133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[12:40]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Vegna þessarar sérkennilegu umræðu milli hæstv. menntamálaráðherra og hv. þingmanns er rétt að taka fram í fyrsta lagi að allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagt fram á síðustu þingum mál um Ríkisútvarpið. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa veri duglegir að endurflytja mál. Ég held að það komi nú fram í þriðja sinn sem hér hefur verið minnst á. Frjálslyndi flokkurinn hefur líka lagt fram athyglisverða þingsályktunartillögu. Ég held að hann hafi gert það í þriðja sinn á síðasta þingi, hefur ekki gert það núna. Á næstsíðasta þingi lögðum við fram þingsályktunartillögu sem í sjálfu sér er í fullu gildi þó við höfum ekki sinnt um, og hefðum kannski betur gert, að leggja hana fram aftur. Þegar um þetta er rætt er því rétt að hafa í huga að fyrir liggur frá ríkisstjórnarflokkunum báðum, eða a.m.k. einhverjum parti af Framsóknarflokknum auk Sjálfstæðisflokksins — nema þá náttúrlega þeim þremur í sölunefndinni, sem eru hv. þm. Pétur H. Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson sem allir stefna hátt í prófkjörinu. Auk þessarar tillögu um hlutafélag með einræðislega stjórnskipun undir pólitískum áhrifum liggja sem sagt fyrir þrjú þingmál um Ríkisútvarpið frá síðustu þingum. Auðvitað ættu þau öll að fara í sameiginlega umræðu hjá umsagnaraðilum og úti í samfélaginu.

Í öðru lagi er sérkennilegt að menntamálaráðherra skuli koma hingað upp og segja það sem í kurteislegri umræðu í Frakklandi er kallaður andsannleikur, af því að menn vilja ekki taka stórt upp í sig í franska sjónvarpinu, um afstöðu stjórnmálamanna í borgarstjórn Reykjavíkur til málsins. Því var haldið fram að einn af þeim flokkum sem stóðu að síðasta borgarstjórnarmeirihluta væri á einni skoðun og annar á einhverri annarri skoðun.

Athugasemdir formanns menntaráðs — held ég að það hafi heitið á þeim tíma líka — vörðuðu einmitt það að Reykjavíkurborg vildi gjarnan ræða við ríkisvaldið, við menntamálaráðherra, um framtíð Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þær athugasemdir var ekki öðruvísi að skilja og alls ekki á þann hátt sem menntamálaráðherra er að reyna að túlka hér í þingsal og koma í Alþingistíðindi, að hann — Stefán Jón Hafstein er hér um að ræða, ágætan stjórnmálamann og virtan á menningarsviði — eða flokkur hans væri að lýsa því yfir að Reykjavík ætlaði ekki að koma nálægt rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það er bara, svo ég vitni aftur í Frakkana, andsannleikur svo maður tali kurteislega eins og ber að gera við hæstv. menntamálaráðherra sem er ákaflega kurteis stjórnmálamaður eins og dæmin að sjálfsögðu sanna.

Þegar menntamálaráðherra reynir að verjast þessari spurningu um samráð við Reykjavíkurborg verður að muna að í sjálfum lögunum, eins og þau standa núna, er tiltekið um samráð. Það er í 2. mgr. 3. gr. og það er gert með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Með samþykki rekstraraðila“ — sem eru núna ríkissjóður, Reykjavík, Seltjarnarnes — „getur menntamálaráðuneytið heimilað fleiri sveitarfélögum aðild að rekstri hljómsveitarinnar.“

Það er sem sagt tiltekið að ef breytingar verða á rekstraraðildinni eigi menntamálaráðherra að hafa samband við hina rekstraraðilana og bera það undir þá með hvaða hætti þetta getur gerst. Þó það standi ekki hér berum orðum mundi hvaða lögfræðingur sem vera skal gagnálykta að ef verið er að hleypa burt einum rekstraraðila eða reka burt hlóti að vera haft samráð við hina. Annað væri fullkomlega óeðlilegt í venjulegum samskiptum í mannlífinu og sérstaklega vegna þess að það stendur í lögunum. Það opnast því kannski möguleiki á því fyrir hinn nýja og djarfhuga meiri hluta í Reykjavíkurborg að fara í mál við menntamálaráðuneytið á grunni þessarar setningar í lögunum.

