133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[15:01]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Er þetta mál eitt af þeim málum sem stjórnarandstaðan á Alþingi ber fram sameiginlega í upphafi þessa haustþings.

Frumvarpið byggist á þremur málum sem öll hafa verið flutt á Alþingi áður af stjórnarandstöðuflokkunum Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Flutningsmenn þessa frumvarps, þegar þessi mál hafa verið sameinuð í eitt, eru auk mín hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og formenn stjórnarandstöðuflokkanna, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson.

Málin þrjú sem hér eiga í hlut er í fyrsta lagi mál sem ættað er frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem felur í sér tæki til að framfylgja lagaskyldu um jöfn laun karla og kvenna. Síðan eru tvö frumvörp frá Samfylkingunni, annað varðar afnám launaleyndar og hitt varðar úrskurði kærunefndar jafnréttismála, þ.e. að þeir verði bindandi.

Í greinargerð með þessu frumvarpi má lesa rökstuðning sem ég renni yfir í stuttu máli. Þar ber fyrst að nefna hugmyndir varðandi launaleynd en það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að launaleynd er eitt af þeim atriðum sem virðist hafa fest í sessi landlægan og kerfisbundinn launamun milli kynjanna. Það má færa rök að því að launaleyndin stangist á við jafnréttislög þar sem hún getur beinlínis stuðlað að lögbroti, þ.e. broti á þeim lögum sem hér um ræðir, ef hún er þess valdandi, sem kannanir sýna ítrekað, að viðhalda launamun kynjanna.

Þessi launaleynd hefur tíðkast lengi án þess að látið hafi verið reyna á lögmæti hennar. Við sem flytjum þetta mál teljum rétt að taka af öll tvímæli um að það sé skýlaus réttur launamanns að veita hverjum sem er, hvenær sem er, upplýsingar um laun sín og önnur starfskjör ef hann svo kýs. Við teljum að þessi réttur þurfi að vera lögbundinn þannig að ljóst sé að hann verði hvorki af launamanni tekinn með starfs- eða ráðningarsamningi né á nokkurn annan hátt.

Við vitum öll sem í þessum sal sitjum að það eru 45 ár síðan fyrstu lögin um launajafnrétti kynjanna tóku gildi. Það var árið 1961 sem fyrsta lagasetning þess efnis var sett á Alþingi og við sjáum það í afar nýlegri könnun hversu hægt hefur miðað. Í könnun sem félagsmálaráðuneytið lét gera og birtar voru upplýsingar um í fjölmiðlum hinn 20. október sl. kemur í ljós að kynbundinn launamunur á íslenskum vinnumarkaði hefur ekkert breyst undanfarin 12 ár, frá því að síðasta viðamikla könnun í þessum efnum var gerð. Launamunurinn eykst stöðugt hjá einkafyrirtækjunum og til marks um það að við teljum launaleyndina geta verið virkan þátt í því má auðvitað geta þess að launaleynd og samningar sem binda launamenn trúnaði um launagreiðslur eru fremur gerðir hjá einkaaðilum. Það leiðir af sjálfu sér þar sem kjarasamningar opinberra starfsmanna gera ekki ráð fyrir að launaliðirnir fari leynt.

Það er auðvitað alvarlegt mál sem taka þyrfti til ítarlegrar umfjöllunar að í niðurstöðu þeirrar könnunar sem félagsmálaráðuneytið lét gera kemur í ljós að í einkafyrirtækjunum eru hæstu dagvinnulaun með aukagreiðslum á klukkustund næstum því 26 sinnum hærri en þau lægstu. Það kemur líka í ljós að munurinn á hæstu og lægstu launum karla er miklu meiri en munurinn á hæstu og lægstu launum kvenna hjá einkafyrirtækjum. Sömuleiðis má nefna að munurinn hjá opinberu stofnununum er talsvert minni en hjá einkafyrirtækjunum eða innan við tífaldur og þar er jafnframt meiri munur á hæstu launum kvenna en karla.

