133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[15:59]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem snertir þúsundir aldraðra og á annan tug þúsunda aðstandenda og þetta er mál sem þarf að leysa. Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt mikla og þunga áherslu á málefni aldraðra og við erum á því að hægt sé að gera betur og við erum ekki einir um það.

Í Morgunblaðinu birtist grein eftir hjúkrunarfræðing sem hafði starfað um árabil sem hjúkrunarfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri, Dagbjörtu Þyrí Þorvarðardóttur, þar sem hún bendir á skipulagsleysi. Hún bendir á að fjármunum sé ekki vel varið og að hægt sé að gera betur fyrir sömu fjármuni. Það væri fróðlegt í þeirri umræðu sem hér fer fram að hæstv. ráðherra svaraði því hvort hún sé sátt við núverandi kerfi eða vilji breyta því að einhverju leyti. Er hæstv. ráðherra sátt við það sem kom fram hjá frummælanda að það sé engin þjónusta á landsbyggðinni fyrir heilabilaða? Ég tel að það sé óásættanlegt og því þurfi að breyta.

Einnig þarf að fara yfir stöðu þeirra sem vinna á slíkum heimilum. Forstöðumenn þessara stofnana gáfu út yfirlýsingu um að kjör þeirra yrðu bætt í vor þegar þeir þrýstu á að fá sömu laun og þeir sem unnu hjá sveitarfélögunum en einhverra hluta vegna ákvað hæstv. fjármálaráðherra að veita ekki fjármuni til þess að forstöðumenn viðkomandi stofnana gætu uppfyllt þær yfirlýsingar. Það væri fróðlegt að fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra sem kemur í pontu á eftir hvort það sé ekki einmitt eitt af því sem standi þessari starfsemi fyrir þrifum.

Frú forseti. Þetta er alvarlegt mál sem við eigum að ræða og finna lausn á. Það er ekki hægt að búa við biðlista og núverandi ástand.