Athugasemdir Reykjavíkurborgar fyrr og væntanlega síðar fjalla um að Reykjavíkurborg vill gjarnan hafa samráð við aðra rekstraraðila, nú menntamálaráðuneytið eitt sér ef þessi lög ganga í gegn, um það hver eigi að vera framtíð Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það forðast hins vegar menntamálaráðherra af einhverjum ástæðum. Hún vill ekki fara í þær samræður. Kannski vegna þess að þær varða önnur samstarfsmál skrifstofu menntamálaráðherra og Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það kann að vera. Af því að allt er strand á einhverjum öðrum sviðum þá borgi sig ekki fyrir hæstv. menntamálaráðherra af einhverjum samningatæknilegum ástæðum að gera það.

En þetta á Sinfóníuhljómsveitin ekki skilið. Þetta á hin 57 ára gamla dóttir Ríkisútvarpsins, Sinfóníuhljómsveit Íslands, ekki skilið. Hún á það skilið að menntamálaráðherra taki hana í alvöru og taki lög um hana og lagabreytingar á því sviði alvarlega, sem hinn ágæti fyrrverandi menntamálaráðherra, Svavar Gestsson, bar hér fram til sigurs á sínum tíma. Það gerir menntamálaráðherra ekki, heldur lítur menntamálaráðherra á þetta lagafrumvarp um Sinfóníuhljómsveitina sem einhvers konar botnlanga, einhvers konar viðhengi eða hala á frumvarpi sínu um hlutafélagsvæðingu og áframhaldandi pólitíska stjórn á Ríkisútvarpinu.

Þess vegna hef ég gert athugasemdir í hvert einasta sinn sem menntamálaráðherra hefur komið þeim tilmælum til forseta að þetta væri rætt í einu lagi. Vegna þess að það er auðvitað alveg augljóst að ef við hefðum hlýtt þeim tilmælum menntamálaráðherra, þá hefði ekkert verið rætt um Sinfóníuhljómsveitina vegna þess að Ríkisútvarpið sjálft, hlutafélagsvæðing þess og þessi stjórnskipan sem þar á að leggja til, auk nefskattsins og þess alls saman svo ég eyði ekki meiri tíma í Ríkisútvarpið nú, hefði komið í veg fyrir að við ræddum hana.

Þetta er ákaflega furðuleg afstaða hjá menntamálaráðherra. Það er líka furðulegt að hún skuli vera að snúa út úr því hvaða mál menn vildu ræða saman að öðru leyti. Að hún skuli rugla saman fjölmiðlafrumvarpinu og Sinfóníuhljómsveitinni í þessu efni. Ég lít á Sinfóníuhljómsveitarmálið, svo það sé klárt, sem sjálfstætt mál. Ég er algjörlega ósammála menntamálaráðherra um að það hefði ekki komið fram nema Ríkisútvarpsmálið hefði komið fram. Vegna þess, eins og menn vita sem hafa komið nálægt annarri hvorri þessari stofnun eða fyrirtæki, eða báðum, þá hefur lengi verið um það rætt báðum megin borðs, að það fyrirkomulag sé óheppilegt að Ríkisútvarpið sé rekstraraðili Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég er sammála því sjónarmiði og þess vegna sammála meginefni þessa frumvarps, alveg öfugt við frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. vegna þess að ég tel að það gamla fyrirkomulag eigi ekki að gilda lengur. Tíminn hafi sýnt fram á að það sé ekki heppilegt.

Ég hef áður rakið í umræðum um þetta mál, vegna þess að það hefur aldrei mátt samþykkja þetta, þó menn væru reiðubúnir að taka það til afgreiðslu, þá hefur það aldrei mátt gera vegna stífni í menntamálaráðherra. Við hefðum getað afgreitt þetta í vor og líka í fyrravor. En það hefur ekki staðið til vegna þess að menntamálaráðherra vill þjappa þessu öllu saman í einn punkt, í einn átakspunkt, samanber þjónustusamningsdrögin sem ekki koma hlutafélaginu neitt við en samt er sagt að hlutafélagið sé forsenda þeirra, þannig að breytingar séu allar háðar þessari pólitísku þráhyggju menntamálaráðherra með hlutafélagsvæðingu Ríkisútvarpsins. — Nú man ég ekki hvernig þessi setning byrjaði en bið áheyrendur og seinna lesendur að afsaka það.

