133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni.

[12:03]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa orðið. Þær eru mjög mikilvægar. Í þessu vandasama verkefni skiptir miklu máli að þingmenn taki höndum saman um að finna leiðir. Ég heyri það á málflutningi þeirra að það er mikill vilji til þess.

Það er rétt sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði að það ríkir taumleysi í umferðinni og við verðum að finna leiðir til þess að taka í taumana. (KolH: Aukin löggæsla.) Ég tek undir það út af fyrir sig sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði að það þarf að auka löggæslu. Ég kom sérstaklega að því hér og við höfum nú þegar aukið löggæsluna með þeim sérstaka samningi sem gerður var með auknum fjármunum og með uppsetningu myndavéla. En þessu þarf að fylgja að sjálfsögðu eftir. Það hefur verið gripið til þessara úrræða, sem sagt að lögreglan komi meira fram og hennar kraftar verði nýttir enn frekar.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson nefndi að vélhjólamenn kvörtuðu undan að ekki væri samráð. Ég vil vekja athygli á því að ég skipaði sérstakan fulltrúa vélhjólahópanna í Umferðarráð. Ég tel að það hafi verið ágæt ráðstöfun til þess að njóta þeirra góðu ráða.

Ég er sammála því sem hv. þm. Björgvin Sigurðsson nefndi að við þurfum nýtt átak í samgöngumálum. Það nýja átak var sett af stað með nýtingu söluandvirðis Símans í þessi sérstöku verkefni og við beinum sjónum okkar sérstaklega að því núna að taka æðarnar út úr höfuðborginni, Suðurlandsveginn austur fyrir fjall og Vesturlandsveginn upp í Borgarfjörð, í sérstaka aðgerð sem verður byrjað (Forseti hringir.) á strax og er í rauninni þegar byrjað á. Vegagerðin vinnur að undirbúningi og hönnun við að bæta (Forseti hringir.) umferðaröryggið á þessum köflum. Ég fagna því viðbrögðum þingmanna hér og þeim undirtektum sem ég hef fengið við þær aðgerðir sem við erum í.