133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[13:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um það hvort við viljum þessi mál út af borðinu er svarið að sjálfsögðu já. Það höfum við sagt alveg tæpitungulaust, að sjálfsögðu viljum við það. En við fáum því ekki ráðið þannig að við erum að reyna að finna næstbesta kostinn, sem er að fá þessi mál rædd heildstætt. Við höfum sagt að það sé mikilvægt að ræða fyrst grunnlöggjöfina og síðan hin sértæku mál, Ríkisútvarpið og önnur sem þessu tengjast.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta. Mér finnst hæstv. ráðherra vera með útúrsnúninga og reyna að drepa málinu á dreif, en látum hlustendur um að meta það, við erum búin að segja þetta nægilega oft. Þess vegna spyr ég núna alveg beint aftur og vil fá svar við þeirri spurningu: Það liggur fyrir stjórnarfrumvarp um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi með breytingum á stjórnsýslu stofnunarinnar. Það er mjög umdeilt frumvarp. Það liggur fyrir annað frumvarp, sem einnig kann að vera umdeilt, frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, um breytingar á skipulagi Ríkisútvarpsins, tekur á svipuðum málum en á annan hátt. Er ekki eðlilegt og sanngjarnt að þessi mál komi samhliða til umfjöllunar og þá kannski fyrst og fremst hitt, að þau fari samhliða til umsagnar og verði samhliða rædd í þingnefndinni sem um þetta vélar? Nú langar mig til að fá svar við þessari einföldu spurningu minni.