133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

hvalveiðar.

[10:42]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra virðist hafa farið af meira kappi en forsjá til þessara hluta og þar er ekki tímaskorti um að kenna því það er ljóst að þessi ákvörðun var tekin fyrir löngu. Kynningarefni hefur verið dreift í sendiráð og ýmiss konar undirbúningur hefur verið framinn — þó ekki nægur — miklu fyrr en ákvörðun er sögð hafa verið kynnt í ríkisstjórninni.

Svo er spurning: Hvernig fór þessi kynning fram í ríkisstjórninni? Okkur var sagt í fréttum að ríkisstjórnin hefði samþykkt ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar um þetta mál. Látið var að því liggja. Í gær kom ráðherra í ríkisstjórninni, Jónína Bjartmarz, hæstv. umhverfisráðherra, fram og sagði frá því að hún hefði fyrirvara við þessa ákvörðun vegna þess að hún teldi að þetta gæti skaðað ímynd Íslands út á við í alþjóðasamfélaginu og hún sagði í sjónvarpinu að henni fyndist þeir hagsmunir, ímynd Íslands út á við, svo sterkir, svo ríkir að hún velti fyrir sér hvort hinir hagsmunirnir væru þess eðlis að það væri rétt að láta þá ráða för.

Umhverfisráðherra er því miður ekki stödd hér þó að ég hafi gert ráðstafanir til að hún væri það. Hún kaus frekar að ræða kurteisismál við finnska sendiherrann en að standa hér og skýra fyrirvara sinn og þessa ákvörðun frammi fyrir þinginu og þjóðinni en spurningarnar vaka samt í loftinu: Komu þessir fyrirvarar fram í ríkisstjórn? Er Jónína Bjartmarz, hæstv. umhverfisráðherra, sammála þessari ákvörðun eða var ákvörðun ríkisstjórnarinnar tekin með meirihlutakosningu gegn minni hluta? Er þetta þannig, ef maður á að túlka orð Jónínu Bjartmarz, hæstv. umhverfisráðherra, að hagsmunir umhverfisráðuneytisins hafi vikið fyrir hagsmunum sjávarútvegsráðuneytisins? Hafa einhverjar kannanir verið gerðar fyrir utan þessa vitlausu skýrslu sem Sturla Böðvarsson lét Einar K. Guðfinnsson, formann ferðamálaráðs þá, búa til um ímynd Íslands í ljósi hvalveiða? Eru til einhverjar skýrslur á vegum umhverfisráðuneytisins, samgönguráðuneytisins eða sjávarútvegsráðuneytisins um ímynd Íslands vegna hvalveiðanna? Nei, það er ekki svo.