Það er ljóst að ef taka á á þessum málum af alvöru verður að beita ráðum sem virka. Það kemur í ljós þegar hæstv. félagsmálaráðherra tjáir sig um þessi mál að hann telur brýnasta verkefnið í jafnréttismálunum að leiðrétta þennan landlæga launamun milli kynjanna. Hann segir að niðurstöður þessara rannsókna hafi valdið sér miklum vonbrigðum. Hann tiltekur að það sé auðvitað jákvætt að konur virðist samkvæmt könnuninni hafa sýnt meiri dugnað upp á síðkastið við að sækjast eftir stöðuhækkunum og hann segir líka að stjórnendur séu eftir því sem fram kemur í henni líklegri en áður til að hvetja konur til að sýna frumkvæði í starfi og koma fram fyrir hönd fyrirtækjanna. Hins vegar viðurkennir ráðherrann að þetta skili sér ekki í launaumslagi kvennanna. Hann tekur þannig til orða að nú þurfi allir að bretta upp ermarnar eina ferðina enn, hæstv. félagsmálaráðherra, sem ekki hefur verið sami einstaklingurinn undanfarin 12 ár en er núna hv. þm. Magnús Stefánsson, segir: Við viljum útrýma þessum launamun. Nú er það svo að það hefur verið vilji ríkisstjórna frá árinu 1961. Það hefur verið vilji Alþingis sem Alþingi hefur reynt að leiða í lög en lagasetningin virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri. Mér finnst að ekki hafi verið tekið nægilega hraustlega á og við sem erum aðstandendur þessa frumvarps leggjum til leiðir sem eiga að vera öflugri en þær sem menn hafa talið sig hafa tök á að beita í þessum efnum hingað til.

Þá er ég komin að öðrum þætti í þessu frumvarpi sem varða tæki til handa Jafnréttisstofu sem hefur ákveðnu hlutverki að gegna til að reyna að ná þessum launamun niður og reyna að leiðrétta hann en hún hefur hingað til ekki haft þau tæki í höndunum sem að okkar mati eru nægileg eða duga til að skipta sköpum í baráttunni. Gert er ráð fyrir því samkvæmt frumvarpinu að Jafnréttisstofa geti hafið rannsókn og gagnaöflun að eigin frumkvæði að mótteknum kvörtunum eða í kjölfar kæru til kærunefndar jafnréttismála. Þetta eru heimildir sem væru svipaðar þeim heimildum sem mælt er fyrir um í skattalögum, í samkeppnislögum og lögum um eftirlit með fjármálastarfsemi og okkur flutningsmönnum frumvarpsins þykir í raun og veru veigameiri rökin fyrir því að veita Jafnréttisstofu sambærilegar heimildir til að hægt sé að tryggja konum þau mannréttindi sem konur eiga bundin í stjórnarskrá. Í 5. gr. þessa frumvarps er því mælt fyrir um að settur verði jafnréttisfulltrúi í fyrirtæki og stofnanir, bæði í einkafyrirtæki og opinberar stofnanir. Það teljum við vera í anda heimilda og þeirra úrræða sem kveðið er á um í 1. mgr. 11. gr. gildandi laga um skipun jafnréttisfulltrúa hjá sérhverju ráðuneyti og hlutverk þeirra. Þó er mælt fyrir um aukin verkefni jafnréttisfulltrúa hjá einkafyrirtækjum.

Það hefur komið í ljós í umræðum um þessi mál að það sé mat sérfróðra aðila um jafnréttismál og sömuleiðis virðast tölfræðilegar upplýsingar sýna það að staða kvenna hjá einkafyrirtækjunum sé talsvert verri en hjá ríki og sveitarfélögum og jafnréttisáætlanir, hvort heldur er einkafyrirtækja eða ríkis og sveitarfélaga en kannski fyrst og fremst einkafyrirtækja, virðast vera haldlitlar og þær skila að engu leyti þeim árangri sem til var ætlast. Þar er bæði kynbundinn launamunur og munur á heildartekjum karla og kvenna meiri en í opinbera geiranum. Sömuleiðis má auðvitað nefna að valdaleysi kvenna í stjórnum einkafyrirtækja, einkum stórfyrirtækjanna, er auðvitað sláandi og það endurspeglar ekki að neinu leyti menntun kvenna, hæfni þeirra eða reynslu, sem er líka alvarlegur hlutur og verður að taka til umfjöllunar þegar þessi mál eru rædd.

