133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

nám í fótaaðgerðafræði.

182. mál
[14:54]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Já, þetta er ákaflega sérkennilegt mál. Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra lýsir því yfir að hún hafi ekki gefið leyfi fyrir þessu námi en því var haldið fram á aðalfundi fótaaðgerðafélagsins á dögunum af fulltrúum frá Snyrtiakademíunni sem hyggst hefja þetta nám nú um áramótin að þeir hefðu þetta leyfi og að menntamálaráðuneytið mundi veita undanþágu fyrir því að þeir sem ætluðu að kenna þarna hefðu ekki kennsluréttindi. Fótaaðgerðafræðingar sem starfa hér á landi sem heilbrigðisstétt hafa ekki einu sinni leyfi til að taka nema en svo ætlar Snyrtiakademían að fara að hefja kennslu, eftir því sem fulltrúar þaðan segja, með fótaaðgerðafræðingum sem hafa ekki einu sinni kennsluréttindi. Ég bið hæstv. ráðherra að hafa allan varann á. Þetta er gert í algerri andstöðu við fagfélag fótaaðgerðafræðinga sem sinna mjög mikilvægu heilbrigðisstarfi, sinna fótum þeirra sem eru með sjúkdóma (Forseti hringir.) sem leggjast á fætur fólks eins og t.d. sykursýki.