133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[15:51]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Viss verkefni í samfélagi okkar eru þess eðlis að okkur ber siðferðisleg skylda til að bregðast við þeim. Eitt slíkra úrlausnarefna eru málefni heilabilaðra. Þetta er einn af þeim málaflokkum sem réttlæta tilvist ríkisvaldsins, þ.e. að fullnægjandi þjónusta og úrræði fyrir þennan hóp og aðstandenda þeirra á að vera efst í forgangsröðun stjórnvalda, langt fyrir ofan reiðhallir og sendiráðsbústaði.

Hins vegar blasir við að ríkisvaldið sinnir ekki þessu máli af nægilegum krafti. Það skortir bæði á búsetumöguleika og möguleika á fleiri dagdeildum og hvíldarinnlögnum. Það skortir einnig á að hlustað sé á aðstandendur og að þörfum þeirra sé mætt en þegar kemur að heilabilunarsjúkdómum eru aðstandendur í lykilhlutverki.

Um helmingur þeirra sem eru 85 ára og eldri eru taldir vera með heilabilun af einhverju tagi. Hér er því á ferðinni stór vandi sem snertir fjöldann allan af fólki og nánast allar fjölskyldur í landinu á einn eða annan hátt. Við erum væntanlega öll sammála um markmiðið. Við skulum því líka vera sammála um að leysa þennan vanda í eitt skipti fyrir öll.

Hæstv. ráðherra staðfesti sjálf að biðtími sé of langur og að of fá pláss séu til fyrir þennan hóp en það vantar vilyrði ráðherrans fyrir fjárhagslegum úrbótum, sem er kjarni málsins. Fjárlögin eru enn þá opin og því er einstakt tækifæri fyrir ríkisstjórnina að vera sammála okkur í stjórnarandstöðunni um að setja aukið fjármagn í þennan málaflokk svo að hið opinbera geti sagt að það sinni sínu verki með sóma þegar kemur að heilabiluðum og aðstandendum þeirra.