133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[15:44]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að taka upp mál minnisskertra í þessari utandagskrárumræðu.

Minnissýki eða alzheimer hefur verið þekkt vandamál um árabil en er að verða meira vandamál. Greiningin hefur batnað. Fólk eldist, þjóðin eldist og fjölskyldumunstrið er að breytast. Það má ekki gleyma því. Hin trygga umgjörð fjölskyldunnar þar sem einhver var heima er ekki lengur til staðar. Flestir eru úti á vinnumarkaðnum.

Það verður að segjast eins og er, að velferðarkerfið hefur ekki fylgt þessari þróun, þessum sjúkdómi, og brugðist rétt við, því miður. Það þarf að stórefla félagsþjónustu sveitarfélaga eins og við höfum margtalað um og með tilliti til þessa líka. Það þarf að efla heilsugæsluþjónustuna og sjá til að samþætting þessara tveggja þátta verði efld til að þjóna þessum hópi og aðstandendum þeirra og það í heimahúsum.

Það þarf að koma upp sérstakri öldrunarþjónustu á heilsugæslustöðvunum. Það þarf að bjóða upp á viðtöl og kalla fólk inn við ákveðin aldursmörk. Það þarf að vera hægt að bjóða upp á að fara í vitjanir heim, gera úttekt á heimilinu, úttekt á fjölskyldumunstrinu og kortleggja þann stuðning sem sá minnissjúki og fjölskylda hans þarf á að halda.

Við getum gert margt til að styrkja hinn minnissjúka og aðstandendur hans, sem við höfum ekki sinnt fram til þessa. Ástæðan er ein. Hún er bara ein, þ.e. fjárskortur og aftur fjárskortur. Það er svelti hjá sveitarfélögunum og á heilbrigðisstofnunum. Þær hafa enga möguleika á að koma með nýbreytni, betri þjónustu eða sinna þessum málum frekar en öðrum.