133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[16:01]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og svörin frá hæstv. ráðherra um þetta brýna málefni. Það er mjög margt sem vantar upp á og ég vil byrja á því að segja að þessi bók, Í skugga alzheimers, þar sem ástvinir segja frá, ætti að vera skyldulesning hvers einasta þingmanns og þeir ættu að vera búnir að lesa hana áður en þeir fara í fjárlagaafgreiðsluna nú fyrir jólin.

Það vantar sérhæfða þjónustumiðstöð, það sýnir sig þegar maður les þessa bók, og það þarf að styrkja minnismóttökuna, ég fagna því að hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir því. Það þarf líka að hlusta á fólkið sem greinist með þennan sjúkdóm og það þarf að hlusta á aðstandendur um það hvernig þjónustu þarf. Það eru sérfræðingarnir úti í samfélaginu.

Hér eru tvö skammtímapláss sérhæfð inni á þriggja manna deildum á Landakoti. Á Norðurlöndum eru tvö pláss á hverja fjögur þúsund íbúa. Við erum með tvö pláss á hverja 300 þúsund íbúa. Við verðum að taka þarna á. Það vantar líka helgarúrræði fyrir þá sem eru útivinnandi og eru með maka sína alla vikuna nema þegar þeir eru í vinnunni og sjúklingarnir eru í dagvist.

Það þarf að auka hluta sérhæfðra rýma á hjúkrunarheimilum. Og mig langar að nefna það hérna af því að það var verið að tala um heimaþjónustuna og heimahjúkrun að það kom fram á þessari ráðstefnu sem ég minntist á áðan að hún gagnast t.d. takmarkað þeim sem eru heilabilaðir og eru einir heima. Það voru átakanleg dæmi sem komu frá félagi aðstandenda. Sjúklingar fá heimsendan mat en þeir borða hann ekki, þeir gleyma að borða hann og nærast ekki. Þeir fá lyfjaskammtana heim og þeir taka lyfin ekki inn. Þeir eru settir fyrir framan sjónvarpið að kvöldi og þeir sitja þar enn þá að morgni án þess að hafa háttað sig. Þetta er eðli sjúkdómsins þannig að þessi úrræði gagnast takmarkað.

Það er mikilvægt að við horfum fram á veginn og búum okkur undir það sem koma skal, stærri hópa slíkra sjúklinga og aðstandenda þeirra. Ég vona að þessi umræða verði til þess að orðum fylgi athafnir.