133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[13:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þessi tillaga til þingsályktunartillaga um úttekt á hækkun rafmagnsverðs er flutt af þingmönnum allra stjórnarandstöðuflokkanna, Frjálslynda flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, af fulltrúum frá öllum þessum flokkum.

Eins og hv. framsögumaður, Sigurjón Þórðarson, gerði grein fyrir hljóðar tillögugreinin á þá leið að gerð verði úttekt á því hvaða breytingar hafa orðið á rafmagnsverði til almennra notenda og fyrirtækja í kjölfar breytinga sem urðu á skipulagi raforkumarkaðarins áramótin 2004/2005 og gerð verði grein fyrir þróun raforkuverðs sundurliðað eftir helstu notendaflokkum og gjaldskrársvæðum. Lagt er til að niðurstaða úttektarinnar nái til allra viðskipta með raforku og liggi fyrir 15. febrúar 2007.

Það er ekki að ástæðulausu að þessi tillaga er flutt. Einkavæðing á rafmagni, markaðsvæðing á raforkugeiranum, sem keyrð var í gegnum þingið á árunum 2002–2003 og kom til framkvæmda að fullu um áramótin 2004/2005, var í sjálfu sér háskaleikur. Rafmagn til almennra notenda og til atvinnulífsins vítt og breitt um landið er hluti af þeirri grunnþjónustu sem íbúarnir þurfa að eiga aðgang að á jafnræðisgrunni óháð búsetu. Þetta var einmitt það sjónarmið sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum áherslu á í allri þessari umræðu.

Við lögðumst gegn einkavæðingu og markaðsvæðingu á rafmagninu. Við lögðum áherslu á að þetta væri grunnalmannaþjónusta og við ættum að beita sameiginlega kröftum okkar og orku til að byggja upp öflugt dreifikerfi fyrir raforkuna og raforkuvinnsluna á félagslegum grunni sem nýttist öllum landsmönnum jafnt. Markaðsstjórnin, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, vildi hins vegar einkavæða raforkukerfið. Það var mjög sérstakt að hlusta á það og upplifa að það var einmitt ráðherra Framsóknarflokksins sem hafði forgöngu um það verk. Það var iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins sem hafði forgöngu um það verk að markaðsvæða raforkugeirann. Því var lofað í þessu ferli að þetta mundi leiða til lækkunar á raforkuverði, a.m.k. ekki hækkunar, og ætti í sjálfu sér ekki að hafa áhrif á neina slíka verðmyndun. Þrátt fyrir það komu þráfaldlega fram ábendingar, yfirlýsingar og ályktanir frá íbúum landsins á hinum ýmsu stöðum um að hið þveröfuga hefði gerst, að raforkuverð hefði hækkað og þar af leiðandi skekkt samkeppni búsetu og atvinnulífs. Það er alveg hárrétt sem kemur hér fram, og hv. framsögumaður, Sigurjón Þórðarson, gerði grein fyrir að það eru einungis liðlega 20% af raforkunni sem eru á einhverjum slíkum markaðsgrunni, þ.e. bara sú raforka sem fer til almennra notenda og annarrar atvinnu en stóriðju. Stóriðjan er nú þegar með bundna samninga til næstu áratuga um raforkuverð og mun taka á næsta ári nálægt 80% af því rafmagni sem er á markaðnum á bundnu verði.

Hverjir eru þá að axla aukinn kostnað í raforkukerfinu? Það eru hinir almennu neytendur, það er hið almenna atvinnulíf í landinu. Hvaða sanngirni er það að stóriðjan borgi kannski 1/5 eða 1/7 eða 1/8 af því raforkuverði sem almennt atvinnulíf þarf að borga í landinu? Hvers konar samkeppnisstaða er það, hvers konar samfélag er verið að búa þannig út að allur almenningur eigi að greiða niður raforkuna til stóriðju?

Stjórnvöld og ráðherrar hafa ítrekað neitað að viðurkenna hér í ræðustól eða verið með undandrátt í því að greina frá hver niðurstaðan er í raforkuverðsþróuninni hér á landi eftir að einkavæðing raforkunnar hóf innreið sína. Því er þessi þingsályktunartillaga flutt þar sem þess er krafist að þetta komi allt upp á borðið og það ætti síst að vera stjórnvöldum á móti skapi að fá allan sannleikann í ljós ef þau halda fram að þetta hafi allt verið til bóta.

Eitt vildi ég nefna líka til dæmis um hvað gerist nú. Það búa ekki allir við sama borð hvað gæði raforkunnar varðar. Stór hópur notenda, stór hópur landsvæða fær einungis einfasa rafmagn. Allir vita að einfasa rafmagn nýtist ekki með sama hætti til atvinnulífsins, til að reka raforkumótora og annað slíkt sem þar þarf og þarna skekkist samkeppnisstaðan stórlega. Meðan Rarik var að fullu ríkisfyrirtæki var þó varið ákveðnu fjármagni á ári til fyrirtækisins til þess m.a. að styrkja dreifilínur í sveitum og til þess að breyta úr einfasa í þrífasa rafmagn. Núna er Rarik orðið að hlutafélagi og rekið á markaðsgrunni eins og það heitir á máli einkavæðingarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, og þá er ekkert í hendi með frekari þróun á þrífösun rafmagns þannig að þeir sem eru með einfasa rafmagn verða ekki einungis að borga það á sama verði og aðrir heldur með miklu lélegri gæðum til atvinnustarfseminnar.

Herra forseti. Þessi tillaga er flutt til að fá hið sanna í ljós. Við heyrum nú hvað gerðist við einkavæðingu Símans, að nýjasta skýrslan sem kom þar út sýndi að símgjöld hafa hækkað um 40% á fjórum árum þrátt fyrir að því hafi verið lofað við einkavæðingu og sölu Símans að annað mundi gerast. Áður en einkavæðing Símans fór fram vorum við með lægstu símgjöld í Evrópu, eða a.m.k. með þeim lægstu, en núna eftir fjögurra ára einkavæðingu, eftir tvö ár frá því Síminn var seldur, rjúkum við upp og símgjöld t.d. hvað GSM-þjónustu varðar hafa hækkað yfir 40% og nú trónum við þar á toppnum. (Forseti hringir.) Einkavæðing þessara flokka, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, kemur því alls staðar hart niður. Og við skulum fá (Forseti hringir.) hið sanna í ljós varðandi rafmagnið, herra forseti.