarpinu, eftir að það hafði verið gert afturreka frá ESA úti í Evrópu, þá er fjallað um hvaða skilyrði stofnunin þyrfti að uppfylla til að hún næði því að standast alþjóðlegar kröfur og fylgja samningum sem við höfum axlað, og á grundvelli þeirrar skoðunar og þeirrar greinargerðar sem komin var frá ESA — sem tók hv. þm. Mörð Árnason hálfan vetur að rífa með afli og frekju út úr menntamálaráðuneytinu — þá skrifar hæstv. ráðherra eða leggur a.m.k. fram texta í sínu umboði þar sem kemur alveg skýrt fram á tveimur stöðum í greinargerðinni að það stenst skuldbindingarnar sem við höfum undirgengist með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, að reka Ríkisútvarpið sem sjálfseignarfélag í atvinnurekstri.

Að vísu er rétt að á því rekstrarformi er ekki eins mikil reynsla í íslensku atvinnulífi og hlutafélagaforminu. Hlutafélagaformið er mjög vel þekkt, það er lipurt og flest vandamál sem þar koma upp þekkja menn og vita hvernig á að leysa. Það sama gildir líka um sjálfseignarformið. Það hefur verið notað til þess að taka utan um rekstur margra stofnana sem eru í eigu hins opinbera, sem eru í eigu almennings, og um leið að selja það undir einkaréttarrammann. Af því að hér hefur ágætur formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, haft sig nokkuð í frammi og stundum átt svolítið bágt má rifja það upp að sá ágæti þingmaður hlaut einmitt menntun sína í skóla sem var rekinn með því formi. Og einn af þeim ágætu kandídötum sem slást um að vera þingmenn fyrir Sjálfstæðisflokkinn er einmitt kona sem hefur starfað og veitt forustu stofnun sem til skamms tíma var rekin með sama formi. Það hefur ekki tekist að sýna fram á neina þá galla á sjálfseignarforminu sem gera það að verkum að ekki sé hægt að svipta stofnuninni inn fyrir vébönd slíks rekstrarforms.

Þá spyr maður sig auðvitað: Ef það er svo að stjórnarandstaðan gæti fallist á það rekstrarform og ef það er þannig að hæstv. ráðherra getur ekki fellt sig við núverandi rekstrarform og ef í þriðja lagi sjálfseignarformið nær upp þessari lipurð sem þarf í rekstrinum að sögn ráðherra, af hverju sameinast menn þá ekki um það? Af hverju er þá ekki hægt að búa til sátt um það? Það er af því að hæstv. ráðherra fór öfugt fram úr þegar hún lagði af stað neðan úr ráðuneyti með þetta mál til þingsins. Eða vegna þess að hún hafði ekki hugsað málið til þrautar? Eða, eins og var nú fremur háttalag hennar á þeim missirum þegar hún var hér í upphafi ráðherraæsku sinnar, að henni var bara fjandans sama um alla sátt. Hæstv. ráðherra má að vísu virða það til vorkunnar að hún hefur sem betur fer lært af reynslunni og hún er búin að læra að til þess að ná málum fram þarf stundum að beygja af leið og þá þarf stundum að tala við þá sem örlögin hafa sett í þá stöðu að vera tímabundið fulltrúar minni hluta í samfélaginu, en það breytist skjótt.

Þannig er það sem menn ná málum fram. Þeir kanna hvaða möguleikar eru í stöðunni, þeir skoða andstæð sjónarmið og þeir reyna að sverfa og hefla til og athuga það hvort hægt sé að búa til einhvers konar form á máli sem hugsanlega er ekki það besta úr þeim heimi sem hæstv. ráðherra kann að þykja allra bestur en er ásættanlegur. Það rekstrarform sem Samfylkingin hefur lagt til er ásættanlegt, það kemur fram á tveimur stöðum í greinargerðinni með frumvarpinu. Það kemur líka fram á öðrum stöðum í málum hæstv. ríkisstjórnar þar sem hún leggur til breytingar á rekstrarformi, að sjálfseignarformið er rekstrarform sem hentar. Ég er t.d. að vísa til Matvælarannsókna hf., en þar kom fram að ráðherrum þótti hitt henta betur. Það er hugsanlegt að þeim þyki það. En ef menn vilja sátt hljóta þeir að skoða þá möguleika sem liggja í þessu. Það hefur aldrei gerst, aldrei verið skoðað af hálfu hæstv. ráðherra, en ég vona að hún sé búin að læra lexíuna sína ef hún ætlar að koma einhverjum málum fram áður en hennar pólitísku ráðherradagar kunna að teljast á enda eftir tiltölulega skamman tíma.