Eins og ég sagði áðan eru starfsmenn ríkis og sveitarfélaga kannski betur settir vegna þeirra réttinda sem þeir njóta samkvæmt kjarasamningunum. Þeir njóta meiri verndar en starfsmenn á almenna markaðnum gegn mismunun, samkvæmt stjórnsýslulögum og samkvæmt upplýsingalögum sem ekki hafa verið færð yfir á einkarekstur eins og vitum. Auðvitað er það hættulegt í hvaða átt stefnir í þessum efnum þegar haldið er á spöðunum eins og ríkisstjórnin gerir varðandi hlutafélagavæðingu opinberra stofnana og fyrirtækja og einkavæðingu opinberra stofnana og fyrirtækja því allt ber þetta að sama brunni: Ef fyrirtækjum eða stofnunum er kippt undan upplýsingalögum og stjórnsýslulögum eru líkur á að launaleyndin fari að gera vart við sig. Þar af leiðandi náum við ekki að brúa þennan kynbundna launamun.

Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að sami háttur verði hafður á við skipun og tilnefningu í nefndir, ráð og stjórnir ríkis og sveitarfélaga og er við tilnefningar á skipun í Jafnréttisráð. Lagt er til að tilnefningaraðilar tilnefni einn karl og eina konu þannig að veitingarvaldið hafi þar val og geti við það gætt þess að hlutfall kynjanna verði sem jafnast. Með lögfestingu þessarar tillögu má ætla að það heyri sögunni til að nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga verði eingöngu eða að miklum meiri hluta skipaðar körlum og er sannarlega mál til komið.

Að lokum geri ég grein fyrir þeim þætti frumvarpsins sem varðar kærunefnd jafnréttismála en þar er um að ræða mál sem kemur upphaflega frá Samfylkingunni eins og ég sagði áðan og var 1. flutningsmaður þess hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Hún hefur sem kunnugt er gert hér að umræðuefni oftar en einu sinni málefni sem varða kærunefnd jafnréttismála og að nauðsynlegt sé að gera úrskurði kærunefndarinnar bindandi. Eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um réttindi kvenna hefur gagnrýnt Ísland fyrir að niðurstöður kærunefndarinnar skuli ekki vera bindandi, sérstaklega þegar stjórnvöld eiga hlut að máli. Nefndin hefur gert það að tillögu sinni í skýrslu til íslenskra stjórnvalda að álit kærunefndarinnar verði bindandi og er það skýrt nánar í greinargerð á hvern hátt verkefni kærunefndar jafnréttismála eru. Sömuleiðis er að finna í greinargerðinni upplýsingar frá kærunefndinni um fjölda erinda og afdrif þeirra í stuttu yfirliti. Stjórnvöldum ber auðvitað skylda til að sjá til þess að jafnréttislögum sé framfylgt. Það er kunnara en frá þurfi að segja og þarf ekki að ítreka það úr þessum ræðustóli. Jafnréttislög kveða á um það að jafnréttissjónarmiða skuli gætt á öllum sviðum samfélagsins og unnið sé að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku. Reynslan sýnir að ákvæðið um kærunefndina virkar ekki eins og til var ætlast, því að veruleg brögð eru að því að álit nefndarinnar sé ekki virt. Þetta frumvarp er flutt til að reyna að bæta úr þeirri brotalöm. Þess ber að geta að Norðurlöndin hafa vakið athygli víða um heim fyrir framsýni og baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og þau hafa öll kappkostað að ganga eins langt í löggjöf og hægt er til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna. Með samþykkt þessa frumvarps væri framkvæmd þessa ákvæðis jafnréttislaga okkar fært nær því sem er annars staðar á Norðurlöndunum og teljum við vera mál til komið.

