133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:15]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri á máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að við erum ekki mjög ósammála um að þetta mál verði skoðað og til hvers það eigi að leiða. (Gripið fram í: Sammála Kristni?) Velkominn í þingsal, hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Það sem menn ættu að geta verið nokkuð vissir um er að hluti ríkisstjórnarflokkanna, a.m.k. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og ég vona svo sannarlega að fleiri þingmenn úr ríkisstjórnarflokkunum taki undir að eðlilegt sé að taka málið út með þeim hætti sem við leggjum til og geri ekki athugasemdir við það þótt úttektin verði víðtækari. Menn geta þá útfært málið í nefnd ef það fær afgreiðslu í nefnd. En ég vonast vissulega til þess að skilja megi orð hv. þingmanns þannig að ríkisstjórnarhlutinn í þinginu muni fallast á að þetta mál verði unnið hratt og skipulega. Það eru sem sagt ekki nema rúmlega þrír og hálfur mánuður til þess að úttektin eigi að liggja hér fyrir og ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnarflokkarnir séu sammála okkur um að þetta verði unnið á þeim tíma og að þeir styðji málið. Ég heyri á máli hv. þingmanns að hann gerir það fyrir sitt leyti en ég spyr hv. þingmann hvort ætla megi að þingflokkur Framsóknar sé almennt sammála því að þessi mál verði endurskoðuð og að lagt verði mat á niðurstöðurnar og ég vona að svo sé og iðnaðarráðherra núverandi og fyrrverandi muni ekki leggjast gegn því að þannig verði unnið.