133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

rannsóknarboranir á háhitasvæðum.

160. mál
[14:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra þessi svör. Ég vil lýsa ánægju með að hæstv. ráðherra skuli gefa þá yfirlýsingu hér að hún telji rétt að bíða með veitingu frekari leyfa til orkuöflunar á háhitasvæðunum þar til 2. áfangi rammaáætlunar hefur litið dagsins ljós og þá væntanlega umfjöllun hennar eða staðfesting hennar á Alþingi. Sömuleiðis sýnist mér að í þeim leyfisveitingum eða umsögnum sem ráðuneytið hefur látið frá sér fara, og ég fæ svör við, að þar hafi verið uppi ákveðin tilhneiging til þess að rasa ekki um ráð fram í þessum efnum. Er það ánægjulegt. Því til staðfestingar er þessi afgreiðsla mála á óskum um rannsóknarboranir í Brennisteinsfjöllum, Krýsuvík, Trölladyngju og Hellisheiði og Grændal.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að veruleg átök standa yfir þessa stundina um þau svæði sem hér um ræðir. Við sjáum það á skýrslu auðlindanefndar. Samkvæmt henni ætti að heimila, án þess að Alþingi fengi þar nokkuð um sagt, ákveðna orkuöflun á jarðhitasvæðum sem falla í A- og B-flokk rammaáætlunar, rammaáætlunar sem hefur ekki fengið neina staðfestingu á Alþingi eða umfjöllun. Það er því mjög mikils virði að umhverfisráðuneytið skuli hafa þá afstöðu sem kemur fram í svari ráðherra.

Ég vona þá líka að hæstv. ráðherra geti staðið í ístaðinu í þessum efnum í ráðuneyti sínu nú alveg á næstunni. Það má búast við því að á grundvelli skýrslu auðlindanefndar komi veruleg krafa frá orkufyrirtækjunum um að rannsóknarleyfi á þeim svæðum sem getið er um í A- og B-flokki rammaáætlunar 1. hluta verði gefin út.