133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

rannsóknarboranir á háhitasvæðum.

160. mál
[14:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Síðasta miðvikudag kynnti auðlindanefnd skýrslu sína, Framtíðarsýn um verndun og nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls, Í henni kemur fram að í ágúst sl. hafi verið í gildi fimm rannsóknarleyfi í jarðhita vegna orkuöflunar til stóriðjufyrirtækja. Þau leyfi eru á Hengilssvæðinu, Kröflusvæðinu, Þeistareykjum, Hágöngum og í Trölladyngju á Reykjanesi. Einnig kemur fram í skýrslunni að fyrirliggjandi umsóknir um rannsóknarleyfi vegna jarðhita séu 12. Þau svæði sem þar um ræðir eru Brennisteinsfjöll, Fremri-Námar, Gjástykki, Grændalur, Kelduhverfi, Kerlingarfjöll, Krýsuvík og Torfajökulssvæðið. Það er svo sem ekki tilefni til að rekja í löngu máli þá vaxandi andstöðu sem áform orkufyrirtækjanna um orkuöflun vegna stóriðju hafa mætt en vegna þessarar ásóknar hafa áhugasamir náttúruverndarar reynt að finna leiðir til að setja einhver mörk, reisa orkufyrirtækjunum einhvers konar skorður í þeim efnum.

Landvernd setti nýverið fram hugmyndir um eldfjallagarð á Reykjanesi og fyrirspurn varðandi þann garð liggur reyndar fyrir á þskj. 199 til umhverfisráðherra, sem hæstv. ráðherra fær vonandi tækifæri til að svara í næsta fyrirspurnatíma Alþingis. Þann 7. september gekkst Landvernd fyrir málþingi um hugmyndina um eldfjallagarð á Reykjanesi í Norræna húsinu. Þar talaði fyrir hönd umhverfisráðuneytisins Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri. Í máli hans komu fram áhyggjur af stöðu háhitasvæðanna vegna ásóknar orkufyrirtækjanna. Ingimar sagði mikilvægt að ekki yrði ráðist í framkvæmdir á þeim háhitasvæðum sem ekki hefðu verið metin út frá verndargildi og að takmarka yrði útgáfu rannsóknarleyfa, jafnt á Reykjanesi sem og annars staðar á landinu, þar til framtíðarstefna um verndun og nýtingu hefði verið mörkuð. Slík framtíðarstefna mun verða mótuð á næstu árum verði farið að tillögum auðlindanefndar. Það verður þó ekki fyrr en í fyrsta lagi 2010 sem gert er ráð fyrir að þær tillögur liggi fyrir samkvæmt þeirri skýrslu sem ég áður nefndi.

Nú er það lögum samkvæmt iðnaðarráðuneyti sem veitir leyfi til rannsóknar og nýtingar á orku á háhitasvæðum en því ber að leita umsagnar umhverfisráðuneytis áður en leyfin eru veitt. Í máli Ingimars Sigurðssonar á áðurnefndu málþingi kom fram að í ráðuneytinu lægju fyrir óskir frá orkufyrirtækjunum um rannsóknarboranir, að stofnanir ráðuneytisins hefðu gefið álit í samræmi við hlutverk þeirra og að málið væri til afgreiðslu í ráðuneytinu. Því spyr ég hæstv. umhverfisráðherra:

1. Hvaða umsagnir hefur ráðuneytið gefið iðnaðarráðuneytinu vegna umsókna um rannsóknarleyfi vegna orkuöflunar á háhitasvæðum á tímabilinu 2004–2006?

2. Hver er stefna ráðuneytisins varðandi orkuöflun á háhitasvæðum sem jafnframt hafa mikið verndargildi?