133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

almenn hegningarlög.

20. mál
[14:06]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil einungis hafa örfá orð við 1. umr. þessa máls og þá fyrst og fremst til að fagna því að það sé komið fram og lýsa þeirri skoðun minni að þetta er eitt af þeim málum sem við hljótum að þurfa að stefna að að klára á þessu þingi.

Eins og fram hefur komið og getið er um í greinargerð með frumvarpinu er þetta frumvarp lagt fram óbreytt frá fyrra þingi. Ekki vannst tími til þess á fyrra þingi að fullvinna málið í nefnd og taka það til efnislegrar umfjöllunar enda ýmis álitamál í málinu. Það eru ýmis álitamál reifuð í greinargerð með frumvarpinu og það er einmitt ástæða til að fagna því hversu ítarleg og greinargóð greinargerðin er sem fylgir málinu.

Það liggur fyrir að ágreiningur er í þinginu um einstök atriði varðandi hvaða leiðir eigi að fara þegar kemur að kynferðisbrotakafla hegningarlaganna sem hér er verið að taka til endurskoðunar. Eins og fram hefur komið í umræðunni á þetta við um vændi og um kynferðisbrot gegn börnum. Jafnvel á þetta við um nauðgun, þ.e. hvernig við viljum hafa verknaðarlýsinguna í hegningarlögunum.

Ég vil almennt vara við því að menn endurskilgreini ofbeldishugtakið. Mér hefur þótt bera dálítið á því í umræðu um hegningarlögin að hitt og þetta sé talið ofbeldi, að rýmka þurfi ofbeldishugtakið og jafnvel leggja í það einhvern nýjan skilning sem áður hefði ekki verið gert í ljósi rannsókna eða annars þess háttar. Ég held að mikilvægt sé að við höldum okkur við hefðbundna skilgreiningu á ofbeldi þó að ýmislegt kunni að hafa komið fram við rannsóknir sem gefi ástæðu til að bæta við atriðum og gera refsivert það sem áður hefur kannski ekki fallið undir verknaðarlýsingu í hegningarlögunum. Þetta á til að mynda við um nauðganir og þess vegna fagna ég því að í þessu máli er nauðgunarhugtakið rýmkað eins og fram kemur í greinargerðinni.

Ég vonast til að almennt geti orðið einhugur um það á þinginu að vinna þessu máli framgang. Ég held að þetta mál komi fram á réttum tíma. Það kemur fram í kjölfar þó nokkuð mikillar umræðu um kynferðisbrot gegn börnum, um vændi, um nauðganir og hvernig við eigum að taka á þeim brotum í hegningarlögunum. Þess vegna er það fagnaðarefni og ég held að það hafi verið mjög skynsamlegt hjá dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að kynferðisbrotakafli hegningarlaganna væri allur tekinn til endurskoðunar í einu eins og hér er gert og það er mjög vel.

Ég vek líka athygli á að í greinargerð með þessu máli eru tekin þau sjónarmið sem hafa verið uppi vegna allra þessara brota og þeim er velt upp. Það er ekki dregin fjöður yfir eitt eða neitt og öll sjónarmið sem hafa almennt verið í umræðunni eru tekin til umfjöllunar í greinargerðinni og krufin til mergjar. Hlutirnir eru vegnir og metnir og komist að niðurstöðu. Þetta er afar skýrt. Þetta er mjög gagnlegt fyrir þá vinnu sem við eigum fyrir höndum og við munum að sjálfsögðu leita álits og umsagna hjá umsagnaraðilum eins og venja er til. Ég skal ekkert útiloka að fleiri sjónarmið en þau sem reifuð eru í greinargerðinni komi þá fram en ég held að það sé engu að síður afar gagnlegt að málinu sé stillt fram með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Ég hlakka til þeirrar vinnu með nefndinni sem nú fer í hönd.