133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

staðbundið háskólanám á landsbyggðinni.

157. mál
[15:22]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að lýsa því yfir að ég er ósammála hæstv. ráðherra um að þetta sé mesta byggðaaðgerðin. Ég er á því að mesta byggðaaðgerðin séu sjávarútvegsmálin og síðan hvernig stjórnvöld hafa byggt upp opinbera starfsemi í miklu meira mæli á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Það sýna einfaldlega tölur frá fjármálaráðuneytinu.

Síðan hefur einnig komið fram að tæplega þriðjungs skattfjár er aflað á landsbyggðinni en einungis 15% er varið á landsbyggðinni. Ójöfnuðurinn er því víða. Ég skora á hæstv. ráðherra að svara því hvort hún ætli að beita sér fyrir aukinni uppbyggingu á háskólanámi þannig að Háskólinn á Akureyri standi jafnfætis hvað varðar fjárveitingar miðað við aðrar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Ég spyr að því vegna þess að ekki virðist vera hægt að hreyfa við sjávarútvegsmálunum. Það má ekki snerta við þeim en það má mögulega færa einhverja fjármuni til dreifbýlisins í gegnum menntakerfið.