Frú forseti. Ég hef fyrr í umræðum getið þess að mér þyki það nokkru varða að þau tilmæli sem fjölmiðlaskrifstofa Evrópuráðsins hefur beint til aðildarþjóða sinna séu uppfyllt. Ég hef oft gengið eftir því á fyrri stigum þessarar umræðu. Er þá rétt að rifja upp að virðing hins ágæta lögfræðings og hv. formanns menntamálanefndar, Sigurðar Kára Kristjánssonar, fyrir þeim skuldbindingum sem okkur ber að hlíta með aðild okkar að Evrópuráðinu er ekki meiri en svo að hann sagði efnislega að það kæmi Íslendingum ekkert við. Fjölmiðlaskrifstofan og Evrópuráðið hefur einkum látið sig varða mannréttindi og pólitísk réttindi. Hún hefur gefið út fjölmargar ábendingar og tilmæli um hvernig réttast sé að haga málefnum opinberra fjölmiðla þannig að tryggt sé í fyrsta lagi að breið skoðanamyndun sé tryggð í samfélaginu, í öðru lagi að enginn einn aðili einoki skoðanamyndun. Niðurstaðan er alltaf sú sama. Númer eitt ber að efla almenningsútvarp. Það er reyndar sú niðurstaða sem allar þær nefndir sem hafa fjallað um fjölmiðlamál af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa komist að. En númer tvö kemur jafnan fram: Þeir sem ráða fyrir útvarpi sem almenningur á verða að hafa hlífð og skjól fyrir pólitískum íhlutunum.

Ég rifja það upp, frú forseti, að í miklum atgangi sem varð í einu aðildarríkja Evrópuráðsins fyrir fimm árum og endaði á þann hátt sem fjölmiðlalögin hin fyrstu næstum því enduðu í, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu, þar var það sérstakt áfellisefni Evrópuráðsins að útvarpsstjórinn, sem þar var ráðinn eða þar var mælt fyrir um hvernig ætti að ráða, skorti pólitískt skjól vegna þess að hann var einungis ráðinn til fimm ára. Ráðningartími þess útvarpsstjóra sem lögin gera ráð fyrir er nú ekki alveg í þeim anda. Það sem mestu skiptir þó er að ég tel að umbúnaðurinn um stjórn stofnunarinnar hafi með vissum hætti aukið möguleika á því að beita pólitísku ofbeldi gagnvart útvarpsstjóra.

Stjórn stofnunarinnar ber að haga þannig samkvæmt frumvarpinu að þingið tilnefnir og handhafi hins eina hlutabréfs í reynd skipar, og þingið á að tilnefna einu sinni á ári. Á því er engin breyting. Þetta er verulega alvarlegur galli á umbúnaðinum um stjórn Ríkisútvarpsins. Ég er þá ekki að vísa endilega til reynslunnar af Sjálfstæðisflokknum síðustu ár en allir vita að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt mjög ríkt upp úr því að hafa sterk pólitísk ítök á ríkismiðlunum. Við höfum fundið fyrir því sem erum í stjórnarandstöðu. Það mætti kannski deila með hæstv. ráðherra reynslu minni af því að hafa verið formaður stjórnmálaflokks og ekki einu sinni tekist á umbyltingarárum í íslensku efnahagslífi að koma sjónarmiðum mínum um íslensk efnahagsmál á framfæri mánuðum saman. Það var ekki fyrr en þessi þingmaður greip til sinna ráða og fór að berja þetta ríkissjónvarp með því að kalla það „Bláskjá“ til að draga athygli að þessu framferði, sem því var kippt í lag. Svona var það nú.

Ég ætla ekki, frú forseti, að fara að rekja endilega með hvaða hætti starfsmannamálum ríkissjónvarpsins er skipað en ég sofna ekki alltaf glaður. Ég er ekki alltaf kátur þegar ég sé hvernig verið er að ráða inn menn þar, hvaðan þeir koma, hjá hvaða stjórnmálaflokkum þeir hafa starfað, jafnvel svo. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur lostið hrammi sínum æ ofan í æ með sýnilegum og ósýnilegum hætti ofan í ríkismiðlana. Þar skjálfa menn fyrir Sjálfstæðisflokknum. Ég er ekki að halda því fram að þessi hæstv. ráðherra hafi endilega skakað skellum eða byrst sig persónulega gegn starfsmönnum Ríkisútvarpsins en það gerði sá sem réð fyrir þeim flokki og sem hæstv. ráðherra kannski aðeins fann til tevatnsins hjá á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir skömmu.