Loks má geta þess að á vorþinginu 2004 var frumvarp sem var að mestu leyti um sama efni tekið til 1. umr. Því máli var vísað til félagsmálanefndar. Nefndin fjallaði því miður ekki um málið eins og oft gerist en engu að síður viljum við taka fram að það hlýtur að vera sameiginlegur vilji þeirra sem starfa í félagsmálanefnd og okkar á þinginu, sem viljum auðvitað fara að lögum, að tekið sé á þessum málum svo eftir verði tekið. Það er enn brýnni nauðsyn á þeim úrræðum sem þetta frumvarp felur í sér nú en nokkru sinni fyrr því að við getum ekki haldið öllu lengra áfram inn á 21. öldina með öll þessi mál í þeim ólestri sem raun ber vitni. Það hefur ekkert þokast í þjóðfélaginu í átt til launajafnréttis á síðustu árum, við vitum öll að verið er að fremja mannréttindabrot á konum með viðvarandi kynbundnum launamun og sömuleiðis með áberandi fákvenni í nefndum, stjórnum og ráðum og það breytist ekkert því lengra sem við höldum áfram á þessari braut. Þetta verður meira óþolandi og sýnilegra eftir því sem tímarnir líða og það er auðvitað hjákátlegt þegar ríkisstjórnin hefur yfirlýst markmið og er að fara eftir samþykktri jafnréttisáætlun að ekkert skuli þokast varðandi breytingar. Það þokast ekkert í átt að útrýmingu launamunarins og sáralítið í átt að jafnrétti við opinbera stefnumótun.

Það er athyglisvert þegar litið er yfir umfjöllun fjölmiðla núna síðustu daga vegna þeirrar könnunar sem ég gat um áðan að atvinnurekendur virðast ekki hafa sömu áhyggjur og við í stjórnarandstöðunni af þessari þróun eða staðreyndum sem ég nú hef rakið. Þannig vekur það athygli þegar Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir á forsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 20. október að rannsóknir hafi sýnt að óútskýrður launamunur — sá óútskýrði launamunur sem fram kemur í könnuninni sem ég gat um — eigi sér efnislega skýringar en sé ekki kerfisbundin kynjamismunun.

Þetta er afar athyglisvert og stangast á við þær fullyrðingar okkar stjórnarandstöðuþingmanna sem höldum því einmitt fram að þessi launamunur sé kerfisbundinn. Það hlýtur að vekja athygli þegar frammámaður úr atvinnulífinu kemur fram með þessi sjónarmið. Þetta vekur upp hugsunina um það að almenni vinnumarkaðurinn virðist, ég veit ekki hvort ég á að segja sætta sig við, eða alla vega gera afar lítið í því að reyna að færa mál hér til betri vegar. Það sýnir sig þegar við skoðum muninn á þessum málum annars vegar hjá á opinbera geiranum og hins vegar hjá almenna geiranum eða einkageiranum.

Í Viðskiptablaðinu 25. október síðastliðinn skrifaði Katrín Anna Guðmundsdóttir, talskona Femínistafélagsins, afar athyglisverða grein þar sem hún heldur því fram að miðað við núverandi hraða við það að minnka launamun kynjanna muni karlar og konur njóta sömu launa fyrir sömu störf eftir 628 ár. Ég spyr þingheim: Finnst okkur þetta ásættanlegt? Ég ætti auðvitað að spyrja ríkisstjórnina og stjórnarþingmenn, þingmenn stjórnarflokkanna: Finnst ykkur þetta ásættanlegt? Finnst þeim þetta ásættanlegt sem stjórna hér, fara fyrir ríkisstjórn í landinu og styðja ríkisstjórnina? Finnst þeim ásættanlegt að það skuli eiga eftir að taka okkur 628 ára í viðbót með sama hraða að jafna þennan launamun? Við í stjórnarandstöðunni höfum talað skýrt í þessum efnum. Okkur finnst þetta ekki ásættanlegt.

