133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna.

205. mál
[14:25]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina og eftirgangssemina. Það þarf að ganga sífellt á eftir þessari ríkisstjórn þegar farið er út í einhverjar aðgerðir sem eiga skila árangri. Mér þykir dapurlegt að heyra hæstv. ráðherra lýsa getuleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Þessi ríkisstjórn getur mælt og hún getur rannsakað og hún getur endurrannsakað og hún getur endurendurrannsakað og kannað og endurkannað áratugum saman. En hún getur ekki sýnt árangur í því að leiðrétta það misrétti sem konur þurfa að búa við úti á launamarkaði. Ríkisstjórnin er fullkomlega getulaus í þessum efnum og ræða hæstv. ráðherra ber þess auðvitað glöggt merki því menn eru ekki að setja orku sína í réttan farveg eða á rétta staði. Það hefur verið komið með tillögur inn á þingið um öflug tæki til að fara í að leiðrétta þann mismun sem er til staðar og þessi ríkisstjórn skellir skollaeyrum við þeim og vill ekki sjá þau.