133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

nám í fótaaðgerðafræði.

182. mál
[15:00]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vona að þessi umræða sé ekki sprottin út frá því að við erum að ræða hér um rekstrarform og að menn séu að agnúast út í rekstrarformið einkaskóla, ég vona að það sé ekki ástæðan. Fyrst og fremst verða menn að hafa í huga að það hefur ekki verið veitt leyfi og það er greinilega einhver bábilja í gangi, einhver della í andrúmsloftinu. Það er alveg ljóst að við erum ekki búin að viðurkenna námskrána eins og hún hefur verið lögð fyrir okkur. Hvað gerist síðan þegar við fáum námskrárdrögin endurbætt til umfjöllunar? Við munum að sjálfsögðu senda þau nýskipuðu starfsgreinaráði heilbrigðis- og félagsgreina til efnislegrar umsagnar. Ég get ekki fylgst með heimasíðum hvers skóla og hverrar stofnunar hér á landi. Það er einfaldlega þannig. Það er alveg á hreinu hvernig ráðuneytið hefur haft þetta til umfjöllunar. Það er okkar að tryggja að skólarnir uppfylli ákveðin gæði. Það er okkar að tryggja að þeir uppfylli þau skilyrði sem gerð eru samkvæmt lögum og reglugerðum. Við getum ekki útfært þau skilyrði frekar. Við þurfum að fylgja þeim eftir og við munum að sjálfsögðu halda uppi slíkum kröfum þegar verið er að koma á fót þessum skóla sem öðrum enda höfum við margítrekað að eitt helsta hlutverk ráðuneytis menntamála er ákveðið gæðaeftirlit, gæðaeftirlit með opinberum skólum sem einkaskólum. Það er því gott að þetta mál sé rætt og í rauninni kærkomið tækifæri að fá möguleika á því að koma hingað í ræðustól þingsins og greina frá því hvernig þessum málum er háttað. Það er verið að fara yfir þetta eins og við gerum jafnan við alla skóla sem sækja um heimild til þess að kenna ákveðin fræði en að sjálfsögðu er það viðkomandi að uppfylla þær kröfur sem við gerum til þessa náms sem annars og við fáum að sjálfsögðu umsagnir þar til bærra aðila varðandi þetta mál eins og önnur.