Það vita auðvitað allir hvernig fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins lét hafa sig í það að skelfa og ógna starfsmönnum með ýmiss konar hætti og það eru fleiri sem hafa í þann knérunn höggvið, að ég ekki segi eins og Pétur tólfti í sögu Stefáns Jónssonar, „það knérör“.

Umbúnaðurinn um stjórn Ríkisútvarpsins er svona: Ráðherrann skipar stjórn sem er tilnefnd af pólitísku Alþingi. Þessi stjórn er þar af leiðandi pólitísk og hún ræður útvarpsstjórann. Það er ekki hægt að halda því fram að fjarlægðin frá handhafa hlutabréfsins og útvarpsstjóra sé mikil, en látum það vera. Jafnvel við slíkar aðstæður er hægt að búa til skjól fyrir hann. Það gera menn með því að tryggja að hann sé ráðinn til langs tíma þannig að hann geti starfað óhræddur um að að honum verði sótt með pólitískum hætti. En sú staðreynd að þingið á samkvæmt frumvarpinu að kjósa á ári hverju í stjórn Ríkisútvarpsins gerir auðvitað að verkum að það er stöðugt ósýnilegt gult spjald á lofti. Sá útvarpsstjóri sem vill fá frið frá handhöfum valdsins hagar sér vel. Ég tek það skýrt fram, frú forseti, að ég tek núverandi persónur og leikendur, sem eru í hlutverkum útvarpsstjóra í dag og menntamálaráðherra, út fyrir sviga. En við höfum séð hvernig Sjálfstæðisflokkurinn vinnur og vitum að yfirvöldin eru ekki alltaf jafnmild í þeim húsakynnum og þau eru í dag. Þetta er verulegur galli.

Frú forseti. Ég get svo ekki annað að lokum en drepið á það sem ég kalla nefskatt Þorgerðar Katrínar. Mér finnst með ólíkindum að menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli leggja fram frumvarp með nefskatti. Þetta er eitt af því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf barist gegn og eitt af því sem helstu talsmenn Sjálfstæðisflokksins á sviði ríkisfjármála berjast gegn. Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra eða Sjálfstæðisflokkinn að halda því fram að þetta sé ekki skattur. Þetta er einn af felusköttum ríkisstjórnarinnar.

Það sem mér þykir hins vegar ótrúlegt í þessu máli er að þeir sem nú ganga harðast fram í slagnum til að tryggja að þetta gælumál hæstv. ráðherra komist til byggða eru menn sem hafa sérstaklega lagt fram þingmál þar sem þetta er áfellst. Hv. þm. Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Pétur Blöndal lögðu fram þingmál þar sem í 13 liðum var farið yfir það hvað nefskattur væri ranglátt, hættulegt og heimskulegt fyrirbæri. Hæstv. menntamálaráðherra hefur fullkominn rétt til að vera allt annarrar skoðunar en þessir menn. En maður veltir því fyrir sér: Hvernig í ósköpunum geta þessir ungu sjálfstæðismenn, sem nú leggja sig á vogarskálar kjósenda, komið hingað og beinlínis ekki bara greitt atkvæði með máli sem þeir hafa sjálfir fært sterkustu rökin fyrir að er heimskulegt heldur beinlínis vaðið fyrir það eld og brennistein?

Frú forseti. Ég tel að þessir ungu þingmenn séu hinir efnilegustu. Ég hef oft dáðst að þeim í þessum sölum. En eitt verða þeir að læra ef þeir ætla að erfa ríkið: Menn verða að fara eftir sannfæringu sinni. Það gengur ekki að menn leggi fram frumvarp um Ríkisútvarp, eins og þessir menn hafa gert, þar sem ráðist er sérstaklega, í fjölmörgum tölusettum liðum, gegn því sem er ekkert annað en nefskattur. Síðan koma þessir sömu menn og berjast fyrir því að það sem þeir hafa átalið hvað harðast verði að veruleika. Svo lengi lærir sem lifir, frú forseti, en fyrr átti ég á dauða mínum von en að sjá þessa ungtyrkja stuttbuxnaíhaldsins taka með slíkum hætti fullkomna U-beygju í þessu máli.