133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:34]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru tveir þættir sem mér finnst að hv. þingmaður þurfi að skýra betur afstöðu sína. Varðandi framleiðsluna mátti skilja hann núna í andsvari þannig að hann væri hlynntur því að einkaaðilar framleiddu rafmagn.

En síðan er það söluþátturinn. Í dag er kerfið þannig að hver sem er getur selt rafmagn. Kaupendur á höfuðborgarsvæðinu geta keypt rafmagn af hvaða fyrirtæki sem er. Þeir þurfa ekki að kaupa það af Orkuveitu Reykjavíkur. Þeir geta keypt það af Orkubúi Vestfjarða eða öðrum slíkum aðilum. Þannig er kerfið.

Það er samkeppni, eða á a.m.k. að vera samkeppni á söluþættinum. Það eru að minnsta kosti margir aðilar sem selja rafmagn. Það er svo athugunarefni hvort ekki sé samkeppni á milli þeirra um verð. Það þurfum við að skoða.

En er hv. þingmaður á móti því að margir aðilar megi selja rafmagn og margir aðilar megi framleiða rafmagn? Það var breytingin. Hitt er óbreytt í eðli sínu, að dreifingin er eitt miðstýrt kerfi, fyrst og fremst í opinberri eigu. Á því hefur ekki orðið breyting frá því sem var. Varla er þingmaðurinn að lýsa yfir andstöðu við að hafa það óbreytt í meginatriðum sem var.

Breytingar á verðlagningu vegna innbyrðis jöfnunar hafa haft áhrif á gjaldskrá. Ég hygg að gagnrýnin á verðmyndunina sé fyrst og fremst á þær breytingar. Ég get að mörgu leyti tekið undir að þær breytingar hafa leitt til hækkunar umfram það sem eðlilegt er hjá ákveðnum notendum. Menn hafa látið dreifbýlisnotendur borga meira og þéttbýlisnotendur borga minna og losað þá undan því að taka þátt í jöfnuninni út í sveitirnar eins og áður var. Ég held að sá þáttur sé hvað umdeildastur og hafi vakið hvað mesta óánægju.