133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:32]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil að hv. þm. Kristin H. Gunnarsson sé á handahlaupum og flótta í þessu máli. Engu að síður verður hann að axla þá ábyrgð að vera fulltrúi Framsóknarflokksins, sem hefur barið markaðsvæðinguna á raforkukerfinu í gegn. Þótt hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi oft og tíðum hlaupið út undan sér í þeim efnum þá er hann engu að síður ábyrgur fyrir stefnunni sem flokkurinn hefur þar rekið. Þá er gripið til svona útúrsnúninga. Ég hef alls ekki sagt að það væri ekki eðlilegt að menn nýttu orkuauðlindir til að virkja þegar það telst hentugt og liggur vel við.

Ég vil leggja áherslu á, og þar greinir okkur hv. þm. Kristin H. Gunnarsson á, að ég lít á raforkuna sem grunnalmannaþjónustu fyrir atvinnulíf og búsetu vítt og breitt um landið. Ég sé ekki að samkeppnishugmyndir Framsóknarflokksins tryggi rafmagn á bestu kjörum, t.d. norður um Strandir eða út um Vestfirði, að samkeppni í raforkusölu tryggi jafnræði í framboði raforku til allra landsmanna. Á stórum svæðum mun það sjálfsagt hægt en við verðum að minnast þess að það eru aðeins liðlega 20% af raforkunni sem eru á þessum markaði. Hitt er allt bundið í stóriðjusamningum sem hafa síðustu árin m.a. verið gerðir að frumkvæði og undir forustu Framsóknarflokksins.

Þeir raforkusamningar eru ekki á neinum markaði, herra forseti.