133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

hvalveiðar.

[10:40]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Staða málsins er mjög einföld. Það er þannig að sjávarútvegsráðherra hefur vald til þess að gefa út veiðiheimildir á hval. Ég kynnti þá ákvörðun mína í ríkisstjórn og ríkisstjórnin stendur að baki henni þannig að málið er ákaflega skýrt. Það þarf ekki að efast neitt um það. Heimildir ráðherrans og ráðuneytisins til að gefa út þessi veiðileyfi eru alveg skýr og þess vegna hefur þetta allt saman verið kunngert með reglugerð sem ég greindi frá 17. október sl.

Það er hins vegar þannig að þegar verið er að hefja veiðar eftir 20 ára hlé eða þar um bil þá koma upp ýmis praktísk mál. Það var t.d. frá því greint strax við umræðuna að lagaumhverfið væri á margan hátt annað en við mundum setja í dag ef við værum að setja slík lög. Það er hins vegar alveg ljóst mál að það gilda sérlög um hvalveiðar. Þau lög eru skýr og þau lög eru auðvitað nægjanleg til þess að gefa út vinnsluleyfi að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Það er einfaldlega svo að það fyrirtæki sem hér um ræðir er nú að reyna að koma til móts við og er að vinna að því að ljúka því að uppfylla þau skilyrði sem verða sett til að hægt sé að hefja vinnsluna. Það er ekkert nýtt að slík atriði komi upp þegar menn eru að hefja vinnslu jafnvel á fiskafurðum eða öðrum þeim afurðum sem þó er rík hefð fyrir og stendur yfir á hverjum degi þannig að það er ekki við öðru að búast en að upp komi tilvik þar sem menn þurfi að skýra sína hluti betur þegar við erum að hefja veiðar á ný eftir 20 ár. Þessi mál eru í mjög eðlilegum farvegi milli fyrirtækisins og annarra.

Ég vek athygli á einu. Þann 17. október lá ég undir ámæli fyrir að ég hafi haft óeðlilegt samráð við fyrirtækið Hval hf. Bendir þetta atvik til þess að svo hafi verið? Auðvitað ekki. Það var ákvörðun ráðuneytisins og ráðherrans að gefa út þetta leyfi. Síðan er það þeirra sem ætla að vinna innan þessara marka að uppfylla þau skilyrði önnur sem verða sett af þar til bærum aðilum.