133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[12:16]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessu eins og svo mörgu erum við einfaldlega ósammála. Ég tel mikilvægt að Reykjavíkurborg komi með afgerandi hætti að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Varðandi aðkomu annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að rekstri Sinfóníunnar þá er ég ekkert viss um að einhugur sé um það.

Höfuðborgin hefur margvíslegum skyldum að gegna. Það er bara þannig. Þess vegna er hún höfuðborg, Reykjavík. Aðrir bæir í kringum Reykjavík hafa ekki þessum skyldum að gegna og hafa ekki heldur þau forréttindi að hafa ýmsar menningarstofnanir sjálfkrafa starfandi innan sinna marka. Ég tel því mikilvægt, ekki síst með það í huga að við erum að fara í mjög umfangsmikið samstarf með því að reisa tónlistar- og ráðstefnuhús, að Reykjavík komi eftir sem áður að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar.