133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.

[11:13]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu fögnum við öllum viðbótum og stækkunum á barna- og unglingageðdeild og allri styrkingu sem þar er. Það er svo sannarlega ekki vanþörf á því. Það eru 108 börn á biðlista og staða þeirra og fjölskyldna þeirra er vægast sagt afleit þar til úr leysist. Hér erum við líka að tala um erfiðustu tilfellin. Þau geta verið mjög slæm og ég fagna þeim fram komnu hugmyndum um almenna aðkomu heilsugæslunnar og Miðstöðvar heilsuverndar barna en þar verðum við að setja inn sterka fagþekkingu og styrkingu ef þessi breyting á að ganga eftir. Talað er um að þangað verði vísað greiningu vægari geð- og hegðunarvanda hjá börnum eins og t.d. ofvirkni og athyglisbresti en ég spyr: Er hegðunarvandi sjúkdómur? Hann þarf ekki að vera það þó að börn séu á lyfjum.

Ég játa að ég sakna mjög hugmynda um teymisvinnu og samstarfs milli heilsugæslu, félagsþjónustu og skólanna. Við höfum mjög góða reynslu af starfinu í Grafarvogi og það módel er hægt að nýta um allt land. Ég óttast líka að við séum að sjúkdómsvæða hegðunarvanda barna um of með því að horfa ekki heildstætt á það sem laga þarf. Við þurfum auðvitað að auka sérþekkingu mjög víða. Ég held að við verðum að skipta um sjónarhorn á þeim vanda sem talinn er vægari, þ.e. hópurinn sem á að fara í heilsugæsluna, og að miklu fleiri aðilar komi að greiningu og síðan meðferðarvinnu heldur en koma að henni í dag því meðferðarvinnuna skortir. Allir eru að greina og ég held að það sé mikil og staðgóð þekking og reynsla sem hægt er að nýta sér í félagsþjónustu og hjá öllum þeim sálfræðingum og félagsráðgjöfum sem þar vinna. Það þarf meiri aðkomu slíkra fagstétta í skólunum. Það er raunhæft eins og ráðherrann benti á. Mér finnst að við höfum ekki hugsað þetta alveg til enda og ekki algerlega heildstætt og við þurfum að nýta þessa reynslu í öllum geirum, fjölskyldu og börnum til velfarnaðar og að teymisvinnan verði að fara fram þvert á ráðuneytið.