133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

störf hjá Ratsjárstofnun.

181. mál
[13:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég sýni því ákveðinn skilning að hæstv. ráðherra sem er ný í starfi átti sig ekki á að hún fer með yfirráð yfir umræddri stofnun og getur þess vegna haft áhrif á þessa ákvörðun.

Ég vona að eftir þessa umræðu upplýsist ráðherrann þannig að hún geti tekið um þetta ákvörðun og átti sig á því að þetta mál heyrir undir viðkomandi ráðherra en ekki Bandaríkjastjórn. Þetta er íslensk stofnun sem lýtur valdi ráðherra. Það er ekki hægt að fara til Bandaríkjanna og skýla sér þar á bak við verk sín. Þetta er einfaldlega ákvörðun hennar eða vilji og ég get ekki séð að hæstv. ráðherra ætli að breyta einu né neinu.

Frú forseti. Málið snýr einnig að byggðastefnunni, byggðastefnu Framsóknarflokksins sem hefur birst undanfarin ár og hæstv. ráðherra segir að þetta sé góð stefna. En við sjáum það einfaldlega í umfjöllun blaða, svo sem Fréttablaðsins, að byggðunum hefur hrakað. Það er ekki nein tilviljun, heldur er það stefna stjórnvalda í atvinnumálum og hvar störfum er niður komið, opinberum störfum. Hér var fyrirspurn svarað og kom fram að hið opinbera hefur fjölgað opinberum störfum hér um mörg þúsund meðan þau hafa staðið í stað eða jafnvel fækkað á landsbyggðinni.

Hér er hæstv. ráðherra enn að. Hún er komin í nýtt ráðuneyti og vill halda áfram. Fækka störfum og flytja þau til. En þetta er staðreyndin og þetta er verk sem rekja má til hugmyndafræðings flokksins til margra ára sem er nú starfandi formaður flokksins og hæstv. iðnaðarráðherra. Hann hefur skrifað grein um að hér væri risið borgríki.

Þetta er stefna hugmyndafræðings og formanns Framsóknarflokksins sem er hér í verki, frú forseti. (Forseti hringir.) Þetta er alvarlegt. Við í Frjálslynda flokknum (Forseti hringir.) höfum þá trú að hægt sé að snúa þessari stefnu við.