Við viljum grípa til úrræða sem virka, úrræða sem ríkisstjórnin hefur veigrað sér við að grípa til hingað til. Við vitum það öll að baráttan fyrir launajafnrétti er ekkert að hefjast í dag eða í fyrradag og hún hófst ekki heldur 1961 þegar fyrstu lögin sem bönnuðu launamun á grundvelli kynferðis voru sett. Baráttan fyrir launajafnrétti hefur staðið í yfir 100 ár. Hvað ætla menn að láta þá baráttu hér úti á akrinum halda áfram lengi? Við kjósum þingmenn til starfa á Alþingi Íslendinga á fjögurra ára fresti. Stjórnmálaflokkarnir fara allir fram með fögur fyrirheit. En þeir stjórnmálaflokkar sem nú fara fyrir ríkisstjórninni og hafa farið fyrir þessari ríkisstjórn síðan 1995 eru vita gagnslausir í þessum efnum. Svo móðgast hæstv. félagsmálaráðherra sem sýnir okkur hv. þingmönnum ekki einu sinni þá tillitssemi að vera viðstaddur umræðuna. Hann móðgaðist þegar ég um daginn leyfði mér að segja fullum fetum í þessum ræðustóli að ríkisstjórnin sé vita gagnslaus í þessum málum. Þá var hann í orðaskiptum við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vegna þessara brota á lögum um jafnan rétt karla og kvenna og það mátti vart orðinu halla við hann. Hann, eins og ég segi, „fornemast“ við það að maður leyfi sér að tala hér tæpitungulaust. En staðreyndirnar tala sínu máli í þessum efnum. Ríkisstjórnin er liðónýt í baráttunni við launamun kynjanna.

Eitt af því sem verður að hafa í huga þegar við skoðum þessi mál er að ekki er allt sem sýnist varðandi launamun sem við nú erum að fjalla um, sem er u.þ.b. 16% eftir því sem könnunin leiðir í ljós og uppsláttur fjölmiðla sýnir þjóðinni. Staðreyndin er sú að búið er að leiðrétta heilan helling áður en þessar tölur, 16%, verða til eða koma í ljós. Hvernig rökstyð ég það? Jú, heildarmyndin, sem sagt óleiðréttur launamunur kynjanna, fæst með því að skoða muninn á atvinnutekjum karla og kvenna, þ.e. tekjum samkvæmt skattframtali og samkvæmt þeim tölum sem ég er hér með nýjastar — þær eru frá 2004 — er munurinn á atvinnutekjum karla og kvenna 63% árið 2004.

Við þetta hafa oft verið gerðar athugasemdir, þ.e. að verið sé að leiðrétta launamuninn og tala hann niður úr 63% niður í 16%. Meðal fræðimanna sem hafa tekið á þessum málum er Þorgerður Einarsdóttir, dósent í kynjafræði við Háskóla Íslands. Hún sagði í grein í Morgunblaðinu fyrir ári síðan, 2. nóvember 2005, að umræðan hafi snúist talsvert um forsendur og aðferðafræði kannananna og það hvernig mælt sé eða með hvaða aðferðum og hvernig beri að túlka niðurstöðurnar, en minna sé fjallað um hinn raunverulega mun sem sýnir sig þegar atvinnutekjurnar eru skoðaðar hráar. Þær tölur sýna einföldustu nálgunina, segir Þorgerður, og í þeim er ekki tekið tillit til vinnutíma, ekki tekið tillit til þess að konur og karlar sinni ólíkum störfum. Kosturinn við að skoða atvinnutekjur er að mati Þorgerðar sá að þær sýna mismunandi vinnuframlag kynjanna í launaðri og ólaunaðri vinnu í samfélaginu. Konur vinna mikla ólaunaða vinnu inni á heimilum landsins sem allt þjóðfélagið nýtur góðs af en kemur hvergi fram í þjóðhagsreikningum og telst þeim aldrei til tekna. Atvinnutekjurnar sýna því hvað konur og karlar bera úr býtum launalega fyrir vinnuframlag sitt í þjóðfélaginu.

