133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

hvalveiðar.

[10:57]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að sjávarútvegsráðherra hefur á grundvelli ályktunar Alþingis tekið þessa ákvörðun. Hann margkynnti hana í ríkisstjórn og þar var farið yfir málið. Þar er enginn fyrirvari bókaður.

Við stöndum einhuga að baki þessari ákvörðun og það er auðvitað mikilvægt í svo erfiðu máli að Íslendingar allir standi einhuga að málinu. Við svona aðstæður þarf Ísland að eiga eina þjóðarsál. Það skiptir máli að menn reyni ekki að tæta málið út um víðan völl eins og hér er reynt af hálfu stjórnarandstöðunnar. (Gripið fram í: Og umhverfisráðherra í gær.)

Ég tel að hæstv. umhverfisráðherra hafi verið að fjalla um málið eins og margir gera. Það getur haft sín áhrif, alveg eins og hæstv. samgönguráðherra hefur minnst á, það getur haft sín áhrif. En ef við stöndum saman munum við draga úr þeim áhrifum. Við álítum það rétt Íslendinga, (Gripið fram í.) þrátt fyrir að Mörður Árnason sé til, að það megi hefja hvalveiðar. Það sé okkar þjóðarréttur. (MÁ: Ertu viss um að umhverfisráðherra …?)

Við höfum lagt upp í þá siglingu og þess vegna skulum við standa saman. Það er engin spurning um að vinna á þessar afurðir í löggiltu fiskvinnsluhúsi á Akranesi og hvað varðar að koma afurðinni þangað, þá eru landbúnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið, Landbúnaðarstofnun og Fiskistofa að leysa það vandamál. Þar verða engir hnökrar.

Ég segi við hv. þingheim: Við skulum núna verja hagsmuni Íslands. Það var réttur Íslendinga að veiða hval. Það var okkar afurð í gegnum áratugi og við skulum ekki láta veikja okkur í þeirri orustu. Við skulum standa saman. Við skulum eiga eina þjóðarsál. (Gripið fram í.)