133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[15:46]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að lagt hefur verið á það mat að um 3.000 manns hér á landi séu með heilabilun og þar af um 60% með alzheimersjúkdóm en samt á misháu stigi. Talið er að um 64% þeirra sem eru á öldrunarstofnunum þjáist af minnistapi á einhverju stigi.

Þessi sjúkdómur gengur mjög nærri sjúklingnum og fjölskyldu hans, rænir hann getu til að bjarga sér sjálfur í daglegu lífi og getu til innihaldsríkra samskipta við umhverfi sitt. Persónuleikabreytingar fylgja iðulega þessum sjúkdómi. Umönnun sjúklinga með minnistap krefst mikillar alúðar og skilnings frá hendi fjölskyldu og annarra umönnunaraðila. Þar skiptir öryggi einna mestu og að samskipti einkennist af virðingu og þolinmæði þannig að sjúklingurinn fái haldið reisn sinni þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm.

Ljóst er að ýmis úrræði eru til staðar til að mæta þörfum einstaklinga með heilabilun og fjölskyldum þeirra. Þar ber fyrst að nefna að virk greining, meðferð og endurþjálfun minnissjúkra fer fram á Landspítala Landakoti og dagvistarrými eru til staðar en þau eru aðallega á Reykjavíkursvæðinu. Á fjórða hundrað hjúkrunarrýma víða á landinu eru skilgreind sérstaklega fyrir heilabilaða en eins og ég benti á hér á undan eru fjölmargir heilabilaðir á hjúkrunarheimilum. Þá eru hvíldarinnlagnir mikilvægar. Það sem mér fannst athyglisverðast í svari hæstv. ráðherra var hve fá úrræði eru þar til staðar sem þarf að efla verulega. Lögð hefur verið áhersla á þessa uppbyggingu á þjónustu við heilabilaða á síðustu árum en samt er ekki nóg að gert og bið eftir þjónustu er víða. Af svörum hæstv. ráðherra má þó ráða að þessi mál eru ofarlega á borðum ráðuneytisins en betur má ef duga skal.

Virðulegi forseti. Við eigum ekki að sætta okkur við annað en að þjónusta við aldraða og ekki síst meðal heilabilaðra sé til fyrirmyndar. Við eigum að hlúa að þeim fjölskyldum sem hafa vilja og getu til að styðja við heilabilaðan ættingja sinn að búa í eigin umhverfi. Til þess þurfa að vera til staðar næg úrræði á borð við dagvistun og hvíldarinnlagnir auk annars stuðnings við fjölskyldur.