133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

störf hjá Ratsjárstofnun.

181. mál
[13:35]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Áður en ég fer að svara fyrirspurnum hv. þingmanns vil ég fyrst segja utan dagskrár að þegar ég skoða verk mín sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra þá er ég ákaflega stolt yfir því að það náðist mikill árangur í byggðamálum á þeim tíma sem ég fór með þau mál.

Þá kemur að því að svara fyrirspurn hv. þingmanns sem er svona, með leyfi forseta:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að hætt verði við að flytja störf á vegum Ratsjárstofnunar frá landsbyggðinni, svo sem frá Bolungarvík, Langanesbyggð og Höfn?“

Ratsjárstöðvarnar fjórar sem hér um ræðir eru reknar af Bandaríkjastjórn — ég endurtek: eru reknar af Bandaríkjastjórn, sem hefur gert stífar kröfur um hagræðingu í rekstri þeirra m.a. vegna tilkomu tæknibreytinga sem stuðlað hafa að sjálfvirkni stöðvanna og fækkun starfsmanna samfara þeirri þróun, sem hefur reyndar alls staðar átt sér stað. Það er því misskilningur hjá hv. þingmanni sem sagði áðan að það væri verið að tala um að spara í utanríkisráðuneytinu. Það er Bandaríkjastjórn sem rekur þessar stöðvar.

Þess má geta að það reyndist unnt að bjóða sumum þeirra starfsmanna sem sagt var upp störf á Miðnesheiði þar sem stjórnstöð og miðstöð ratsjáreftirlitsins er staðsett. Við skulum hafa hugfast að í upphaflegum áætlunum Bandaríkjamanna í viðræðum við íslensk stjórnvöld um framtíð varnarsamstarfsins var gert ráð fyrir lokun norðurstöðvanna tveggja. Þeir ætluðu að loka þeim. Þær lokanir hefðu þegar verið komnar til framkvæmda ef ekki hefði náðst sá árangur í viðræðunum sem raun ber vitni. Eins og fram kemur í samkomulagi Íslands og Bandaríkjamanna um varnarmál, sem undirritað var í Washington 11. október sl., þá hyggjast þjóðirnar ræða framtíðarfjármögnun og fyrirkomulag íslenska loftvarnakerfisins sín á milli og við NATO og ég vænti þess að farsæl niðurstaða náist í þeim viðræðum og að áfram verði reknar fjórar ratsjárstöðvar á Íslandi.

Síðari spurning, með leyfi forseta:

„Telur ráðherra að öryggi ratsjárstöðva skerðist við að enginn tæknimaður verður starfandi þar?“

Svarið er eftirfarandi: Nei, ég tel ekki að svo sé. Sjálfvirkar ratsjárstöðvar hafa verið reknar með góðum árangri í öðrum löndum árum saman. Ratsjárstofnun verður með mjög öflugt kerfi sem verður áfram vaktað allan sólarhringinn. Auk þess verður haldið áfram fyrirbyggjandi viðhaldi með reglulegum viðhaldsferðum út á stöðvarnar. Á undanförnum árum hefur sjálfvirkni í rekstri ratsjárkerfa aukist til muna og telja verður eðlilegt að rekstur ratsjárstöðvanna hér á landi verði aðlagaður þeim tæknilegu breytingum sem þar hafa orðið ásamt þeirri hagræðingu sem fólgin er í þeim. Það er komin liðlega 10 ára reynsla af rekstri fjarstýrðra ratsjárstöðva víða í Evrópu og Norður-Ameríku og þær hafa gefist vel.

Ég get svo bætt við, hæstv. forseti, þar sem tíma mínum er ekki lokið að að sjálfsögðu er það mér ekki gleðiefni að sú ákvörðun hafi verið tekin af hálfu Bandaríkjastjórnar, að draga þarna saman í rekstri, en við verðum hins vegar að horfast í augu við þær tæknibreytingar sem hafa átt sér stað. Það sem er aðalatriðið í dag er hvernig framtíðarrekstri þessara stöðva verður háttað og það er það sem við ætlum að ræða við Bandaríkjamenn frekar og sennilega líka við NATO en ég tel algerlega augljóst að Íslendingar þurfi að taka á sig einhverjar skyldur í þessu sambandi líka.