133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[12:38]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ámælisvert að hæstv. ráðherra skuli ekki beita sér fyrir því að samtalið fari fram á milli Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytis og mögulega á milli Reykjavíkurborgar, menntamálaráðuneytis og sveitarfélaganna hér í kring. Þó að Seltjarnarnesbær vilji ekki leggja til sveitarinnar eins og málum er háttað horfði málið kannski öðruvísi við ef öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu væru inni í þeirri umræðu og ef verið væri að búa til tryggari vettvang undir starfsemi sveitarinnar. Þá ætla ég bæði sveitarstjórnarmönnum á Seltjarnarnesi og í öðrum sveitarfélögum í kringum höfuðborgina að þeir átti sig á því að Sinfóníuhljómsveit Íslands sé þjóðarhljómsveit og að þeir íbúar sem eru á svæðinu eigi greiðari aðgang að henni og tónleikum hennar en aðrir sem fjær búa. Ég hefði talið eðlilegt að frumkvæðið að umræðunni væri hjá hæstv. menntamálaráðherra en ekki að hæstv. menntamálaráðherra lokaði á möguleikann eins og mér sýnist hafa gerst hér.

Varðandi umfjöllun þessara mála í þinginu er alveg ljóst hver krafa okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefur verið allan tímann. Það er vitað að um deilumál er að ræða. Það vitum við öll. Það er því kannski í verkahring hæstv. menntamálaráðherra að sýna ákveðið umburðarlyndi og víðsýni í þeim efnum, að við fáum að ræða þessi mál eins og við viljum ræða þau. Það er fullkomlega eðlileg krafa frá stjórnarandstöðunni að fá sjálfstæðan ræðutíma um hvert mál af þessum þremur.

Það var líka sjálfsagt mál hjá stjórnarliðum og hjá þingstjórninni og forsetum Alþingis að heimila að mál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væru til umfjöllunar úr því að búið var að leggja það fram áður en þessi mál komu til umræðu. Sú krafa sem við setjum fram er því eðlileg, að okkar mál fái að fylgja þessum málum til umsagnar hjá þeim aðilum sem gefa Alþingi umsagnir og góð ráð í þessum efnum. Ég held enn þá vakandi þeirri kröfu í menntamálanefnd að öll þessi mál fái að fara saman í einni spyrðu og sama umslagi til umsagnaraðila utan þings.