133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

215. mál
[13:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þórdís Sigurðardóttir) (S):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr og greinargóð svör og fagna áliti hans og vil því hvetja hæstv. samgönguráðherra í ljósi þess sem komið hefur fram að hefja undirbúning að sameiningu þessara tveggja stofnana, Flugmálastjórnar Íslands og Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli.

Ég vona hins vegar að undir því verði þá flugstöðin á Keflavíkurflugvelli. Hún hefur verið undir utanríkisráðuneytinu síðustu ár en nær væri að flugstöðin sameinaðist nýju opinberu hlutafélagi sem sérhæfir sig í flugstarfsemi og heitir Flugstoðir, og kemur til með að hefja starfsemi 1. janúar 2007. En þannig væri hægt að nýta krafta og sérhæfingu starfsmanna og til að efla samkeppni á sviði flugsins og takast á við hinar auknu kröfur sem eru lagðar á flugstarfsemi.