133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

störf hjá Ratsjárstofnun.

181. mál
[13:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það eru fáir ráðherrar sem eiga jafnsvarta skrá í byggðamálum og frú Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. fyrrverandi byggðamálaráðherra og núverandi utanríkisráðherra. Hún hefur staðið eins og klettur vörð um kvótakerfið sem hvað eftir annað hefur höggvið skörð í byggðir landsins. Nú síðast er það Grímsey sem verður fyrir barðinu á kerfinu og hún hefur hafnað öllum breytingum á því og kallað allar breytingar eitthvert föndur við kerfið. En það er ekki nóg með það heldur hefur hún afnumið þá litlu flutningsjöfnun sem er á vörum landsmanna og síðan hækkaði hún ótæpilega rafmagnsreikning fólks sem hitar upp hús sín með raforku. Nú óska ég eftir því við hæstv. ráðherra að hún líti um öxl og skoði verk sín og spyrji sjálfa sig hvort ekki sé nóg komið og hvort ekki eigi að snúa við blaðinu og hvort hún ætti ekki að beita sér í ljósi sögu sinnar, hvort ekki eigi að hætta við að höggva enn og aftur í skörð í byggðir landsins. Þá á ég við það að hætta við að flytja störf sem unnin eru á landsbyggðinni á vegum Ratsjárstofnunar frá landsbyggðinni, svo sem frá Bolungarvík, Langanesi og Höfn. Þessar breytingar fela bæði í sér uppsagnir og tilfærslu á störfum frá landsbyggðinni hingað á suðvesturhornið. Er ekki nóg komið?

Í viðtali í Morgunblaðinu í gær sagði virtur skipstjóri og fyrrverandi oddviti sveitarfélags norður í landi að fækkun starfa Ratsjárstofnunar væri enn eitt dæmi um hvernig stjórnvöld Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru að draga máttinn úr byggðum landsins og hann kallaði þetta einfaldlega landráðastefnu viðkomandi flokka.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra utanríkismála sem fer með þennan málaflokk hvort það hafi verið metið hvernig öryggi ratsjárstöðvanna muni skerðast við að flytja þessi störf suður en það er ljóst að þegar enginn tæknimaður verður starfandi á viðkomandi stöðum þá taka allar lagfæringar lengri tíma en þær gera nú. Viðgerðin tekur auðvitað lengri tíma þegar flytja þarf starfsmenn sem þurfa að gera við og yfirfara bilun á viðkomandi landshorn. En fyrst og fremst er það fáránlegt að leggja fram í byrjun árs áætlun um byggðamál en koma síðan að hausti til sem hæstv. utanríkisráðherra og skera niður störf á landsbyggðinni. Þetta er alveg furðulegt.

Hvað er verið að spara? Það er verið að spara í ráðuneyti utanríkisþjónustunnar sem hefur þanist út og á að þenjast út á næsta ári um einhverja milljarða. (Forseti hringir.) Er ekki nóg komið og ef það þarf að spara, (Forseti hringir.) hvers vegna þarf þá að fara á þá staði sem standa höllum fæti, frú forseti?