133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

rannsóknarboranir á háhitasvæðum.

160. mál
[14:43]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Hv. þingmaður leggur áherslu á hversu mikils virði það sé að ráðuneytið hafi þá afstöðu sem fram hafi komið í svörunum. Af því tilefni vil ég árétta að umsögn ráðuneytisins er gefin að fenginni umsögn bæði Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar. Á grundvelli þeirra umsagna kemur umhverfisráðuneytið sjónarmiðum sínum á framfæri við þann aðila sem er leyfisveitandinn, þ.e. iðnaðarráðuneytið í þessu tilliti. Það er rétt að halda því til haga í þessu að umsagnir umhverfisráðuneytis hafa verið ákvarðandi um útgáfu leyfanna til þessa, þ.e. engin leyfi hafa verið veitt í bága við umsagnir ráðuneytisins. Með þessu vil ég leggja áherslu á mikilvægi umsagna umhverfisráðuneytis í umræddum leyfisveitingum.

Ég árétta að ég lít þannig á að þar til þessi mál hafa verið til lykta leidd eigi að fara eftir ábendingum verkefnisstjórnar 1. áfanga rammaáætlunar. Niðurstöður hennar, eins og við vitum, voru kynntar í nóvember 2000. Við eigum að líta til þeirra svæða sem fengu einkunnina A og B og þá að teknu tilliti til þess að gögn um umhverfisáhrif séu nægjanlega góð. Hvað varðar þau svæði sem fengu einkunnina B, tel ég að eingöngu eigi að líta til þeirra kosta þar sem ekki er ágreiningur um umhverfisáhrif. Ég tel að á þann hátt sé hægt að skapa góða sátt um framkvæmdina þar til niðurstöður úr öðrum áfanga rammaáætlunarinnar liggja fyrir. Í framhaldi af því verki er fyrirhugað að vinna samræmt heildarmat fyrir allar þær virkjanir sem hafa verið til umfjöllunar í 1. og 2. áfanga áætlunarinnar og þá með hliðsjón af umhverfisáhrifum, heildarhagnaði og loks arðsemi.