133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú gerist þingmaðurinn gamansamur. Ég skal svara honum þó að það hafi komið skýrt fram í máli mínu hver afstaða mín er.

Ég er ekki sáttur við breytingarnar á innri verðjöfnun í kerfinu á milli notenda, eins og ég lýsti áðan í ræðu minni. Ég tel að menn hafi gengið of langt inn á þá braut að láta dreifbýlið bera fullan þunga af dreifingarkostnaðinum til þess og aflétta því af þéttbýlinu að taka þátt í því. Mér finnst gengið of langt í þá veru. Ég held að aðalóánægjan í kerfinu sé sú að þessar gjaldskrárbreytingar hafa leitt það af sér að t.d. bændur hafa mátt þola hærra verð og hærra verð en við sögðum að mundi verða. Þess vegna segi ég og ítreka: Það á að standa sem menn sögðu. Menn eiga að gera lagfæringar á þessu þannig að kostnaður þeirra í dreifbýlinu verði í samræmi við það sem menn sögðu á sínum tíma. Það er því enginn efi um afstöðu mína í þeim efnum.

Ég er ekki viss um að menn eigi að stíga til baka yfir í einkaleyfi ríkisins í framleiðslu rafmagns. Það er kannski aðalgallinn á stóriðjunni til þessa að ríkið hefur verið að semja við einn aðila, veita sérstaka afslætti í formi ívilnandi skattareglna og slaka niður orkusöluverðinu þannig að menn taki hagnaðinn bara út í þjóðhagslegum umsvifum en ekki arðsemi framkvæmdarinnar. En með því að einkavæða framleiðsluna fara menn ekki í stórar virkjanir nema kaupandinn borgi það verð sem þarf til að standa undir kostnaðinum og ég held að það sé til bóta, virðulegi forseti.