133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:15]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega grafalvarlegt ef hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem jafnframt er formaður BSRB, kemur hingað upp í ræðustól því þar verður ekki skilið á milli, hann hefur að mörgu leyti staðið sig ágætlega, en líka með þeim hætti að hægt er að gagnrýna það. Ég vil leyfa mér að gagnrýna það harkalega að hv. þingmaður komi upp í ræðustól og væni útvarpsstjóra um pólitíska misnotkun. Það er rangt og það er firra að halda slíku fram. Sá útvarpsstjóri sem nú er hefur gegnt starfi sínu af mikilli samviskusemi og styður einmitt þetta mál, ekki út af því að hann er að láta að vilja stjórnvalda, eins og sumir vilja væna hann um — hvers konar er þetta? — heldur miklu frekar sér hann tækifæri í þessum breytingum, tækifæri sem stuðla að því að hann ásamt starfsfólki sínu geti rekið stofnunina til að þjóna og fullnægja þeim kröfum sem við gerum til Ríkisútvarpsins, sem ég er margoft búin að koma inn á. Ég vil því sérstaklega leyfa mér að mótmæla því sem hefur verið sagt hér í ræðustól þingsins varðandi þetta efni.

Það er ekkert launungarmál að við erum einfaldlega ósammála um leiðir. Við erum sammála um eitt, ég og hv. þingmaður, við viljum hafa ríkisútvarp sem sinnir menningarlegu hlutverki en við erum ósammála um leiðir. Við höfum ávallt verið ósammála um leiðir til að stuðla að eflingu Ríkisútvarpsins. Ég er hins vegar sannfærð um að sú leið sem við ræðum nú er sú rétta og til þess fallin í því umhverfi sem við búum við og með tilliti til ákvarðana m.a. Evrópuráðsins að við séum að fara rétta leið til að uppfylla og fullnægja þessari menningarlegu fjölbreytni.