133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:28]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minna hv. þingmann á að við umræðu fyrr á þessu ári léði hv. þingmaður einmitt máls á því að færa Ríkisútvarpið undir hlutafélagsform. Það var á þessu ári, það var ekki einhvern tíma fyrir 70 árum, heldur á þessu ári sem hv. þingmaður léði máls á því að færa það í þá átt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sem ég tel að mörgu leyti að við höfum komið til móts við í gegnum upplýsingalögin og þær kröfur og hugmyndir sem hv. þingmaður hafði uppi til þess að hægt væri að una því að Ríkisútvarpið færi undir (Gripið fram í.) hlutafélagsformið. Það hlýtur að vera ákveðin stefna, ákveðin hugsjón að geta séð fyrir sér að Ríkisútvarpið eflist og styrkist til að sinna þessum kröfum, þessum skýrt afmörkuðu kröfum með því að fara þessa leið. (Gripið fram í.) Það dugar ekki og þá fellur Ríkisútvarpið undir regluverk sem er þekkt og hefur langa sögu hér á landi. (Gripið fram í.)

Í lögum um hlutafélög (Gripið fram í.) og nú skal hv. þingmaður hlusta, (Forseti hringir.) er að finna skýr ákvæði um réttindi og skyldur stjórnar, framkvæmdastjóra, (MÁ: Og hluthafa.) já, já, hluthafa. Við vitum alveg að hér er löggjöf um opinber hlutafélög. Af hverju er ákvæði og löggjöf um opinber hlutafélög, eins og ég gat um áðan, ef menn ætla sér ekki að nota þau? Er það bara út af einhverju, til þess að hafa uppi einhverjar klisjur og kreddur? (Gripið fram í.) Auðvitað er það ekki þannig. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Menn eiga ekki að vera að kallast á hér á milli ræðustóls og sætis úti í sal.)

Síðan er — (Gripið fram í.) ef ég fæ að halda áfram að svara, frú forseti, fyrirspurn hv. þingmanns, þá eru til þekktar reglur og til er fjöldi fordæma í þá veru hvernig hægt er að leysa úr álitamálum sem oft koma upp í tengslum við rekstur hlutafélaga. Þetta er einfaldlega þekkt form. Af hverju á að setja Ríkisútvarpið í form sem er miklu frekar hreinn einkarekstur, miklu meiri einkarekstur í formi sjálfseignarstofnunar en hlutafélag, sem (Forseti hringir.) allir þekkja og allir eru að leita eftir að reka fyrirtæki eftir? (Gripið fram í.)