Þegar farið er að leiðrétta launamuninn með tilliti til þeirra þátta sem menn telja vera málefnalega er skoðaður vinnutími, menntun, starfsaldur og fleira í þá veruna. Eftir slíka skoðun eru laun kvenna ekki eins miklu lægri en karla. En þá spyr maður sig: Hvers vegna ætti maður að draga þessa þætti frá eða láta þessa þætti hafa áhrif því að þetta eru kannski bara hinar eiginlegu kynjabreytur? Það sem við þurfum að leiðrétta í samfélaginu eru hlutir eins og þeir að konur hafi í auknum mæli mannaforráð í störfum sínum, að konur hafi í auknum mæli þau störf sem lúta að stjórn fyrirtækja, stjórn í rekstri, að þær fái yfirmannastöður. Þá fengjum við út miklu réttari mynd eða miklu sanngjarnari mynd en við fáum þegar við skoðum þetta með leiðréttum breytum.

Þorgerðar Einarsdóttur, sem ég nefndi áðan, er getið í grein sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudaginn var þar sem fjallað er um launamun kynjanna og hina 45 ára löngu baráttu frá því 1961 að því markmiði að reyna að jafna þennan mun. Vitnað er í Þorgerði í þeirri grein þar sem hún segir að þessar skýribreytur svokölluðu séu umdeildar og eigi að vera það því að skýribreyturnar skipti grundvallarmáli. Almennt gildi að því fleiri skýribreytur sem teknar eru inn í reiknilíkön launakannana því meira má skýra af launamun kynjanna.

Vitað er að margir þættir hafa áhrif á laun án þess að geta talist málefnalegar skýribreytur. Þannig hafa hjúskaparstaða og barneignir tilhneigingu til að hækka laun karla en neikvæð eða engin áhrif á launamun kvenna. Fræðimenn hafa gagnrýnt að þessar breytur séu notaðar sem skýribreytur og að líta beri á þennan mun sem mismun í launasetningu. Þá hefur verið gagnrýnt að nota málaflokka eða starfssvið sem skýribreytu því vitað er að kvennastörf eru verr metin til launa en karlastörf. Það er merki um kerfislæga mismunun og gildismat á störfum öðru kyninu í óhag. Með því að taka slíka breytu sem málefnalega skýribreytu inn í reiknilíkan er horft fram hjá samfélagslegri kynjun og fyrri mismunun. Þar með er í raun verið að skýra kynbundinn launamun í burtu með þáttum sem orsaka hann. Færð hafa verið fyrir því margvísleg rök að of langt hafi verið gengið í leit að skýribreytunum, segir Þorgerður Einarsdóttir, þar sem vitnað er til orða hennar í Morgunblaðinu um síðustu helgi.

Þetta er alvarlegt og til umhugsunar í þessari umræðu og sýnir okkur að launamunurinn er talsvert meiri þegar grannt er skoðað en þessi 16% gefa okkur tilefni til að ætla. Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft sýni þær umræður, sem hafa verið í blöðum og fjölmiðlum upp á síðkastið um þessi mál og í sölum Alþingis ár eftir ár, á hverju einasta ári, það er árvisst fjallað um þessi mál hér, að karlveldið lifir góðu lífi á Íslandi og því miður eru afar fá sýnileg merki um að það sé á undanhaldi. Það er í mínum huga mjög alvarleg staðreynd. Ég held að ég láti það verða lokaorð mín í þessari flutningsræðu minni að hvetja þingheim til að vakna af þyrnirósardvala, viðurkenna að þau tæki og aðferðir sem menn hafa beitt hingað til eða sagst vera að beita til þess að fást við launamun kynjanna séu vita gagnslaus, fara að hlýða á hugmyndir stjórnarandstöðunnar sem eru vel útfærðar í þessu frumvarpi og leyfa sér þann munað að koma frumvarpinu alla leið í gegnum nefndir Alþingis, færa það hingað aftur fram til atkvæðagreiðslu og samþykkja það fyrir vorið. Það væri okkur, þingheimi, til sóma því að þar með værum við komin með raunhæft tæki sem gæti gefið möguleika á að koma í veg fyrir áframhaldandi lögbrot og mannréttindabrot sem konur í þessu landi þurfa að þola.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, óska ég eftir að þessu máli verði vísað til félagsmálanefndar.