133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:24]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir. Ég tek undir með honum að ég hefði gjarnan viljað ræða, eins og ég kom inn á áðan, enn frekar um þjónustusamninginn sem hann í rauninni einn þingmanna bryddaði sérstaklega á og kom inn á í ræðu sinni og fyrir það ber að þakka.

Verið er að spyrja um hlutafélagsformið. Ég kom inn á það áðan og það er ekkert launungarmál og ég trúi ekki að það sé viðkvæmt, að þegar vinstri flokkarnir voru við völd í Reykjavík stofnuðu þeir Félagsbústaði hf. Ég spyr: Er í lagi að breyta félagslegu úrræði í hlutafélagsform en gera það tortryggilegt þegar er komið að fjölmiðlarekstri, er það tortryggilegt?

Við verðum að átta okkur á því að Ríkisútvarpið verður að geta hreyft sig, með ákveðnum takmörkunum þó, í formi opinbers hlutafélags vegna þess að það eru upplýsingalög sem gilda um það og eitt og annað sem tengist opinberum hlutafélögum sem er líka niðurnjörvað í þessu frumvarpi varðandi hlutafélagið, það er ákveðin takmörkun. Það þarf samt að fá tækifæri til að hreyfa sig. Ég er einfaldlega sannfærð um að það úrræði sem hlutafélagsformið er, og ég er ekkert ein um það heldur flestallir rekstraraðilar fyrirtækja, að rétt sé að fara þá leið. Það er miklu frekar þannig að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar þurfi að sannfæra menn um ágæti sjálfseignarstofnunar, sem er í rauninni einkavæðing, sjálfseignarstofnun sem ekki er í skýrri eigu neins er einkavæðing. Það er ekkert öðruvísi. Af hverju er betra að fara sjálfseignarstofnunarleiðina þegar fyrirtæki, menntastofnanir og aðrar mikilvægar stofnanir í samfélaginu eru að hörfa undan sjálfseignarstofnunarfyrirkomulaginu og fara inn í hlutafélagaformið? Af hverju eigum við þá (Forseti hringir.) að setja Ríkisútvarpið inn í fyrirkomulag sem stjórnendur fyrirtækja vilja ekki?