Ég held ég þurfi ekki að rekja rökin frekar fyrir því að ég sé sammála þessu. Ég hef gert það áður. Hins vegar legg ég, eins og aðrir ræðumenn, áherslu á samvinnu Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar sem verið hefur allt of lítil þrátt fyrir þessi tengsl. Það er bara staðreynd. Ég var glaður að sjá að margar sjónvarpsvélar voru á hinum merkilegu hljómleikum þar sem frumflutt var Edda I, eftir Jón Leifs. Ég vona að það hafi verið sjónvarpsvélar Ríkisútvarpsins. En það er satt að segja í fyrsta sinn í langan tíma sem ég verð var við sjónvarpsvélar á sinfóníutónleikum. Ég er ekki tíður gestur en hef þó verið áskrifandi hin síðari ár. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé það og ég hef heldur ekki orðið var við það á dagskrá sjónvarpsins mjög lengi að þar sé þessum tónleikum eitthvað sinnt. Veit ég vel að þeir eru sendir út á fimmtudagskvöldum á Rás 1.

Ég vil að auki í umræðunni, þó að það hafi komið fram áður, ég tel mig hafa gert þátttöku Reykjavíkurborgar og þessari skrýtnu vendingu með Seltjarnarnes nokkur skil, hrósa meðan ég man menntamálaráðherra fyrir að nú í fyrsta skipti, í þriðja sinn sem þetta frumvarp er lagt fram, stenst frumvarpið sjálft. Það hefur frumvarpið nefnilega ekki gert áður. Það hefur þurft okkur í minni hluta menntamálanefndar, og okkur hér sem höfum rætt þetta úr þessum stól, til að benda á það.

Ég held að í fyrsta sinn hafi það verið þannig að þrátt fyrir að þessi tengsl væru afnumin átti Ríkisútvarpið að eiga fulltrúa í stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar af ókunnum orsökum. Síðan gleymdist í fyrra að taka út klausuna um að Ríkisútvarpið, vegna rekstraraðildarinnar, hefði rétt til að útvarpa tónleikunum. Ég vil hrósa menntamálaráðherra og hennar fólki fyrir að hafa tekið mark á þessum ábendingum loksins og fyrir að leggja nú fram frumvarp sem stenst. Ef það verður samþykkt þá stenst það við þau lög sem það á að breyta. Það var nefnilega ekki áður.

Ég vil svo gera orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að mínum. Við höfum rætt það áður að það er undarlegt og sýnir kannski þau handarbakavinnubrögð sem enn leifir af í frumvarpinu að menntamálaráðherra eða ráðuneytið, eins og hér er sagt, skrifstofa ráðherra, og er náttúrlega ekki annað en skrifstofa ráðherra, skuli eiga að eiga tvo fulltrúa í stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar sem er algjörlega óþarft og miklu nær að að þessu komi fagmenn, t.d. hljómlistarmenn, eins og Kolbrún rakti úr áliti — ég man nú ekki hvort það voru starfsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar eða FÍH — við frumvarpið síðast.

Ég hef, að vísu nokkuð samhengislausara en ég ætlaði, lýst meginafstöðu okkar samfylkingarmanna til málsins, sem er sú að við erum sammála meginefni þess. Við leggjum áherslu á, þar sem við fengum vísbendingar um það í fyrra í starfi menntamálanefndar þó maður viti ekki hvaða hald er í því, að Sinfóníuhljómsveitin og Ríkisútvarpið verði áfram eins og systur og starfi vel saman.

Ég hef gert athugasemdir við einstakar greinar í frumvarpinu, sérstaklega við starfsmannagreinina. Ég hef gert athugasemdir, og aðrir stjórnarandstæðingar með mér, þrem sinnum við það að ekki skuli vera haft samráð við rekstraraðila, eins og þó er tiltekið í lögunum, þ.e. við Reykjavík. Mér finnst dapurlegt að menntamálaráðherra skuli ekki hafa drifið sig í — vegna þess að þetta frumvarp er ekki flutt í fyrsta sinn, aldrei mátt sem sé afgreiða það — að gera ofurlítið heildstæðari endurskoðun á lagaramma Sinfóníuhljómsveitarinnar og kannski könnun á framtíðarmöguleikum hennar.