133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna.

205. mál
[14:28]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að byrja á því að hrósa félagsmálaráðuneytinu fyrir að hafa í þessum efnum tekið til í eigin ranni. En þar vinna nú kannski ekki ýkja margir Íslendingar. Ég held að sú lýsing sem hæstv. félagsmálaráðherra gaf á ástandinu sé lýsandi fyrir stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í málinu því að þegar við ræddum þetta hér fyrir nærri þremur árum síðan þá sögðum við að ef menn meintu eitthvað með því að þeir ætluðu að taka á hlutunum þá gerðu þeir áætlun um hvað þeir ætluðu að gera og framkvæmdu það síðan. Nú í lok kjörtímabilsins þegar ríkisstjórnin er að fara frá eru þeir ekki byrjaðir að gera neitt og þeir eru rétt að hefjast handa við að gera áætlun um það sem þá væntanlega næsta ríkisstjórn á að gera.

Hæstv. félagsmálaráðherra er nýr á sínum stóli og ekki er hægt að álasa honum fyrir þetta. En þetta framtaksleysi ríkisstjórnarinnar lýsir bara því almenna áhugaleysi á launamisrétti kynjanna sem þar hefur ríkt allt þetta kjörtímabil (Forseti hringir.) og verður ekki úr bætt úr þessu.