133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

nám í fótaaðgerðafræði.

182. mál
[14:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Lengi hefur verið þörf á að koma á laggirnar námi í fótaaðgerðafræði á Íslandi. Starfsgreinaráð heilbrigðis- og félagsgreina, sem menntamálaráðherra skipaði á sínum tíma, fjallaði um tillögur að námskrá í fótaaðgerðafræði og sendi menntamálaráðherra tillögur sínar. Þar var lagt til að nám í fótaaðgerðafræði yrði þriggja ára nám á framhaldsskólastigi. Nám í fótaaðgerðafræði hefur verið að lengjast erlendis. Í reglugerð um menntun, réttindi og skyldur fótaaðgerðafræðinga er vandlega farið yfir þær kröfur sem gerðar eru til stéttarinnar og þeirra skóla erlendis sem mennta þessa fagstétt. Þar kemur jafnframt fram að fótaaðgerðafræðingum er m.a. gert að þekkja ákveðin sjúkdómseinkenni og leita samráðs við lækna í slíkum tilfellum. Við erum að tala um fagstétt sem m.a. fær fólk með alvarlega og hættulega sjúkdóma í hendur og því afar mikilvægt að vel sé til náms hennar vandað.

Nú er búið að auglýsa nám í fótaaðgerðafræði sem hefjast á hjá einkaskóla í janúar á næsta ári. Samkvæmt heimildum mínum á að vera um 14 mánaða nám að ræða og engar kröfur gerðar um grunnnám samkvæmt auglýsingu. Kostnaður við námið á að vera hátt á aðra milljón á nemanda. Það er ansi langt á milli 14 mánaða og þriggja ára námstíma eins og starfsgreinaráð heilbrigðis- og félagsgreina leggur til, virðulegi forseti. Á heimasíðu skólans kemur fram að menntamálaráðherra hafi veitt leyfi og að námskrá sé væntanleg. Í menntamálaráðuneytinu fást þau svör að námskrá liggi ekki fyrir. Mér er því spurn: Hvaða faglegar forsendur liggja til grundvallar leyfisveitingu til skólans?

Í lögum um framhaldsskóla og lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum framhaldsskólakennara og skólastjóra eru skýr ákvæði um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra er veita námi eða skóla forstöðu og til þeirra er kenna, þeim ber að hafa kennsluréttindi og reynslu af kennslu. Á Íslandi eru fjórir fótaaðgerðafræðingar með kennsluréttindi. Enginn þeirra hefur ráðið sig til skólans eða hyggst ráða sig þangað. Skólastjórinn er ekki með kennsluréttindi og ekki kennslureynslu. Menntamálaráðherra virðist því heimila að gengið sé fram hjá lögum sem heyra til hennar eigin fagráðuneytis. Að ofangreindu sögðu tel ég ástæðu til að efast um að nægilega faglega sé staðið að þessu námi og spyr því:

Hefur menntamálaráðherra veitt leyfi til kennslu í fótaaðgerðafræði á Íslandi? Ef svo er, hvaða faglegar kröfur eru gerðar til starfseminnar og hvaða faglegar kröfur eru gerðar til þeirra sem annast kennslu í fótaaðgerðafræði?

Hefur verið tekið tillit til niðurstöðu nefndar sem starfaði á vegum heilbrigðisráðuneytis og menntamálaráðuneytis við undirbúning náms í fótaaðgerðafræði við leyfisveitinguna?

Hefur starfsmenntaráð verið með í ráðum við undirbúning skólans?