133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:20]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki verið að brjóta neina sátt varðandi Ríkisútvarpið í þessu. Það er verið að efla fjölmiðilinn með það í huga að hann geti sinnt þessu hlutverki sínu. Mér finnst það mjög ankannalegt að hv. þm. Ögmundur Jónasson og formaður BSRB skuli koma hingað og segja forstöðumann stofnunar, forstöðumann opinberrar stofnunar, vera nokkurs konar strengjabrúðu ráðherra. Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé að segja það. (Gripið fram í.)

Gott og vel, en ég undirstrika að eins og það kom frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni var eins og útvarpsstjóri gæti ekki mótað sér og myndað sjálfstæðar skoðanir (Gripið fram í.) með hagsmuni fyrirtækisins í huga. Það er nákvæmlega það sem hann hefur í huga og þess vegna styður hann málið, það er ekki út af neinu öðru. Það eru hagsmunir Ríkisútvarpsins sem hann ber fyrir brjósti og ekki neitt annað.

Að menntamálaráðherra geti ekki birst á blaðamannafundum eða öðrum fundum með útvarpsstjóra er náttúrlega reginmisskilningur, frú forseti. Síðan getur formaður BSRB — sem vill svo til að er líka þingflokksformaður Vinstri grænna — þrammað upp í Ríkisútvarp og haldið hvaða fundi sem hægt er að halda ef honum þóknast svo, í nafni BSRB.