133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

fötluð grunnskólabörn.

103. mál
[14:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram opinberlega að deilur eru milli ríkis og sveitarfélaga um greiðsluþátttöku þessara aðila í kostnaði vegna lengdrar viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Um er að ræða lengda viðveru í grunnskólum hjá fötluðum börnum 10–16 eða 18 ára. Ágreiningurinn snýst um hvort lengd viðvera falli undir lög um málefni fatlaðra eða almenna þjónustu sveitarfélaga við grunnskólabörn. Svo virðist sem komin sé upp alger pattstaða. Það gengur ekki því að á meðan líður fjöldi fatlaðra einstaklinga, en opinberlega hefur verið nefnt að um sé að ræða 370 fatlaða einstaklinga, foreldra þeirra og aðstandendur sem þurfa jafnvel að minnka við sig vinnu vegna þessara kerfisdeilna ef svo má kalla það.

Það er ólíðandi að deilur milli ríkis og sveitarfélaga bitni með fullum þunga á hundruðum fatlaða grunnskólabarna og foreldrum þeirra. Ekki er deilt um hvort þörfin sé fyrir hendi heldur um það hvort það sé hlutverk ríkis eða sveitarfélaga að veita þessa þjónustu og síðan hvað hún kostar. Ef lagaákvæði eru óljós á strax að breyta þeim.

Ríki og sveitarfélög greinir líka á um útgjöldin vegna þessarar þjónustu sem ríkið metur á rúmlega 100 millj. kr. en sveitarfélögin meta á nær 200 millj. kr. Ríkið vill setja hámark á greiðslurnar og greiða einungis samanlagt 50–55 millj. kr. og inni í því er 45 millj. kr. kostnaður sem þegar er greiddur vegna lengdrar viðveru fatlaðra barna á sjálfseignarstofnunum sem hagsmunasamtök fatlaðra reka, eins og Lyngás. Ríkið virðist því einungis vera tilbúið til að leggja fram 10 millj. kr. af heildarkostnaði á bilinu 100–200 millj. kr. sem lengd viðvera 10–16 ára fatlaðra barna kostar og auðvitað er um að ræða óskir um enn lengri viðveru eða að minnsta kosti fram til 18 ára aldurs.

Þetta er að mínu viti, virðulegi forseti, óviðunandi ástand sem verður að leysa og það strax. Ef þarf að breyta lögunum þá á að gera það og ef það eru deilur um hvað þessi þjónusta kostar — og það ber verulega í milli ríkis og sveitarfélaga í því efni — þá hefði ég talið að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að skera úr því með því að fá óvilhallan aðila eins og Ríkisendurskoðun eða einhvern sambærilegan aðila til þess að meta með hlutlausum hætti hvað þessi þjónusta kostar. Síðan á auðvitað bara að skipta því á milli ríkis og sveitarfélaga þar til komin er niðurstaða í þetta mál, þ.e. lagalega, hvorum megin þetta á að liggja kostnaðarlega séð. En það er óviðunandi, virðulegi forseti, að þessi kerfisdeila skuli bitna á fötluðum börnum og foreldrum þeirra meðan stjórnvöld geta ekki hoggið á þennan hnút. (Forseti hringir.) Ég spyr því hæstv. ráðherra hvernig hann ætli að leysa þessa deilu sem upp er komin.