133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna.

205. mál
[14:20]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr hvenær megi vænta þess að framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna taki gildi. Í því sambandi ber fyrst að nefna að gerð þessarar áætlunar er einn af 16 liðum í gildandi framkvæmdaáætlun um jafnréttismál sem félagsmálaráðuneytið ber ábyrgð á eða er samstarfsaðili í. Áætlunin er til fjögurra ára og nær til ársins 2008. Ég mun á yfirstandandi þingi leggja fram tillögu til þingsályktunar um að endurskoða framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum ásamt skýrslu um stöðu og þróun í jafnréttismálum þar sem gerð verður ítarleg grein fyrir stöðu mála og verkefna.

Verkefni um framkvæmdaáætlun um launajafnrétti hefur verið undirbúið með rannsóknum og kortlagningu á stöðu mála hér á landi. Árið 2004 þegar Ísland gegndi formennsku í norrænu samstarfi beitti félagsmálaráðuneytið sér fyrir norrænu samanburðarverkefni undir heitinu Mælistikur á launajafnrétti á Norðurlöndum. Voru niðurstöður þeirrar könnunar kynntar í vor. Rannsóknin telst jafnframt hluti af gildandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og í niðurstöðum könnunarinnar kom fram að viss stöðnun virðist ríkja í þróun launajafnréttis á Norðurlöndum.

Í samræmi við gildandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára réðst félagsmálaráðuneyti jafnframt í viðamikla könnun á launamyndun og kynbundnum launamun hér á landi. Rannsóknin er endurtekning á rannsókn sem gerð var fyrir rúmum áratug eða árið 1994, eins og hv. fyrirspyrjandi hefur þegar nefnt um, þá þætti sem hafa áhrif á laun og starfsframa kvenna og karla. Rannsóknin tók til fjögurra opinberra fyrirtækja og fjögurra einkafyrirtækja, þeirra sömu og tóku þátt í könnuninni fyrir rúmum tíu árum. Það þykir auka mjög gildi hennar. Markmiðið með könnuninni var að fá fram stöðu mála og kanna hvort sömu þættir hafi enn áhrif á laun karla og kvenna nú og fyrir rúmum tíu árum.

Ég vil hér með upplýsa hv. þingmann um það að niðurstöður þessarar viðamiklu könnunar voru kynntar mér í fyrradag og ég hyggst kynna þær á morgun á blaðamannafundi. Niðurstöðurnar eru mjög áhugaverðar. Að vissu leyti eru þær mjög jákvæðar og gefa tilefni til bjartsýni en því miður að vissu leyti neikvæðar og benda til stöðnunar. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að allnokkrar breytingar hafi orðið á starfsumhverfi og starfsháttum, vinnutíma og viðhorfi kynjanna. Þá er launamunurinn minni hjá hinu opinbera en á almenna markaðnum en auðvitað með öllu óásættanlegur á báðum sviðum. Það vil ég undirstrika sérstaklega í þessari umræðu.

Ég vil nefna hér auk þeirra tveggja rannsókna sem ég nefndi áður að unnið er að nánari útfærslu launakerfis hjá hinu opinbera en nýtt launakerfi sem byggir á nýjum stofnanasamningum tók gildi 1. maí síðastliðinn. Það kerfi kemur að fullu til framkvæmda 1. maí 2007 en nú stendur yfir lokavinna við útfærslu kjarasamninga og stofnanasamninga. Heildarsamtök starfsmanna ríkis og sveitarfélaga hafa að sjálfsögðu komið að þeirri vinnu sem m.a. miðaði að því að útrýma kynbundnum launamun.

Í félagsmálaráðuneytinu höfum við afhent kyngreindar upplýsingar og ég veit að slík upplýsingagjöf hefur bæði vakið menn til umhugsunar og haft jákvæð áhrif á launajafnrétti. Við höfum líka haft forgöngu um að vekja athygli á þessum málum hjá öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni og yfirstjórnum annarra ráðuneyta og stofnana. Við verðum að sýna gott fordæmi og sem stjórnendur og áhrifafólk eigum við að beita öllum tiltækum verkfærum.

Hvað er til ráða þegar launamisrétti er annars vegar? Reynslan sýnir að ekki hefur tekist að uppræta launamisrétti eingöngu með rökrænum aðferðum eins og fræðslu, þekkingu, menntun og lagasetningu. Takmarkið launajöfnun gerir miklar kröfur til baráttuaðferða og aðgerða sem beitt er. Það hefur sýnt sig að konur tryggja sér ekki sömu laun og karlar með því einu að mennta sig. Lausnirnar hljóta því að byggja bæði á vilja og valdi og því að aðilar vinnumarkaðarins axli ábyrgð á vandanum og leysi hann í samvinnu við stjórnvöld sem bera ábyrgð á eftirfylgni gildandi laga á hverjum tíma.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vil ég upplýsa að félagsmálaráðuneytið hefur þegar óskað eftir samstarfi við jafnréttisráð um gerð framkvæmdaáætlunar um launajafnrétti enda er hlutverk ráðsins að stuðla markvisst að jafnari stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á vinnumarkaði. Þar eiga sæti fulltrúar helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins, bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðnum, og þótti því ástæða til að kalla ráðið til samstarfs. Verkefnið er því liður í vetrardagskrá jafnréttisráðs á komandi vetri og mun ráðið hafa samráð við þá aðila ef það telur ástæðu til við vinnu sína. Ekki er ljóst hvenær vinnu við framkvæmdaáætlun um launajafnrétti lýkur en markmiðið er að öllum verkefnum er falli undir ábyrgðarsvið félagsmálaráðuneytisins verði lokið á gildistíma áætlunarinnar eða árinu 2008.

Í mínum huga leikur ekki nokkur vafi á því að brýnasta málið á sviði jafnréttismála er að vinna gegn launamun kynjanna. Einboðið er að leita nýrra leiða og hrinda í framkvæmd nýjum verkefnum til að ná þessum markmiðum. Þegar niðurstöður könnunarinnar voru kynntar mér nú í upphafi vikunnar ákvað ég þegar að kalla saman hóp fólks sem hefur greinargóða (Forseti hringir.) þekkingu á viðfangsefninu til að yfirfara niðurstöðurnar og gera tillögur um aðgerðir.